Námsmat

Mikilvægt er að sameiginlegur skilningur nemenda og kennara sé á námsmati. Þetta þýðir að nemendur átti sig á því hvernig þeir verða metnir og hvenær og verkefnalýsingar þurfa að vera góðar. Það má t.d. hugsa sér að nemendur fái fyrirfram viðmið um ritgerðir og verkefni – matskvarða, sem gefa þeim hugmynd um hvernig þeir geti unnið gott verkefni.  John Biggs (2003) talar um að hvað og hvernig nemendur læri fari mikið til eftir því hverju þeir halda að þeir verði prófaðir í. Þess vegna þurfa skilaboðin til nemenda um hvað þeir eiga að læra að vera afar skýr.

Endurgjöf

Endurgjöf á verkefni er eitt það mikilvægasta í námi og aðstoðar nemendur við að bæta sig (Hounsell, 2007). Þetta er þó sá þáttur sem háskólar koma yfirleitt verst út úr í kennslukönnunum og er Háskóli Íslands þar engin undantekning. Hvað er til ráða? Stundum nægir að kennarar ræði við nemendur sína um hvað endurgjöf er og hvers vegna hún er veitt og bendi þeim á þegar þeir eru að veita þeim endurgjöf, t.d. ef þeir fara almennt yfir verkefni þegar þeim er skilað í kennslustund. Vera kann að nemendur átti sig ekki alltaf á því hvað endurgjöf er – gott er að færa það í orð og eiga samtal um kennslu. Endurgjöf vera ferli þar sem nemendur geta náð betri tökum á námsefni ef þeir hafa áhuga á því, ekkert gerist nema nemendur séu samþykkir því (Ashwin, 2015). Ashwin (2015) gengur svo langt að segja að endurgjöf sé lykillinn að námsmati og hana beri að skipuleggja jafnframt skipulagi námskeiða.

Eitt það mikilvægasta í endurgjöf er að hún sé skjót, þ.e. að hún komi fljótlega eftir að nemendur ljúka við verkefni og geti því verið leiðbeinandi þeim um framhaldið (Ashwin, 2015). Endurgjöf sem kemur í lok misseris missir marks. Markmiðið er að nemendur læri af endurgjöf og þess vegna þurfa þeir að tengja endurgjöfina beint við verkefnið og hafa tök á því að bæta sig á milli verkefna. Það er ekki endilega alltaf auðvelt að gefa slíka endurgjöf, sérstaklega ekki í stórum hópum. Endurgjöfin þarf þó ekki að vera maður á mann og ekki alltaf ítarleg, einnig er góð leið að taka upp hljóðskrá með endurgjöf á verkefni nemenda, það gerir þær persónulegri og einfaldari í verki fyrir kennarann. Oft nægir einnig að fara almennt yfir verkefni með nemendum, jafnvel þegar þeir skila þeim og áður en kennari hefur haft tækifæri til að fara yfir þau. Þá getur hann sagt nemendum hvaða villur koma oftast fram í verkefninu eða sýnt þeim hvernig gott svar lítur út. Einnig má fara yfir nokkrar lestradagbækur, ef námsmatið er á því formi, og gefa munnlega endurgjöf út frá því til alls hópsins.  Þá má nýta jafningjamat með því að nemendur meta verkefni hvors annars og hafa viðmið um það frá kennara – nemendur læra mikið af jafningjamati. Þá er sjálfsmat þjálfun sem nýst getur nemendum út lífið til að meta árangur sinn, ekki einungis í námi heldur einnig í starfi seinna meir (Tan, 2007). Ashwin (2015) segir mikilvægt að nemendur séu gerendur í endurgjöf og átti sig á því hvað þeir þurfa að vita til að geta lokið verkefni.

Verkefni

Mikilvægt er að verkefni skipti máli fyrir nám nemenda. Það er lykilatriði að verkefnin séu stigvaxandi, ekki of létt og ekki of erfið. Nemendur þurfa að hafa eitthvað til að byggja á til að geta unnið verkefnin og það eflir þá að finna að vinnan tekur aðeins til þeirra. Of létt og of erfið verkefni vekja gagnstæða líðan. Of mörg verkefni gera það sama, þ.e. þegar nemendur hafa á tilfinningunni að þeir séu bara að gera verkefni til að gera verkefni. Búið sé jafnvel að margtryggja að þeir hafi unnið með námsefnið. Þetta ber að varast en velja heldur af kostgæfni merkingarbær, stigvaxandi og lærdómsrík verkefni fyrir nemendur að kljást við þannig að þeir finni að þeir öðlist færni og eflist í fræðunum (Schram og Jones, 2016).

Leiðsagnarmat

Leiðsagnarmat er ein leið til að stuðla að stigvaxandi námi nemenda með markvissri endurgjöf og stigvaxandi verkefnum. Leiðsagnarmat er á ýmsu formi, getur t.d. verið skil á heimadæmum og dæmatímar auk lokaprófs í lok námskeiðs, lestrardagbækur með endurgjöf og nokkur skil á ritgerð svo að fátt eitt sé nefnt. Í bland við þetta má nota sjálfsmat og jafningjamat en gæta þarf þess að kenna nemendum þar til verka og ræða við þá um hvers vegna þessi leið er valin og hvernig þeir geta best unnið að henni.

Þátttaka í tímum

Þátttaka í tímum er oft hluti af námsmati, en misjafnt er hvernig staðið er að því. Algengast er eflaust að mæting í kennslustundir sé mæld og þátttökulisti þá látinn ganga – sums staðar er skyldumæting. Hvað þýðir „framlag nemenda í kennslustundum“? Fá nemendur fullt fyrir að mæta í tíma eða þurfa þeir að gera eitthvað til þess að fá framlag sitt í kennslustundum metið? Ef við hugsum þetta út frá námsmiðuðum kennsluháttum getum við spurt okkur hvað virkni eða mæting í tíma þýði! Hér er ekki úr vegi að spyrja nemendur sjálfa í upphafi námskeiðs hvað þeim finnist felast í „framlagi nemenda í kennslustundum“ (Weimer, 2002). Það veitir þeim frekari hlutdeild í námi sínu, eykur tileinkun, dreifir valdi og vekur áhuga þeirra og ábyrgð. Ef við tengjum þetta við kenningar um áhugahvöt er slíkt eignarhald eða hlutdeild afar mikilvægt (Schram og Jones, 2016; Deci og Ryan, 2002).

Heimildir

Ashwin, P., Boud, D., Coate, K., Hallett, F., Keane, E., Krause, K. L., Leibowita, B., MacLaren, I., McArthur, J., McCune, V. og Tooher., M. (2015). Reflective Teaching in Higher Education. London: Bloomsbury.

Biggs, J. (1999). What the student does: teaching for enhanced learning. Higher Education Research & Development18(1), 57-75.

Decy, E. L. og Ryen, R. M. (2002). Handbook of Self-Determination Research. New York: The Univeristy of Rochester Press.

Schram, Á. B. & Jones, B. D. (2016). A Cross-cultural adaptation and validation of the Icelandic version of the MUSIC Model of Academic Motivation Inventory. Tímarit um uppeldi og menntun /Icelandic Journal of Education, 25(2), 3-25.

Weimer, M. (2002). Learner-centered teaching: Five key changes to practice. Jossey-Bass: San Francisco.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *