Svör nemenda við opnum spurningum

Nemendur skráðu 332 textasvör við opnum spurningum. Svör þeirra gefa góða innsýn í hvað þarf að bæta.

Nemendum gafst kostur á að svara svara beint á þremur textasvæðum í spurningakönnunni:

 • Annað sem þú vilt taka fram um skipulag eða viðmót (í framhaldi spurningar um kennsluvef námskeiðs)
 • Eru einhverjar aðgerðir í Moodle sem virka ekki sem skyldi að þínu áliti?
 • Annað sem þú vilt koma á framfæri varðandi Moodle

Svör nemenda voru flokkuð efnislega í eftirfarandi flokka:

 1. Skipulag á kennsluvef námskeiðs og þekking kennara á Moodle
 2. Skortur á samræmi kennsluvefja
 3. Mörg kerfi í gangi (Ugla, Moodle, Panopto, Piazza, Facebook, Gradescope o.fl.)
 4. Hvað virkar illa í Moodle
 5. Upptökur

Hér fyrir neðan má lesa nánari útlistun ásamt nokkrum svörum nemenda.

1. Skipulag kennsluvefs og þekking á Moodle

Frá nemendum:

 • „Mjög misjafnt og fer allt eftir kennurunum, sum námskeið mjög vel skipulögð og allt mjög ljóst, annað mjög illa skipulagt og kennarar alltof lengi að setja inn einkunnir og allt óljóst.“
 • „Ég hef setið námskeið þar sem Moodle-síðan er frábær og einnig þar sem hún er skelfileg. Mín tilfinning er sú að kennarar séu almennt frekar latir þegar kemur að skipulagi og viðhaldi á Moodle-síðum námskeiða.“
 • „Það vantar að setja inn dagsetningar fyrir skilum á verkefnum, svo að maður þurfi ekki sífellt að fletta í kennsluáæltun.“
 • „Vantar samantektir fyrir verkefnin og námsgögn þannig að það þurfi ekki að fara í gegnum allt námskeiði til að finna t.d. allar glærurnar.“

Nemendur kvörtuðu langoftast undan atriðum sem tengjast skorti á skipulagi kennsluvefs og skorti á þekkingu kennara á kerfinu. Þegar horft er til opinna svara nemenda er greinilegt að hluti kennara skipuleggur kennsluvefinn ekki nægilega vel og að uppsetningu og almennri umsýslu er ábótavant.

Nemendur nefna að;

 • erfitt sé að finna efni, það taki langan tíma,
 • yfirsýn yfir efni námskeiðs vanti og að erfitt sé sjá námskeið í heild sinni,
 • dagsetningar verkefnaskila komi ekki fram eða einungis í kennsluáætlun,
 • verkefni séu falin inn í skjölum og upplýsingar um verkefni og jafnvel skil sama verkefnis séu á mörgum stöðum,
 • dagatal námskeiðs sé ekki notað (ekki uppsett), ómögulegt sé að fá yfirsýn yfir skil í námskeiði,
 • einkunnir séu ekki skráðar í Moodle heldur sendar í tölvupósti eða í skilaboðum,
 • nemendur geti ekki merkt við hvaða efni þeir hafa lesið á vefnum.

Út frá svörum nemenda má greina vandann og skipta í þrjár meginorsakir:

 • Skortur á skipulagi í uppbyggingu kennsluvefs
  T.d. flokkun efnis er ábótavant, fyrirsagnir ekki notaðar, heiti atriða e.t.v. ekki nægilega skýr.
 • Notuð eru röng verkfæri
  T.d. er skjal notað í stað þess að setja upp verkefni sem veldur því að skiladagur verkefnis birtist ekki í dagatali námskeiðs og nemandi getur ekki skoðað öll verkefnaskil námskeiðs á einum stað. Einkunnir eru sendar í tölvupósti eða skilaboðum til nemanda í stað þess að skrá þær inn í uppsett verkefni (eða í einkunnabók) og láta Moodle um að senda nemanda tilkynningu. Einkunnir eru nemendum því ekki aðgengilegar í Moodle.
 • Ekki eru notuð eða sett upp verkfæri
  Verkfæri sem sem auka vinnuhagræði, auðvelda umsýslu og gefa nemanda betri yfirsýn s.s. dagatal námskeiðs, einkunnabók, blokkin viðfangsefni og staða/skráning á vinnuskilum í námskeiði eru ekki notuð.

