Viltu birta grein?

Auglýst er eftir áhugaverðum greinum í næstu útgáfu af Tímariti Kennslumiðstöðvar Háskóla Íslands. Æskilegt er að fá greinar sem tengjast námsmati og endurgjöf í háskólakennslu en einnig er tekið á móti greinum með áhugaverðum dæmum úr kennslu, fréttum, hugleiðingum eða öðrum greinum sem eru kennslutengdar og höfða mögulega til háskólakennara.

Frá og með útgáfu 2018 verða birtar ein til þrjár ritrýndar fræðigreinar en einnig áfram kennslutengdar- og fréttatengdar greinar. Sjá nánar hér neðar um efnisflokka greina sem tímaritið birtir. Gott er að fá að vita af því ef að höfundar vilja fá ritrýni.

Sendu til okkar hugmynd að grein og hvenær þér hentar að skila henni til okkar. Áætluð útgáfa 2018 er í lok október og því er gott að fá greinarnar eins snemma og unnt er.

Fulltrúi ritstjórnar tekur á móti greinum og svarar fyrirspurnum:

Sigurbjörg Jóhannesdóttir
netfang: sibba [hja] hi.is
sími: 525-4966
Aragötu 9, 101 Reykjavík


Um tímaritið

Tímarit Kennslumiðstöðvar Háskóla Íslands er tímarit á sviði háskólakennslu. Það birtir fræðilegar og kennslutengdar greinar sem geta nýst starfandi kennurum í Háskóla Íslands og öðrum háskólakennurum. Þá birtir tímaritið einnig fréttir og frásagnir frá ýmsu sem er að gerast innan skólans og í Kennslumiðstöð. Það er gefið út af Kennslumiðstöð Háskóla Íslands einu sinni á ári.

Frá og með sjöunda árgangi tímaritsins sem verður gefið út í október 2018 er tímaritið gefið út í svokölluðum platínu opnum aðgangi með afnotaleyfinu Creative Commons attribution 4.0 International (CC BY 4.0).

Sú ritrýni sem fer fram er opin, þe. höfundar vita af hverjir ritrýna greinarnar þeirra og öfugt.

Tímaritið er á íslensku og því er dreift prentuðu í Háskóla Íslands. Tímaritið verður einnig gefið út á rafrænu formi í fyrsta skipti 2018. Það þýðir að hægt verður að tengja í og vísa í stakar greinar þess, auk þess sem þær munu koma upp í leitarvél Google.

Megintilgangur Tímarits Kennslumiðstöðvar Háskóla Íslands er að auka faglega umræðu um háskólakennslu og segja frá því sem er efst á baugi í kennslumálum innan skólans hverju sinni.

Markmið tímaritsins er að:

 • koma á framfæri niðurstöðum úr rannsóknum tengdum háskólakennslu
 • fjalla fræðilega um ákveðin málefni á sviði háskólakennslu
 • segja frá fjölbreyttum verkefnum á sviði kennslu
 • beina athygli að áhugaverðum viðfangsefnum á sviði kennsluþróunar og nýsköpunar
 • auka áhuga háskólafólks á gæðakennslu
 • ýta undir að góð kennsla sé metin að verðleikum
 • styðja við góða kennsluhætti
 • stuðla að umhyggju kennara fyrir nemendum og velferð þeirra í námi

Ritstjórn 2018

Ritstjóri tímaritsins er:

Aðrir í ritstjórn eru:


Þema 2018

Hvert hefti er tileinkað ákveðnu þema. Það er leitast við að birta hverju sinni góðar fræðigreinar og kennslutengdar greinar tengdar þemanu.

Þema 2018, 7. árgangs tímaritins er:
Námsmat og endurgjöf í háskólakennslu.

Efni hverrar útgáfu takmarkast þó ekki við þemað heldur er tímaritinu ætlað að spegla sem flest svið háskólakennslu, deila góðum starfsháttum, segja frá niðurstöðum rannsókna og því sem efst er á baugi hverju sinni. Þá er tímaritinu ætlað að ræða mikilvægi faglegrar kennslu í háskólum, nefna áhugaverð dæmi úr kennslu, gott verklag, hugleiðingar um kennslu og fleira.


Efnisflokkar greina

Hér er að finna upplýsingar um flokkun greina í ritinu.

Fræðilegar greinar geta verið:

 • Yfirlitsgreinar eða fræðilegar samantektir
 • Kenningargreinar
 • Rannsóknargreinar

Kennslutengdar greinar geta verið:

 • Ráðgefandi greinar
 • Dæmisögur úr kennslu (e. best practice)
 • Pistlar / umfjallanir / hugleiðingar
 • Frásagnir af þróunar- og tilraunastarfi
 • Umræðugreinar
 • Viðtöl

Fréttatengdar greinar geta verið:

 • Fréttir
 • Viðburðir
 • Erindi og kynningar
 • Ritfregnir.

