Kennslukannanir

Kennslukönnun HÍ

Samræmd kennslukönnun Háskólans er lögð fyrir í lok hvers misseris. Markmið hennar er að bæta kennslu og námskeið í Háskóla Íslands. Könnunin tekur til sjö þátta sem skipta máli í námi; kennslu, fræðilegrar hvatningar, viðmóts kennara, skipulags námskeiðs, vinnuálags, afraksturs námskeiðs og framlags stúdents.

Deildum er heimilt að leggja fyrir eigin kennslukönnun til viðbótar við kennslukönnun Háskólans.

Kennslumálanefnd og kennslusvið hafa yfirumsjón með kennslukönnun. Kennslunefndir fræðasviða hafa á hendi mótun og rekstur könnunarinnar. Kennslumiðstöð veitir ráðgjöf um það hvernig best megi nýta niðurstöður kennslukönnunar til að bæta nám og kennslu.

Miðmisseriskönnun

Miðmisseriskönnun er lögð fyrir í október og febrúar. Þar eru tvær opnar spurningar um hvað hefur heppnast vel og hvað hægt væri að bæta. Nemendur eru einnig beðnir um að gefa hverju námskeiði einkunn á kvarðanum 1 – 10. Tilgangur könnunarinnar er að gefa kennurum kost á að bregðast strax við athugasemdum nemenda.

Úrvinnsla og eftirfylgni kennslukannana

Kennslumiðstöð býður kennurum upp á faglega ráðgjöf og aðstoð við úrvinnslu auk eftirfylgni með kennslukönnun. Hægt er að panta viðtal hjá kennslufræðingum Kennslumiðstöðvar í þessu skyni.