Þrátt fyrir mikinn fjölda ábendinga um hvað mætti betur fara voru niðurstöður úr krossaspurningu um sama efni frekar jákvæðar (Hversu vel eru kennsluvefir námskeiða skipulagðir í Moodle?). 31% nemenda merkti við valkostinn Kennsluvefir námskeiða eru yfirleitt mjög vel skipulagðir og auðvelt að finna þar efni og átta sig á til hvers er ætlast og 47% nemenda merkti við Kennsluvefir eru sæmilega skipulagðir og oftast frekar auðvelt að athafna sig.

Ofangreind atriðin er ekki flókið að leysa en nauðsynlegt að þekking sé til staðar hjá kennurum. Eftir því hvernig háttar til á hverjum kennsluvef fyrir sig má hugsa sér eftirfarandi úrræði.

 • Fara í gegnum efni námskeiðs og flokka þar lesefni og gögn í möppur, setja upp fyrirsagnir ef þörf krefur.
 • Nota viðeigandi verkfæri t.d. skilaverkefni eða Turnitin fyrir verkefnaskil. Skrá einkunnir á réttan stað s.s. í verkefni, próf, umræðu eða beint í einkunnabók.
 • Setja upp dagatal sem sýnir öll dagsett skil og skráða viðburði í námskeiði.
 • Bæta blokkinni viðfangsefni við kennsluvefinn, en hún flokkar allt á kennsluvefnum svo nemandi getur kallað fram öll verkefni á einum stað, allar möppur og skrár á einum stað o.s.frv.
 • Einnig gæti kennari sett upp skráningu vinnuskila. Með skráningu á vinnuskilum getur nemandi (eða kerfið eftir atvikum) merkt við hverju hann hefur lokið. Nemandi og kennari fá einnig aðgang að skýrslum, nemandi yfir stöðu á eigin vinnuskilum en kennari yfirlit yfir vinnuskil allra nemenda.

Meginforsenda skipulags er skýr og vel uppsett kennsluáætlun sem hægt er að styðjast við þegar skipulag kennsluvefs er unnið. Forsíða kennsluvefs ætti að þjóna sem efnisyfirlit en sterk tilhneiging virðist vera í þá átt að setja allt efni og upplýsingar til nemenda beint á forsíðuna.

Frá nemendum:
 • „Það þarf greinilega að kenna sumum kennurum betur á Moodle, því þetta er algjör snilld í sumum áföngum og mesti höfuðverkur í heimi í öðrum.“
 • „Skipulag námskeiða fer mjög mikið eftir kennurum, sumir áfangar eru mjög vel skipulagðir en aðrir ekki. Stundum mætti halda að það þyrfti að kenna ákveðnum kennurum betur á kennsluvefina“
 • „Kenna kennurunum hvernig skal setja upp námskeið.“
 • „Margir kennararnir hafa ekki hugmynd um hvernig á að nota Moodle.“
 • „Kennari þarf að opna fyrir námskeiðið svo nemendur sjái Moodle svæði þess. Almennt vissu kennarar ekki af þessu eða gerðu það of seint, eftir að kennsla á misserinu var byrjuð.“

