Stutt afmörkuð ritunarverkefni

Þegar um stutt, afmörkuð ritunarverkefni er að ræða (restricted-response essays) þarf próftaki að skrá nokkuð ítarleg svör í samfelldum texta enda nokkurt frelsi til þess. Frelsið er þó takmarkað í þeim skilningi að prófsemjandi vill jafnan hafa skýr viðmið um umfang, inntak og helstu atriði sem þurfa að koma fram í svarinu, þ.e. með tilliti til hæfniviðmiða (learning outcomes) sem ætlunin er að meta með umræddu prófatriði. Próftaki er jafnan beðinn um að svara stutt og skýrt (8-10 línur), stundum samkvæmt ákveðnum viðmiðum (Í svarinu komi fram ...). Dæmi um orðalag í fyrirmælum með verkefnum af þessu tagi gætu verið þannig: „Tilgreindu …“, „Skilgreindu …“, „Lýstu …“, „Útskýrðu muninn á …“, „Hverjar voru helstu orsakir …“

Heppilegt er að nota viðmiðatöflu (rubric) við yfirferð slíkra prófatriða. Dæmi um slíka töflu má sjá með síðasta dæminu hér. Prófatriði af þessu tagi eru heppileg til að meta allt í senn, þekkingu, skilning, beitingu og greiningu. Auka má réttmæti og áreiðanleika ef sams konar hæfni er metin með krossaspurningum og/eða túlkunarspurningum líka. Rétt er að gæta að því að um leið og frelsi nemenda til að orða svör sín eykst getur ritsnilld sumra nemenda hugsanlega blekkt og skekkt matsniðurstöður. Á hinn bóginn getur máttleysi annarra við að orða svör sín gefið lakari mynd af kunnáttu en raunin er. Í verkefnum af þessu tagi er með öðrum orðum jafnan ekki meginmarkmiðið að meta ritunarhæfni og því þarf að taka slík vandamál inn í myndina.

Dæmi A:

Um miðja 20. öld voru tvö hernaðarbandalög stofnuð í heiminum, annars vegar NATO og hins vegar Varsjárbandalagið. Greindu frá aðdraganda þess að þau voru stofnuð. Fram komi í svari þínu hvernig stofnun þeirra tengdist tveimur „stríðum“, þ.e. seinni heimsstyrjöldinni og hinu svonefnda kalda stríði.

Dæmi B:

Útskýrðu muninn á hugtökunum „innra réttmæti“ og „ytra réttmæti“ í rannsóknum, tilgreindu aðstæður þar sem þau gætu komið fyrir og nefndu dæmi úr slíkum aðstæðum sem endurspegla skýrt merkingu þessara hugtaka.

Viðmiðatafla (rubric) með Dæmi B – Miðað við 6 stiga kvarða

 

meyvant7