Samstarf

Kennslumiðstöð Háskóla Íslands leggur áherslu á að vera í samstarfi að kennsluþróun á háskólastigi innanlands og utan, innan Háskóla Íslands, við aðra háskóla í landinu, menntamálayfirvöld og rannsóknastofnanir. Þannig vinna t.d. háskólar landsins saman að ýmsum kennsluþróunarverkefnum á landsvísu, svo og leggja sérfræðingar Kennslumiðstöðvar sín lóð á vogaskálarnar í samvinnu við menntamálayfirvöld.

Kennsluþróunarstjórar fræðasviða ræða saman á fundi hjá Kennslumiðstöð 11. apríl 2019. Mynd: Elva Björg Einarsdóttir

Innan Háskóla Íslands kappkostar miðstöðin að eiga í samstarfi við námsbrautir, deildir og fræðasvið um ýmis kennslutengd verkefni og rannsóknir í kennslu, þá bæði við einstaka kennara og fræðasvið. Áherslan er á að hlúa að kennsluþróunarsprotum hvar sem þá er að finna innan skólans og hjálpa þeim til að vaxa og dafna. Þar hefur námsleiðin KEN312 Kennslufræði háskóla, sem er 30 eininga viðbótardiplóma á meistarastigi unnin í samstarfi Kennslumiðstöðvar og Menntavísindasviðs Háskóla Íslands, reynst vel í að styrkja kennara í kennsluþróun sinni. Þar er ekki minnst um vert að þátttakendur eru þvert á fræðasvið skólans og vinna saman og ræða um kennsluþróun í sínu fagi.

Innan deilda og fræðasviða hefur Kennslumiðstöð komið að mörgum kennsluþróunarverkefnum s.s. í sambandi við fjölbreytta kennsluhætti, kennsluumræðu, námsmat og endurgjöf og móttöku nýnema. Þá hefur Kennslumiðstöð komið að sjálfsmati deilda u.þ.b. frá upphafi, í fyrstu með því að hlusta eftir röddum nemenda. Þannig ræddi Kennslumiðstöðvarfólk við nemendur um helmings deilda skólans í rýnihópum og matshringjum. Í annri umferð sjálfsmats háskóla styður Kennslumiðstöð við námskrárgerð með því að leiða deildir í gegnum það ferli annað hvort fyrir eða eftir sjálsfmat, yfirfara lokaviðmið námsleiða og hæfniviðmið námskeiða auk þess að lesa yfir sjálfsmatskýrslur deilda og koma með ábendingar.

Frekar má lesa um einstaka samstarfsverkefni undir flipum hér til hliðar sem merktir eru samstarfinu.