Hafa ber í huga að nemendur hafa í mörgum tilfellum langa reynslu af notkun Moodle hjá ólíkum kennurum og má því ætla að þeir hafi ágæta innsýn í notkun kerfisins. Stór hluti nemenda (32%) notaði Moodle í framhaldsskóla (eða fyrri skóla). Þeir eru auk þess oft í fleiri en einu námskeiði sem kennt er í Moodle og geta því borið saman mismunandi notkun kerfisins hjá ólíkum kennurum. Í svörum nemenda kom einnig fram að einhverjir hafa reynslu af notkun kerfisins í hlutverki kennara.
Úrbætur felast fyrst og fremst í fræðslu. Skilgreina þarf nákvæmlega þau atriði sem nauðsynlegt er að kennari kunni skil á í Moodle. Setja mætti sem skilyrði fyrir notkun á Moodle að kennari hafi lokið grunnnámskeiði í kerfinu. Slíkt námskeið væri hægt að setja upp í Moodle þannig að  kennari gæti tekið það sjálfstætt og lokið á tilteknum tíma. Einnig væri möguleiki að nota námskeið sem hin ýmsu Moodle partner fyrirtæki bjóða kennurum upp á. Þó mikið sé til af leiðbeiningum um Moodle þyrfti að setja púður í gerð leiðbeininga og setja aftur upp Moodle-leiðbeiningavef fyrir Háskóla Íslands (leiðbeiningavefur er í vinnslu).

2. Skortur á samræmi kennsluvefja

Frá nemendum:
 • „Afar misjafnt er hvernig kennarar skipuleggja kennsluvefinn. Örfá námskeið hafa verið vel skipulögð en önnur misilla skipulögð. Þetta er frábært kerfi sem hefur mikla möguleika ef rétt er notað. Held að kennarar HÍ þyrftu að læra miklu betur að nota þetta fína verkfæri sem þeir eru með í höndunum.“
 • „Það að kennsluvefir séu ólíkir á milli kennara getur verið mjög erfitt og ruglandi fyrir nemendur að þurfa sífellt að venjast nýju sniði þegar þau byrja nýjan áfanga. Mæli með að kennarar myndu ákveða saman hvaða sniðmát sé að virka best eða eftir könnun hjá nemendum.“
 • „Mætti vera samræmi á milli námskeiða hvar myndupptökur er að finna, þarf oft að leita af myndupptökum.“
 • „Það vantar ákveðið samræmi á milli kennara og notkunar þeirra á Moodle. Það er eiginlega alveg ótækt að nemandi þurfi að tileinka sér 3-5 ólík viðmót inn á Moodle eftir áfanganum og kennaranum. Skjöl eru sett á ólíka staði, einkunnir, verkefni og fleira.“

Nemendur nefna oft að samræmi vanti á milli kennsluvefja. Sömu verkfæri séu á mismunandi stöðum og uppbygging kennsluvefs með ólíkum hætti. Úrlausn gæti falist í að setja upp ramma eða staðal sem kennari notaði til viðmiðunar við skipulag og uppbyggingu kennsluvefs og/eða bjóða upp á sniðmát fyrir kennsluvef þar sem helstu verkfæri væru þegar uppsett, sjá nánar um þessa möguleika á síðu um samantekt á niðurstöðum Moodle-spurningakönnunar í kaflanum Tillögur Kennslumiðstöðvar um betrumbætur í stoðþjónustu byggðar á niðurstöðum könnunarinnar. Samræmi kennsluvefja myndi einnig aukast sjálfkrafa með aukinni þekkingu kennara á Moodle. Ef einkunnir eru t.d. skráðar á réttan stað koma þær fram á sama stað í öllum námskeiðum nemanda.

3. Mörg kerfi í gangi

Frá nemendum:

