Sögulegt ágrip

Kennslumiðstöð Háskóla Íslands var formlega stofnuð þann 31. ágúst 2001 en hafði raunar starfað í um tvö ár fyrir þann tíma. Kennslumiðstöð varð til í kjölfar umræðu og samvinnu áhugasamra starfsmanna Háskólans sem höfðu trú á að hægt væri að styðja betur við kennsluhætti í skólanum og koma þannig til móts við þarfir fleiri kennara og nemenda.

Upphaf Kennslumiðstöðvar má rekja til verkefnahóps um fjarkennslu sem var settur á laggirnar að tilstuðlan Páls Skúlasonar, fyrrverandi rektors. Árið 1998 veitti Menntamálaráðuneytið Háskóla Íslands fjárframlag til eflingar upplýsingatækni innan skólans. Styrkurinn var nýttur til þess að efla tæknistudda fjarkennslu við Háskólann og að sameina á einum stað umsjón með menntun kennara, tæknilega og kennslufræðilega aðstoð og umsjón með tæknilegum verkefnum varðandi kennslu.

Kennslumiðstöð hefur sinnt fjölbreyttum verkefnum frá stofnun. Í upphafi var boðið upp á ýmis námskeið í notkun tölvuforrita fyrir kennara og starfsfólk en smám saman jókst áhersla á kennslufræði háskólakennslu og hvernig nýta mætti upplýsingatækni til stuðnings við kennslu. Kennslumiðstöð hefur einbeitt sér að því að efla umræðu um nám og kennslu innan deilda og styðja þær í að standa sjálfar í forsvari fyrir kennsluþróun. Mikil áhersla hefur verið lögð á fjölbreytt námskeið fyrir kennara, m.a. um framkomu og ræðumennsku, fjölbreytta kennsluhætti og notkun upplýsingatækni í kennslu.

Deildar- og fræðslustjórar Kennslumiðstöðvar
Guðrún Geirsdóttir, 2011-
Anna Kristín Halldórsdóttir, 2008-2011
Harpa Pálmadóttir, 2005-2008
Steinþór Þórðarson, 2002-2005
Garðar Gíslason, 2001-2002 
Gestur Svavarsson, 1999-2001