Munnleg próf

Munnleg próf eru ekki ný af nálinni, heldur líklega elsta form námsmats og voru ráðandi a.m.k fram á 18. öldina. Munnleg próf eru af ýmsum toga: Kynningar (e. presentations) hvort heldur þær eru í kennslustund eða standa sjálfstæðar; yfirheyrslur (e. interrogations) þar sem nemandi er spurður út úr um þekkingu sína; og tilfellapróf (e. applications) s.s. í hjúkrunar- eða læknisfræði þar sem nemendur fara á milli sýndarsjúklinga og greina þá og eru spurðir út úr. Það má þó segja að kynningar þar sem nemendur lesa upp af blaði séu ekki eiginleg munnleg próf því að þar fást þeir ekki við orðið sjálft og umræðuna sem af henni sprettur og geta þannig brugðist við og rökrætt líkt og gerð er krafa um í munnlegum prófum.

Það eru margar ástæður fyrir því að nota munnleg próf, m.a. vegna þess að þau mæla best sum hæfniviðmið, gefa tækifæri á að fara á dýptina í prófum, eru námstæki, auka á fjölbreytileika námsmats sem um leið höfðar þá til fleiri nemenda og krefjast þess að nemendur noti eigin orð og þekkingu. Munnleg próf eru þó erfiðari fyrir vissan  hóp nemenda, s.s. heyrnarlausra og kvíðna nemendur, og þarf að taka tillit til þeirra. Meira um jákvæðar og neikvæðar hliðar munnlegra prófa hér til hliðar.

Helstu kostir munnlegra prófa

Það eru margar ástæður fyrir því að nota munnleg próf, þau:

 • Eru besta leiðin til að meta hæfniviðmið sem krefjast þess að nemendur yfirfæri þekkingu sína yfir á nýjar aðstæður, en einnig til að meta faglegheit og sjálfsöryggi nemenda í faginu.
 • Gefa tækifæri á meiri dýpt í spurningum þar sem pófdómari getur spurt nemendur í þaula út í námsefnið og þannig fengið fram heildarskilning þeirra á efninu.
 • Endurspegla yfirleitt fagið betur þar sem samskipti eiga sér stað munnlega fremur en skriflega. Þetta á t.a.m. við um lög, hjúkrun og kennslu svo fátt eitt sé nefnt. Mikilvægt er að nemendur geti tjáð sig faglega um fagið sitt.
 • Eru námstækifæri þar sem nemendur undirbúa sig betur fyrir prófin m.a. vegna þess að erfitt er að spá fyrir um hvernig þeir verða spurðir, þeim finnst erfitt að standa á gati þegar þeir þurfa að sýna fram á heildarskilning á námsefninu.
 • Henta sumum nemendum betur. Nemendur eru mismunandi og sumir eiga auðveldara með að tjá sig munnlega en skriflega. Gott er að hafa námsmat sem fjölbreyttast til að koma til móts við fjölbreyttan nemendahóp.
 • Gefa möguleika á því að umorða óljósar spurningar þannig að nemendur skilji þær.
 • Krefjast þess að nemendur noti eigin orð og skilning. Frammistaða nemenda á munnlegu prófi er því 100% þeirra.

Helstu gallar munnlegra prófa

Það eru jákvæðir og neikvæðir þættir við flesta hluti. Neikvæðir þættir munnlegra prófa eru t.d. eftirfarandi:

 • Kvíði: Á meðan hæfileg spenna getur skerpt hugsun nemenda veldur of mikil spenna jafnvel kvíða sem hamlar nemendum í munnlegum prófum. Til að koma til móts við slíka nemendur er gott að æfa munnleg próf þannig að þau séu þeim ekki framandi og þeir geti verið búnir að undirbúa sig. Í sumum tilfellum þarf að bjóða nemendum aðra valkosti í námsmati.
 • Heyrn og málerfiðleikar. Gera þarf ráðstafanir vegna nemenda með heyrnar- eða málerfiðleika í munnlegum prófum.
 • Tími: Munnleg próf geta tekið tíma og á það sérstaklega við í stórum hópum. Aftur á móti geta þau einnig sparað tíma vegna þess hversu stuttan tíma þau taka, bæði prófið sjálft og einkunnagjöfin.
 • Vöntun á nafnleysi: Prófdómari veit hvern hann er að prófa og ekki er hægt að gæta nafnleysis.
 • Mismunun á grunni kyns, félagslegrar stöðu eða akademísks bakgrunns getur átt sér stað.
 • Nýjung: Nemendur þekkja ekki endilega þetta form námsmats og því er mikilvægt að kynna þeim það fyrirfram.
 • Upptökur: Erfitt getur verið að taka upp og geyma upptökur af munnlegum prófum, en þess er krafist sums staðar.
 • Mælska vs þekking: Prófdómarar geta ruglast á mælsku nemenda og þekkingu og þannig talið nemanda vel að sér í fræðum þó að hann sé það ekki og beiti einungis mælskulist sinni.

Heimildir

Byggt á bæklingi um munnleg próf frá Leeds metropolitan University: Joughin, G. (2010). A short guide to oral assessment.  Leeds metropolitan University: University of Wollongong. Aðgengilegt á neti: A short guide to oral assessment

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *