Upplýsingatækni er eðlilegur hluti náms og kennslu og ber að líta á sem slíka en ekki sem viðbót við það sem þegar er gert, enn eitt lagið, „box til að tikka í“. Þannig nýtist upplýsingatækni t.d. við að auka þátttöku nemenda í náminu, halda þeim við efnið, til að deila hugmyndum og efni, til prófatöku, sem upptökur, í vendikennslu, til dýpkunar á skilningi nemenda á námsefninu og til að styðja við tileinkun nemenda í námi, svo fátt eitt sé nefnt. Kennarar nota Ugluna eða Moodle til miðlunar námsefnis, til að senda nemendum tilkynningar og jafnvel til að stjórna umræðum. Auk þess eru fyrirlestrar teknir upp, fjarfundir haldnir, rafræn próf lögð fyrir, vefleiðangrar hannaðir o.fl.

Notkun tækni í kennslu þarf fyrst og fremst að þjóna þeim námsmarkmiðum sem kennari leggur upp með og stuðla að því að nemendur nái hæfniviðmiðum (e. learning outcomes) námskeiðs. Kennari þarf að vega og meta, í hverju tilfelli, hvort innleiðing tiltekinnar tækni hentar námskeiði og verði til að bæta það nám sem á sér stað.

Notkun tækni í kennslu getur þjónað mismunandi tilgangi. Nokkur dæmi: Að taka upp fyrirlesturinn og setja á Uglu/Moodle en nota tímann með nemendum t.d. í hópumræður, verkefni eða vettvangsferð. Að sýna myndskeið (video) til skýringar á efni sem erfitt eða illmögulegt er að útskýra með öðrum hætti. Að leggja fyrir rafræn próf eða æfingar eftir hvern kafla kennslubókar. Prófin getur nemandinn tekið heima eða í tölvuveri, allt eftir því hvað kennari ákveður.

Kennslumiðstöð býður kennurum upp á aðstoð og ráðgjöf vegna innleiðingar á ýmis konar tækni í kennslu. Kennslumiðstöð heldur námskeið í þessu skyni, t.d. um notkun kennslukerfa (Uglu og Moodle), um upptökur á kennslu, fyrirlögn rafrænna prófa o.fl. Auk þess eru kennarar ávallt velkomnir í Kennslumiðstöð og geta fengið persónulega aðstoð.