Kennsluafsláttur til kennsluþróunar 2019-2020

Kennsluafsláttur til kennsluþróunar 2019-2020 er eins árs tilraunaverkefni þar sem fastir kennarar geta sótt um allt að 280 tíma ráðrúm til að sinna eigin kennsluþróun enda sé umbótavinnan í samræmi við nýsamþykkta Stefnu HÍ um gæði náms og kennslu 2018-2021 og styðji við áherslur viðkomandi deildar um uppbyggingu náms. Gert er ráð fyrir að veittir verði allt að 20 styrkir fyrir kennsluafslátt á haustmisseri 2019 eða vormisseri 2020.

Styrkleiðir eru tvenns konar:

1. Kennarar geta sótt um 280 tíma kennsluafslátt til að sækja leiðbeiningu og stuðning hjá Kennslumiðstöð. Þeir sem hljóta styrk kennslumálanefndar fá mótframlag frá deild/fræðasviði, þ.e. styrkurinn nemur 140 tímum ásamt 140 tíma mótframlagi deildar/fræðasviðs.

Veturinn 2019-2020 verður áhersla lögð á að styðja við forgangsverkefni í stefnu um gæði náms og kennslu, s.s. rafrænum kennsluháttum, fjarnámi og endurgjöf. Kennarar sem hljóta styrkinn munu hittast reglulega á vinnufundum í Kennslumiðstöð. Stuðningur Kennslumiðstöðvar mun m.a. felast í námskeiðum í upphafi misseris (rafrænum og staðbundnum), og síðan vinnufundum og einstaklingsleiðbeiningu þar sem kennarar geta útfært með hvaða hætti þeir breyta eigin kennslu og/eða námskeiði. Endanlegt skipulag stuðnings Kennslumiðstöðvar verður ákveðið í samráði við þátttakendur í upphafi misseris.

Mögulegt er að sækja um sama kennsluafslátt til kennsluþróunar með stuðningi frá öðrum háskóla eða stofnun innanlands (námskeið/leiðbeining) eða sækja rafræn kennslufræðileg námskeið og skal kennari þá lýsa þeim áformum í umsókninni.

2. Kennarar geta sótt um 100 tíma kennsluafslátt og ferðastyrk til að sækja vinnustofur eða námskeið í kennsluþróun erlendis og leiðsögn frá Kennslumiðstöð að ferð lokinni. Upphæð ferðastyrks nemur allt að 300 þús. krónum og er gert ráð fyrir að mótframlagið frá deild sé í formi 100 tíma kennsluafsláttar.

Í kjölfar námskeiðsins er gert ráð fyrir að kennarar fái stuðning frá Kennslumiðstöð til að breyta kennslu eða námskeiðum í takt við efni vinnustofunnar/námskeiðsins. Í umsókninni þarf kennari að lýsa áformum um hvernig námskeiðið verður nýtt til að breyta kennslu eða námskeiði við deildina.

Styrkjum er ekki ætlað að standa undir því sem telja má eðlilega endurnýjun eða endurskoðun námskeiðs. Skilyrði fyrir styrkveitingu er að kennari miðli reynslu sinni til kennara deildarinnar.

Umsóknarferli og úthlutunarvinna

1. Umsóknum skal skilað til kennslumálanefndar háskólaráðs fyrir miðvikudaginn 24. apríl 2019.
2. Kennslunefndir fræðasviða taka við og forgangsraða umsóknum í samvinnu við fræðasviðsforseta/sviðsstjórnir fræðasviða.
3. Kennslumálanefnd háskólaráðs tekur forgangsraðaðar umsóknir til umfjöllunar og endanlegrar afgreiðslu.

Við úthlutun verður leitast við að veita styrki til sem flestra deilda / námsbrauta og lýkur vinnu við úthlutun í síðasta lagi í lok maí.