Yfirleitt er talið æskilegt að nota krossaspurningar, ef nota skal fjölvalsspurningar á annað borð. Þó getur stundum verið heppilegt að fara aðrar leiðir ef inntakið og hæfniviðmiðin bjóða svo. Fyrir kemur að mögulegir svarmöguleikar eru einfaldlega ekki nógu margir til að eðlilegt sé að beita krossaspurningu. Rétt/rangt spurningar (S/Ó) eru einfaldlega notaðar til að meta hæfni nemenda til að skera úr um hvort fullyrðingar eru sannar eða ósannar. Stundum kjósa prófsemjendur að hafa svarmöguleikana „Sammála/Ósammála“ eða jafnvel „Staðreynd/Skoðun“. Heppilegt getur verið að hafa nokkrar slíkar spurningar saman í einu (e. cluster-type-true-false format) ef þær beinast að sama efninu eða þemanu. Dæmi um hæfni sem metin er í slíkum tilvikum eru til dæmis að flokka hluti eða fyrirbæri (já/nei), ákveða hvort tiltekin regla eða lögmál gildi í mismunandi samhengi, greina milli staðreynda og skoðana eða meta hvort tiltekin rök eiga við eða ekki (e. relevant or irrelevant).

A.

Dæmigert S/Ó verkefni þar sem nokkur skyld atriði hanga saman:

Skoðaðu myndina vel. Hún sýnir tengsl milli tveggja breyta á jafnbilakvarða, frammistöðu í námi (y-ás) og prófkvíða (x-ás).

Leystu verkefnin sem fylgja með því að merkja hvort fullyrðingar eru sannar eða ósannar miðað við þær upplýsingar sem myndin sýnir.

Tengsl tveggja breyta á jafnbilakvarðaLeystu verkefnin sem fylgja með því að merkja hvort fullyrðingar eru sannar eða ósannar miðað við þær upplýsingar sem myndin sýnir.

Satt
Ósatt
Þáttttakendur í þessari rannsókn voru samtals 40 en mæligildin 20
Á ákveðnu stigi virðist aukinn kvíði fara að valda minnkandi árangri
Þessar mælingar geta ekki staðist. Annaðhvort er um að ræða jákvæða fylgni, neikvæða fylgni eð aenga fylgni í svona tilvikum
Á myndinni má sjá dæmi um neikvæða fylgni
Pearson´s r fyrir árangur og kvíða hefur jákvætt (pósitíft) gildi upp að ákveðnu marki

B.

S/Ó verkefni geta tekið á sig ýmsa myndir eða gildi með tilliti til hæfniviðmiða. Hér er nemanda ætlað að velja milli tveggja af fjórum möguleikum í hverju tilviki: Sönn fullyrðing (S) – Ósönn fullyrðing (Ó) – Hið gagnstæða er satt (GS) – Hið gagnstæða er ósatt (GÓ). Fyrirmælin eru: Krossaðu við það sem á við í hverju tilviki:

Satt
Ósatt
Gagnstæða satt
Gagnstæða ósatt
Öll tré eru plöntur
*
*
Allar örverur eru dýr
*
*
Allar áttfætlur eru köngulær
*
*
Engar köngulær eru skordýr
*
*

Heimildir:
Meyvant Þórólfsson. (2018). Skrifleg próf á vef Kennslumiðstöðvar HÍ.