Aðgengi að tímaritinu

Tímarit Kennslumiðstöðvar Háskóla Íslands eru aðgengileg í prentuðu formi hjá miðstöðinni á Aragötu 9 og á issu.com á þægilegu formi til lestrar á Internetinu. Að auki er pdf af tímaritunum á padleti (vegg) þaðan sem hægt er að hlaða þeim niður. Þegar tímaritið er gefið út er því dreift á kennarastofur í Háskóla Íslands.

Frá og með næstu útgáfu 2018 verður tímaritið áfram gefið út á prentuðu formi en einnig verður það gefið út rafrænt. Upplýsingatæknisvið Háskóla Íslands ætlar að setja það upp í kerfinu Open Journal System frá Public Knowledge project (PKP) sem þýðir að greinarnar tengjast við Google Scholar.


Saga tímaritsins

Það má rekja sögu tímaritsins aftur til ársins 2005 þegar Kennslumiðstöð gaf út fréttabréf sem hét KEMST fréttir. Árið 2008 gaf Kennslumiðstöð út blað sem hét Fréttablað. Árið 2012 hófst regluleg útgáfa á tímaritinu og fyrsti tölusetti árgangurinn af því kom út það ár. Síðan þá hefur verið gefið út eitt tölublað á ári. Til að byrja með hét blaðið Fréttablað Kennslumiðstöðvar en það nafn hélt sér til ársins 2015 þegar ákveðið var að breyta heiti þess í Tímarit Kennslumiðstöðvar Háskóla Íslands. Ástæðuna fyrir nafnabreytingunni má rekja til þess að greinarnar urðu fjölbreyttari og hugtakið tímarit þótti ná betur yfir það úrval af greinum sem blaðið birti.

Í Tímariti Kennslumiðstöðvar er að finna greinar og fræðslu um kennsluþróun og kennslutengd efni, viðtöl við kennara, kennsluþróunarverkefni og nýjungar í kennslufræði háskóla hérlendis og erlendis. Hvert hefti er helgað ákveðnu þema og má þar m.a. nefna gæði í kennslu (2017), upptökur á kennslu (2016), kennslukannanir (2015) og fjölbreytta kennsluhætti (2013).

Tímaritið er hið eina sinnar tegundar á íslenskri tungu en tímarit um kennslutengd málefni á enskri tungu má nálgast bæði almennt um kennslufræði háskóla eða sérstaklega fyrir kennslufræði fræðagreina og eru þau flest öll aðgengileg í gegnum landsaðgang.


Leiðbeiningar til höfunda

Hér á eftir fylgja leiðbeiningar til höfunda.

Birting greina

Birting greina ræðst af því hvort að ritstjórn telji að þær eigi erindi til háskólakennara í Háskóla Íslands. Ef um fræðilega grein er að ræða, þá ræðst birting hennar einnig af fræðilegum efnistökum.

Varðandi ritrýndar greinar þá geta höfundar birt óritrýnt handritið (e. pre-print) strax á Internetinu og búið er að samþykkja það til útgáfu. Einnig geta þeir birt ritrýnda greinina (e. post print) og ritrýnda greinina með útliti útgefenda (e. published version). Æskilegt er að höfundar sem til dæmis eru að birta óritrýnt handrit merki það sem slíkt og séu með tengil á vefslóð útgefinnar greinar.


Opinn aðgangur og höfundaréttur

Tímaritið er í svokölluðum platínu opnum aðgangi sem þýðir að höfundar greiða ekki þjónustugjald vegna birtingar (e. article processing charge (APC)).

Höfundar halda höfundarétti að greinum sínum en framselja fyrsta útgáfurétt sinn til Kennslumiðstöðvar Háskóla Íslands. Höfundar samþykkja að Kennslumiðstöð birti greinarnar í prentaðri útgáfu Tímarits Kennslumiðstöðvar Háskóla Íslands og í rafrænni útgáfu á netinu. Höfundar gefa einnig leyfi til þess að Kennslumiðstöð megi kynna greinarnar á vefsíðu sinni og birta á netinu. Höfundar halda að öðru leyti fullum útgáfurétti og þurfa ekki að fá leyfi Kennslumiðstöðvar fyrir því hvar eða hvernig þeir birta þessar greinar annars staðar.

Höfundar samþykkja og gefa Kennslumiðstöð leyfi til að birta greinar þeirra með afnotaleyfinu Creative Commons attribution 4.0 International (CC BY 4.0). Í því felst að á meðan höfundaréttur er virtur og höfunda sé getið, þá gefa höfundar leyfi sitt til að greinunum sé dreift frjálst án þess að tekið sé gjald fyrir það.

Notendum er heimilt að lesa, ná í, afrita, dreifa og prenta greinarnar án þess að fá til þess sérstakt leyfi frá höfundum. Höfundar gefa samþykki sitt fyrir að greinarnar séu sjálfvirkt gagnagreindar (e. text and data mining) og leyfa tengingar í greinarnar í rafrænni útgáfu tímaritsins og í varðveislu.

Notendum er einnig frjálst að nota hluta af efninu eða búa til afleidd verk af því í hvaða miðli sem er. Það er háð því skilyrði að upprunalegs höfundar sé getið og breytingarsaga þarf að koma fram. Það þarf að sýna höfundi og grein hans virðingu og það þarf að koma fram að leyfisveitandinn (höfundur) hafi ekki séð eða samþykkt þá aðlögum sem hefur átt sér stað. Skilyrði er að um sé að ræða skapandi vinnu sem eykur þekkingarlegt verðmæti greinarinnar og brjóti ekki gegn lögum.


Kröfur og almennur frágangur á greinum

Höfundar bera ábyrgð á því að þeir vinni að heilindum að þeim skrifum sem þeir senda til til birtingar. Varðandi fræðileg skrif þurfa þeir að fylgja kröfum vísindasamfélagsins.

Lengd greina
Lengd greina er hér til viðmiðunar. Höfundar geta óskað eftir að fá birtar greinar sem falla ekki innan þessara viðmiða.

Fræðilegar greinar

Kennslutengdar greinar Fréttagreinar
Frá 3.000 til 6.000 orð Frá 500 til 2.500 orð Frá 200 til 1.200 orð

Tungumál og málfar
Tímaritið er á íslensku. Þess er vænst að efni sé skrifað á góðri íslensku og orðfæri vandað, sem og efnistök og stafsetning.

Fremst í handritinu

Fremst í handriti greinarinnar á að koma fram:

 • Titill greinarinnar (á íslensku og ensku)
 • Nafn höfundar/nöfn höfunda, netfang/netföng, sími/símar og ORCID auðkenni
 • Efnisflokkur greinar
 • Lykilorð (á íslensku og ensku)
 • Ágrip/lýsing á innihaldi greinar (á íslensku og ensku)
 • Ef höfundur starfar utan HÍ þá þarf vinnustaður að koma fram
Titill
Titill má að hámarki vera 100 slög með bilum. Hann þarf að vera bæði á íslensku og ensku.Höfundar
Nafn höfundar þarf að koma fram ásamt ORCID auðkenni, netfangi og símanúmeri. Ef það eru fleiri höfundar en einn þarf að hafa fyrst þann höfund sem vann mest í greininni og svo koll af kolli. Ef höfundur er starfandi utan Háskóla Íslands þarf nafn þess háskóla/vinnustaðar sem viðkomandi starfar hjá að koma fram.Lykilorð (e. keywords)
Lykilorð geta verið frá tveimur og upp í tíu. Þau þurfa að vera á íslensku og ensku (fyrir leitarvélar).Ágrip eða lýsing
Vegna rafrænnar skráningar þarf að fylgja með greinunum ágrip eða lýsing á innihaldi á íslensku og ensku. Það auðveldar lesendum tímaritsins að skanna efni þess. Þessi texti verður einnig leitarbær í leitarvélum, meðal annars í Google og Google Scholar.Með fræðilegum greinum á að fylgja ágrip sem miðast við 200 til 300 orð (ekki talinn með titill). Efnisuppbygging ágripsins gæti til dæmis verið:

 • Tilgangur
 • Efniviður/Aðferðir
 • Niðurstöður
 • Ályktun

Kennslutengdar greinar geta verið með annaðhvort ágripi eða lýsingu, 50 til 300 orð.

Fréttatengdar greinar þurfa að vera með lýsingu 50 til 200 orð.


Útlit og samræming

Hugtök eða orð sem á að leggja áherslu á
Ef ætlunin er að leggja áherslu á hugtak eða orð þá má nota skáletur til að draga það fram. Ef þetta er hugtak sem kemur fram endurtekið skal bara nota skáletur í fyrsta skipti sem það kemur fyrir en hafa það reglulegt eftir það.

Beinar tilvitnanir
Höfundar eiga að nota íslenskar gæsalappir fyrir beinar tilvitnanir sem eru með færri en 40 orð. Ef beinar tilvitnanir eru lengri eru þær inndregnar án gæsalappa. Höfundar eiga að nota stílsniðið Bein tilvitnun fyrir beinar tilvitnanir.

Forðast að nota skammstafanir
Höfundar eru beðnir um að nota sem minnst af skammstöfunum, í stað m.a. að nota meðal annars. Ef skammstafnir eru notaðar er fullt heiti notað fyrst og skammstöfun sett í sviga á eftir. Dæmi: Háskóli Íslands (HÍ). Eftir það má nota skammstöfunina HÍ inni í texta.

Tölur og prósentur
Nota á kommu til að afmarka brot, til dæmis 10,5%.

Jöfnun
Notuð er vinstri jöfnun. Texti á ekki að jafnast hægra megin.

Inndreginn texti
Texti á að vera inndreginn í upphafi málsgreina nema í byrjun kafla og ágripi/lýsingu.

Tölur
Tölur undir 10 skal skrifa með bókstöfum. Undanteking er á því ef um prósentutölu er að ræða.

Ensk heiti
Ef höfundi finnst nauðsynlegt að láta enskt heiti fylgja með er það skrifað í sviga á ensku á eftir íslenska orðinu með e. fyrir framan.
Dæmi: Opið menntaefni (e. open educational resources).


Töflur og myndir

Töflur
Töflur eiga að vera á réttum stað inni í skjalinu. Með töflunni á að vera númer töflu og skýring á innihaldi hennar. Dæmi: Tafla #. Texti sem er lýsandi fyrir töfluna.

Myndir
Höfundar eru hvattir til að senda inn myndir sem hægt er að birta með greinunum þeirra. Myndir geta verið margskonar, úr tölfræðiforritum, töflureiknum, teikningar eða ljósmyndir.

Passið upp á að þegar þið vistið myndir að vista þær alltaf í hæstu mögulegu gæðum svo hægt sé að hafa þær með í prentútgáfu blaðsins. Myndir fyrir prentútgáfuna er best að fá á forminu TIF sem er þjöppuð í hámarksgæðum JPG og í 300 dpi upplausn. Myndir í lit þurfa að vera CMYK. Ef þú hefur ekki tök á að vinna myndirnar á þennan hátt þá er í lagi að skila þeim eins og þú átt þær en veldu alltaf stærstu mögulegu útgáfuna af þeim (helst ekki minni en 2 MB).

Með ljósmyndum og teikningum þurfa að fylgja upplýsingar um höfund (ljósmyndara/teiknara) og afnotaleyfi sem má setja á þær. Höfundur/skapari myndanna þarf að gefa leyfi sitt fyrir að birta þær í tímaritinu með afnotaleyfinu CC BY 4.0 frá Creative Commons.

Varðandi staðsetningu mynda í skjalinu þá er æskilegt að setja þær á réttan stað inn í skjalið (eða merkja vel þannig að það fari ekki á milli mála hvar þær eiga að vera, t.d. Mynd nr. 2 – hér). Númer myndar og heiti myndar, sem er lýsandi fyrir hana, á að vera inni í skjalinu þar sem myndin er eða á að koma, t.d.: Mynd #. Texti sem er lýsandi fyrir myndina.


Heimildaskrá samkvæmt APA

Heimildir skal skrá samkvæmt APA-staðlinum. Leiðbeiningar um hann eru á vefslóðinni https://skrif.hi.is/ritver/ og http://www.apastyle.org/. Athugið að þegar DOI auðkenni er skráð að nota DOI vefslóðina https://doi.org/10.xxx….. (í stað áður DOI:10.xxx….).


Yfirlestur

Ritstjórn tímaritsins sér um að lesa yfir kennslutengdar og fréttatengdar greinar ásamt óritrýndum fræðigreinum og samræma þær fyrir útgáfu. Próförk verður send til höfunda með tillögum að breytingum og höfundar beðnir um að samþykkja þær.

Boðið er í fyrsta skipti upp á ritrýni fyrir fræðigreinar núna árið 2018. Ákveðið hefur verið að styðjast við vinnubrögð opinna vísinda og bjóða upp á opna ritrýni. Tveir ritrýnar munu ritrýna greinarnar. Vinnuferlið á eftir að mótast betur en lögð verður áhersla á gagnsæi. Nöfn ritrýna eru gefin upp og geta því ritrýnar og  höfundar átt tal saman.


Umbrot og frágangur

Tímarit Kennslumiðstöðvar annast umbrot og frágang á innsendum greinum. Höfundar mega nota útgefna greinina með útlitinu úr tímaritinu (e. published version) til að birta annarsstaðar.