Æskilegt er að huga að ýmsum atriðum til að stuðla að gæðum prófa. Hér verða talin nokkur atriði.

 1. Skýr og vönduð framsetning prófheftis. Ef um formlegt yfirlitspróf við lok námskeiðs er að ræða, þarf að hafa forsíðu með tilheyrandi upplýsingum um tíma, lengd prófs, fjölda blaðsíðna, vægi hvers prófhluta og hvaða hjálpargögn eru leyfð. Hafa blaðsíður tölusettar og tilgreina vægi allra prófatriða.
 2. Röð og gerð prófatriða. Uppsetning, röð og gerð prófatriða fer vitanlega eftir eðli og aðstæðum. Almennt er þó heppilegt að fylgja tveimur meginreglum:
  a) Hafa prófatriði af sama tagi saman, t.d. krossaspurningar fyrst o.s.frv.
  b) Raða prófatriðum eftir þyngd, þ.e. meint létt atriði framar en þung atriði aftar. Rannsóknir sýna að nemendur leggja sig betur fram í prófi ef þeir skynja að vandað hefur verið til verka við prófgerðina og fjölbreytni í framsetningu (mismunandi prófatriði, myndir, gröf o.s.frv.) hefur hvetjandi áhrif á nemendur auk þess sem slíkt eykur áreiðanleika og réttmæti.
 3. Orðalag í fyrirmælum til próftaka. Til að matsatriði í prófi missi ekki marks þarf próftakinn að skilja fyrirmælin sem fylgja, til dæmis í stofni krossaspurningar eða í opinni, huglægri spurningu. Lykilatriði er því að lesa yfir allt að prófsamningu lokinni og fá jafnvel aðra til að lesa yfir með ,,gleraugum” dæmigerðs próftaka.
 4. Svarmöguleikar í krossaspurningum. Vanda þarf gerð svarmöguleika í krossaspurningum. Ekki hafa sömu orð eða orðasambönd í öllum svarmöguleikum. Forðast að nota möguleikann „allt ofanritað er rétt“ og möguleikinn „Ekkert af þessu er rétt“. Hafa breytilega staðsetningu á rétta möguleikanum. Nota handahófskennda aðferð.
 5. Ekki þéra próftaka og ekki ávarpa alla í einu. Ávarpaðu próftakann beint, með öðrum orðum hafðu fyrirmæli á þessa lund: „Lýstu …“, „Greindu frá …“ eða „Leystu …“ en ekki svona: „Lýsið …“, Greinið frá …“ eða „Leysið …“
 6. Vanda framsetningu texta. Gæta að stafsetningu og greinarmerkjasetningu og huga að mögulegum innsláttarvillum eða málvillum, auk þess sem vandað og hnitmiðað orðalag getur skipt sköpum. Forðast óþarfa málalengingar.
 7. Láta erlend orð yfir hugtök og hugmyndir fylgja ef byggt er á námsefni á erlendu máli.
 8. Meta gildi einstakra prófatriða. Það er hagur bæði nemenda (próftaka) og kennara (prófsemjanda) að rýna í niðurstöður eftir á og ræða. Ræða til dæmis um prófatriði sem margir reynast hafa svarað rangt og þá hvernig og hvers vegna. Atriðagreining felst í að rannsaka öll svör, líka villusvör í krossaspurningum svo eitthvað sé nefnt.
 9. Atriðagreining – greiningarhæfi. Meðal vísbendinga um gæði prófs eru greiningarhæfi og þyngdarstig einstakra prófatriða. Þetta má kanna með einföldum hætti. Greiningarhæfi (greinihæfni) prófspurningar fæst með því að bera saman svör sterkra nemenda og slakra nemenda við spurningunni. Þetta má t.d. gera með því að skipta hópnum í þrennt eftir árangri á prófinu. Segjum að 30 manns hafi tekið prófið, þá eru tíu í efsta hópnum og tíu í lægsta hópnum. Segjum að sex af tíu í hærri hópnum hafi svarað spurningunni rétt og tveir í lægri hópnum. Þá getum við reiknað greiningarhæfi þannig: (6-2)/10 = 4/10 = 0,4. Greiningarhæfi spurningar er mest þegar útkoman er 1,0. Þá er þyngdarstigið (sjá hér á eftir í lið 10.) 50% sem má líta á sem nokkurs konar „ideal“. Ef próftakar hafa verið færri en 20 skiptir maður hópnum einfaldlega í tvennt, efri og neðri, og reiknar út frá því. Ef próftakahópurinn er stór (>40) þá er mælt með því að hafa 25%-27% í hvorum hópi, efri og neðri.
 10. Atriðagreining – þyngdarstig prófspurningar fæst með því að skoða hve mörg prósent nemenda svara henni rétt. Nóg er t.d. að skoða þá tíu sem fengu hæstu einkunnir og tíu lægstu í 30 manna námshópi. Segjum að 8 samtals hafi svarað spurningunni rétt, þá er þyngdarstigið 8/20 = 40%. Spurningin er þeim mun erfiðari sem þessi tala er nær 0.
 11. Ágiskanir. Próftakar sem lítið kunna hafa tilhneigingu til að reyna að giska á rétt svör fremur en að skila auðu. Til eru formúlur til að notast við þegar beita á frádrætti vegna rangra svara í krossaspurningum. Eftirfarandi formúla er oft nefnd: S = R –W/(n-1). Þarna merkir S= Einkunn (e. score), R = Fjöldi réttra svara, W = Fjöldi rangra svara og n = Fjöldi svarmöguleika í krossaspurningum. Ýmsir hafa þó bent á (Sjá t.d. Burton o.fl., 1991; Gronlund og Waugh, 2009) að próftakar hagnist í raun lítið á því að giska á rétt svör í krossapurningum sbr. eftirfarandi töflu:
Fjöldi krossaspurninga í prófi, hver með fjóra svarmöguleika Líkur á að fá 70% eða meira rétt með ágiskunum
2 1 á móti 16
5 1 á móti 64
10 1 á móti 285
15 1 á móti 8.670
20 1 á móti 33.885
25 1 á móti 942.651

Höfundur

Meyvant Þórólfsson. (2018). Skrifleg próf á vef Kennslumiðstöðvar HÍ.

 

Heimildir

Burton, S. J., Sudweeks, R. R., Merrill, B. W. og Wood, B. (1991). How to prepare better multiple-choice test items: Guidelines for university faculty. Brigham Young University Testing Services and The Department of Instructional Science. https://testing.byu.edu/handbooks/betteritems.pdf.

Gronlund, N. E. og Waugh, C. K. (2009). Assessment of student achievement. New Jersey: Pearson.