Þegar kemur að sjálfri prófgerðinni og framsetningu skriflegs prófs stendur valið um mismunandi prófatriði (e. items/exercises) allt eftir því hver tilgangurinn er. Hér er byggt á ritum Gronlund og Waugh (2016) og Linn og Miller (2005) til að skýra þessa möguleika og gefa dæmi. Valið stendur milli mismunandi hlutlægra og huglægra prófatriða.

Hlutlæg prófatriði:

  1. Fjölval (e. selection type items) þar sem velja þarf milli ólíkra möguleika. Dæmigert slíkt prófatriði er krossaspurning með tilheyrandi stofni og svarmöguleikum þar sem einn af nokkrum er réttur eða réttastur. Til þeirra teljast líka S/Ó-spurningar og pörunarverkefni.
  2. Eyðufyllingar (e. supply type items) krefjast stuttra svara. Þau geta þess vegna verið eitt til tvö orð, orðasambönd, tölur eða önnur tákn.
  3. Túlkunarverkefni (e. interpretive exercises) geta tekið á sig margvíslegar myndir. Megineinkenni þeirra eru að nemendum eru birtar upplýsingar í formi texta, skýringarmyndar, grafs, töflu o.s.frv. og þeir beðnir um að kynna sér og túlka. Svör nemenda geta síðan verið með ýmsum hætti, og krefjast því ýmist hlutlægs eða huglægs mats.

Huglæg prófatriði:

  1. Eyðufyllingar – Stutt svör (e. short-answer items) þar sem próftaki bregst við spurningu, álitamáli eða öðru samhengi sem krefst stutts og hnitmiðaðs svars. Hann hefur tiltölulega lítið frelsi til að orða svarið.
  2. Afmörkuð ritunarverkefni (e. restricted-response items) eru háð skýrum viðmiðum um inntak svara og þar með tengingu við tiltekin hæfniviðmið. Heppilegt að nota viðmiðatöflu/matskvarða (e. rubric) við yfirferð.
  3. Löng og opin ritunarverkefni (e. extended response items) eru opnari, þar sem próftaki hefur meira frelsi um inntak svara. Jafnvel er krafist skapandi og gagnrýninnar hugsunar með rökstuðningi. Heppilegt að nota viðmiðatöflu (e. rubric) við yfirferð með hliðsjón af hæfniviðmiðum.
  4. Túlkunarverkefni (e. interpretive exercises) geta einnig verið huglæg með tilliti til mats. Eins og lýst var hér á undan þá fela þau í sér að nemendum eru birtar upplýsingar í formi texta, skýringarmyndar, grafs, töflu o.s.frv. og þeir beðnir um að kynna sér og túlka. Eins og að framan greinir geta svör nemenda verið ýmist hlutlæg eða huglæg.

Þegar horft er á samhengi og tengsl mögulegra prófatriða sést að þau mynda eins konar „róf skriflegra prófatriða“ (sjá mynd), allt frá hlutlægum prófatriðum eins og krossaspurningum, þar sem mat kemur í raun ekki við sögu heldur aflestur eins og af mælistiku, yfir í huglæg matsatriði eins og opin ritunarverkefni. Túlkunaratriði hafa hér sérstöðu þar sem þau geta verið samsett og falið í sér bæði hlutlægt og huglægt mat.

Hlutlæg prófastriði                                                                                                                  Huglæg prófatriði

Krossa
spurningar
Rétt (S)
Rangt (Ó) spurningar
Pörunar-spurningar Eyðufyllingar Túlkunaratriði Eyðufyllingar
(stutt svör)
Stutt ritunar-verkefni Opin ritunar-verkefni

Í undirflokkum hér til hliðar má skoða dæmi um hlutlæg prófatriði og eðli þeirra, svo og dæmi um huglæg prófatriði og eðli þeirra.

 

Höfundur

Meyvant Þórólfsson. (2018). Skrifleg próf á vef Kennslumiðstöðvar HÍ.

 

Heimildir

Gronlund, N. E. og Waugh, C. K. (2009). Assessment of student achievement. New Jersey: Pearson.

Linn, R. L. & Miller, M. D. (2005). Measurement and assessment in teaching. Michigan: Pearson Prentice Hall.