Samstarfsverkefni innan Háskóla Íslands

Kennslumiðstöð Háskóla Íslands vinnur að kennslutengdum verkefnum vítt og breitt um skólann. Áhersla er á að vinna að kennsluþróunarverkefnum úti í deildum og á fræðasviðum og miðlægt að eflingu kennsluþróunar almennt við skólann og á háskólastigi almennt. Hér gefur að líta helstu verkefni sem Kennslumiðstöð hefur unnið að annað hvort sem samstarfsaðili eða upphafsaðili í því verkefni.

Innan Háskóla Íslands kappkostar miðstöðin að eiga í samstarfi við námsbrautir, deildir og fræðasvið um ýmis kennslutengd verkefni og rannsóknir í kennslu, þá bæði við einstaka kennara og fræðasvið. Áherslan er á að hlúa að kennsluþróunarsprotum hvar sem þá er að finna innan skólans og hjálpa þeim til að vaxa og dafna. Þar hefur námsleiðin KEN312 Kennslufræði háskóla, sem er 30 eininga viðbótardiplóma á meistarastigi unnin í samstarfi Kennslumiðstöðvar og Menntavísindasviðs Háskóla Íslands, reynst vel í að styrkja kennara í kennsluþróun sinni. Þar er ekki minnst um vert að þátttakendur eru þvert á fræðasvið skólans og vinna saman og ræða um kennsluþróun í sínu fagi.