Að baki hverri einingu eru 25-30 vinnustundir nemenda. Tveggja eininga ritgerð ætti því að vera 50-60 klst. vinna. Það er þó alltaf svolítið varasamt að telja blaðsíður og orðafjölda því sumir eru margorðir og endurtaka sig á meðan aðrir kafa djúpt en skrifa í styttra lagi (e. concise).
Hægt er að finna dæmi um lengd ritgerða og þá yfirleitt lokaritgerða. Hjá Hugvísindasviði er til dæmis miðað við 800-1000 orð að baki hverri einingu í lokaritgerð (10 eininga lokaverkefni er þá 8.000-10.000 orð eða 20-30 bls.) en það er ef til vill ekki gott viðmið um minni ritgerðir.
Ritverið fjallar um þennan vanda og segir meðal annars: Við [spurningunni um lengd ritgerða] er aðeins eitt svar: [Ritgerð á að vera] nógu löng til að svara rannsóknarspurningunni á fullnægjandi hátt. Það má líka orða svarið þannig að ritgerðin (eða verkefnið) sé nógu löng til að höfundur fái tækifæri til að sýna hvað hann getur fjallað af mikilli kunnáttu og fagmennsku um viðfangsefni sitt. Með öðrum orðum: Sýna hvað hann getur. Góð vinnuregla er að spyrja ekki stærri spurningar en unnt er að svara á þeim tíma sem er til umráða, sem líka má orða þannig að betra er að skrifa mikið um lítið en lítið um mikið. Of stór spurning kallar á yfirborðslega umfjöllun. Meira um það hér: https://ritver.hi.is/hvad_a_ritgerdin_ad_vera_long
Eitt viðmið um lengd ritgerða gæti verið fjöldi numinna blaðsíðna sem ritgerðin krefst, það er hversu margar fræðilegar greinar geta legið til grundvallar. Samkvæmt útreikningum tekur það nemendur til dæmis rúmar 30 klst. að lesa, nema og skila af sér 100 blaðsíðna erlendum fræðitexta (sjá vinnureiknisskjal Baldurs Sigurðssonar sem byggt er á bókinni Give me time to think og er eftir Karjalainen, Alha og Jutila (2006) og fjallar einmitt um útreikning á vinnuframlagi nemenda út frá ECTS-einingum). Athuga, að ef vinnuskjal Baldurs er nýtt til útreiknings vinnuframlags er mikilvægt að lesa greinina hans í Netlu áður. Þetta er hvoru tveggja að finna á padlet hjá Kennslumiðstöð: https://padlet.com/kennslumidstod/vinnualag.
Samkvæmt þessu væri fræðilegt erlent lesefni að baki tveimur einingum 165-200 bls.