Vinnuferli við sjálfsmat deilda
út frá sjónarhóli gæðanefndar Háskóla Íslands

Sjálfsmat deilda er unnið sem hluti af rammaáætlun gæðaráðs háskóla um eflingu gæða (QEF). Markmið þess er að deild geti sýnt fram á að gæði (i) námsumhverfis nemenda (e. the quality of the learning experience of its students), (ii) prófgráðna (e. the safeguarding of the standards of its awards), og (iii) umsýslu rannsókna (e. the management of the research) séu tryggð með kerfisbundnum hætti. Á grundvelli greiningar í sjálfsmatsferlinu þurfa deildir síðan að skilgreina aðgerðir og leiðir til úrbóta sé einhverju ábótavant.

Við greiningu á fyrstu tveimur atriðunum er stuðst við evrópsk viðmið, ESG 2015, en ráðgjafarnefnd gæðaráðs um rannsóknir hefur nú lagt fram leiðbeiningar við mat á þriðja atriðinu.

Fyrir liggja, auk ESG 2015, handbók gæðaráðs og leiðbeiningar gæðanefndar háskólaráðs um hvernig standa beri að ritun sjálfsmatsskýrslunnar, en deildir fá sniðmát fyrir skýrsluna sem í hafa verið færðar tölulegar upplýsingar um nemendur í hverri námsleið og um starfsmenn.

Kennslumiðstöð Háskóla Íslands aðstoðar við námskrárvinnu, þ.e. veitir stuðning við mat á hæfniviðmiðum námsleiða og námskeiða auk gerðar hrísltöflu fyrir hverja námsleið. Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands tekur saman upplýsingar um viðhorfskannanir nemenda fyrir deild og einstakar námsleiðir þar sem nægileg gögn eru fyrir hendi s.l. fimm ár. Stýrir auk þess rýnihópavinnu fyrir grunnnema annars vegar og framhaldsnema hins vegar til frekari greiningar á námsánægju og skilar skýrslum úr rýnihópavinnunni.

Skipulag sjálfsmatsins er að öðru leyti á ábyrgð deildar og sjálfsmatshóps hennar.

Á innri vef Uglu eru nánari upplýsingar um QEF2, sjálfsmat faglegra eininga í annarri lotu 2017-2022.

Skipulag og tímaröð
Skipulag og tímaröð sjálfsmatsins QEF2 2017-2022 í Háskóla Íslands

Mjög mikilvægt er að vanda vel skilgreiningar á umbótaaðgerðum svo unnt sé að innleiða þær og meta hvort þær hafi skilað tilskildum árangri. Mælt er með því að stuðst sé við SMART hugmyndafræði, þ.e. aðgerðir þurfa að vera:

S Sértækar (e. Specific)
Skýrt afmarkað hvað eigi að gera
M Mælanlegar (e. Measurable)
þ.e. hvort hægt sé að leggja mat á hvort þær hafi náðst eða ekki
A Ábyrgðaraðili (e. Assignable)
Það sé skýrt hver á að gera hvað
R Raunhæfar (e. Realistic)
þ.e. aðgerðir sem hægt er að ná með góðu móti
T Tímasettar (e. Time related)
Í þessu felst að mikilvægt er að gert sé ráð fyrir tíma til þess að hrinda aðgerðum í framkvæmd eftir atvikum