Skriflegt próf með blöndu huglægra og hlutlægra prófatriða nýtist betur en annað námsmat í fjölmörgum tilfellum, einkum þegar ná þarf til margra hæfniþátta á stuttum tíma. Vönduð og fjölbreytt prófverkefni ættu að tryggja réttmæti og áreiðanleika og minnka líkur á ritstuldi.

Til að tryggja réttmæti þurfa prófatriði að vera samin og valin með hliðsjón af hæfniviðmiðum og inntaki námskeiðs: Hæfniviðmið > inntak, efni > nám og kennsla (námsferlið) > námsmat (próf og annað eftir því hvert samhengið er). Kennarar þurfa m.a. að hafa eftirfarandi í huga

 • Hvað er metið í hverju prófatriði? (Þekking, leikni, hæfni)
 • Nýta þekkingarkvarða Bloom og sagnirnar sem honum fylgja til að draga fram hvað það er sem nemandinn á að geta gert að námskeiði loknu.
 • Hver metur?
 • Samkvæmt hvaða viðmiðum?
 • Vægi spurninga, fjöldi af hverri gerð, fyrirgjöf og niðurstöður.
 • Niðurstöður, ætti að taka mið af væntanlegri dreifingu einkunna?
 • Þyngd og greiningarhæfi prófatriða
 • Hvar fer námsmat fram? Aðstæður skipta máli.

Samning opinna spurninga:

Spurningar þurfa að meta fyrirfram skilgreindan námsþátt sbr. hæfniviðmið. Velja þarf spurningagerð sem hæfir best því sem á að meta, hvort heldur það er t.d. skilningur, beiting, greining eða nýmyndun. Hér eru nokkrar gerðir opinna spurninga:

 • Stuttar spurningar (Short-answer item) um námsefnið þar sem þekking og skilningur eru prófuð.
 • Styttri ritgerðaspurningar (Restricted-response) sem reyna á skilning, beitingu, greiningu o.fl.
 • Lengri ritgerðaspurningar (Extended-response) sem reyna á gagnrýna hugsun, skapandi hugsun, skilning, beitingu, greiningu o.fl.

Að meta gæði prófatriða:

Mikilvægt er að reyna að tyrggja réttmæti og áræðanleika við prófagerð. Það má m.a. gera með þessum hætti:

 • Gæta þess að spurningar meti fyrirfram skilgreindan námsþátt – hæfniviðmið.
 • Þyngdarstig prófatriðis: Hve mörg prósent nemenda svara því rétt? Skiptum nemendahópnum í þrennt. Skoðum úrlausnir efsta þriðjungs (t.d. 33 nemendur) og  neðsta þriðjungs (33 nemendur). Segjum að 22 úr efsta hópnum svari atriðinu rétt og 9 úr neðsta hópnum (22+9). Þá er þyngdarstigið 31/66 = 47%. Spurningin er þeim mun erfiðari sem þessi tala er nær 0.
 • Greiningarhæfi (greinihæfni): Samanburður á fjölda sem svaraði rétt í hærri hópi (þ.e. 33 efstu) og fjölda sem svaraði rétt í lægri hópi (33 lægstu). Notum sömu tölur, þ.e. að 22 í hærri hópnum hafi svarað rétt og 9 úr lægri hópnum. Þá getum við reiknað greiningarhæfi þannig: (22-9)/33 = 13/33 = 0,39. Greiningarhæfi er mest þegar útkoman er 1,0. Þá er
  þyngdarstigið 50%.

Heimildir:

Meyvant Þórólfsson. (2011). Um samningu prófa. Námskeið Kennslumiðstöðvar Háskóla Íslands, nóv. 2011.

Gronlund, N.E. og Waugh, C.K. (2009). Assessment of student achievement (9. útgáfa). Upper Saddle River: Pearson.

Haladyna, T.M, Downing, S.M & Rodriguez, M.C. (2002). A review of multiple-choice item-writing guidelines for classroom assessment. Applied Measurement in Education, 15(3), 309-334. Finnst sem pdf-skjal á Netinu.

Nitko, A.J. (2001). Educational assessment of students. New Jersey: Merrill Prentice Hall.

Miller, M.D., Linn, R.L. og Gronlund, N.E. (2008). Measurement and assessment in teaching (10. útgáfa). Upper Saddle River: Merrill/Pearson.