„Ég myndi vilja að kennarar héldu sig við eitt kerfi. Sumir nota Uglu og aðrir Moodle, aðrir bæði jöfnum höndum sem verður til þess að það fer tími í að að giska og leita hvar upplýsingar er að finna.“
„Mér finnst Moodle alveg fínt en það er mjög óþolandi að þurfa að nota fleiri en eitt skólaumsjónarkerfi, sbr. Uglu og Moodle fyrir mismunandi áfanga.“
„Skil ekki afhverju við erum með sér póst, sér Uglu og sér Moodle. Finnst að aðgegni efnis ætti að vera á einum stað og einni síðu ekki að ég þurfi að fara á póstinn til að finna þetta eða Ugluna þar sem kennarinn vill ekki nota Moodle eða öfugt.“
„Finnst að allir ættu að nota Moodle eða ekki. Semsagt að kennarar hafi ekki val um að nota annað hvort Moodle eða Uglu, það getur verið pínu ruglandi að vera að svissa á milli beggja forrita“
„Aðallega pirrandi að sum námskeið notast við Uglu og önnur við Moodle og maður þarf alltaf að flakka á milli. Sérstaklega ef maður þarf að hlusta á fyrirlestra í gegnum Panopto því þá þarf maður endalaust að skrá sig út og inn aftur.“
„It’s sometimes annoying that completed recordings are so low down the page so it’s basically the thing you need the most on Moodle but you need to scroll all over to get in there. And Pantopo is mean and forbid access everytime it can, it is the most annoying thing ever!“

Nemendur kvarta yfir að tvö kerfi séu notuð fyrir kennsluvefi námskeiða og auk þess noti kennarar fleiri kerfi. Úrbætur felast í að taka upp og innleiða eitt námsumsjónarkerfi sem notað yrði fyrir öll námskeið skólans. Eins og nemendur benda réttilega á er vinnuumhverfið ósamstætt og ruglandi. Dýrmætum tíma nemenda er sóað í að fara á milli kerfa, leita að efni og upplýsingum. Það er löngu tímabært að Háskólinn taki upp eitt kerfi og helst að önnur kerfi s.s. upptökukerfi virki sem hluti af námsumsjónarkerfi. Málið er nú í höndum nýstofnaðs Upplýsingatæknisviðs.

4. Hvað virkar illa í Moodle

Frá nemendum:
 • „Nemar þurfa að geta endurraðað námskeiðum og falið þau aftur. Ég er með skelfilega óreiðu af námskeiðum og þarf oft að fara á 2 – 3 blaðsíðu af námskeipum til að finna þau sem ég er í.“
 • „að finna námskeið sem eru á þessu misseri, námskeiðin sem eru opin eru öll í einhverri röð (eftir dagsetningum sem kennarar setja inn), vildi geta breytt í eigin röð eins og hægt var fyrir breytingar“
 • „Stjórnborð nemenda; hægt sé að færa til námskeið í vinstri dálk og setja þá t.d. í rétta röð. Ekki hafa gömul námskeið þar, þau mega vera þá neðst.“
 • „Þoli ekki að sjá gömul námskeið“
 • „Mætti bæta að áfangarnir sem eru í gangi núna séu fremst , eða að kennarar sorti , í gangi, væntanleg og eldri þar sem í mínu tilfelli eru allar annarnar í graut og allt ” í gangi”.
 • „Mjög þreytandi að þurfa að leita að áfanganum í hvert skipti.“

Langflestar athugasemdir nemenda varðandi kerfislega þætti í Moodle tengdust breyttu stjórnborði. Ný „yfirlit námskeiða“ blokk fylgdi uppfærslu á kerfinu s.l. sumar. Uppfærslan krefst þess að kennari skrái hvenær námskeiði lýkur til að það flokkist með eldri námskeiðum og fari undir viðeigandi flipa á stjórnborði notanda, að öðrum kosti kemur námskeið fram með námskeiðum í gangi. Til að opna kennsluvef námskeiðs þarf nemandi þess vegna stundum að fletta og leita til að finna þau námskeið sem hann er skráður í á núlíðandi misseri. Best hefði verið að upplýsingar um lok námskeiða kæmu úr Uglu og það hefði þurft að skrifa brú á milli kerfanna í þessu skyni. Önnur leið hefði verið að nota eldri blokkina áfram í nýrri útgáfu Moodle, en eldri blokkin fyrir yfirlit námskeiða hefur verið í boði sem viðbót frá maí 2017. Sjálfsagt hefði verið mögulegt að finna aðrar leiðir varðandi þetta atriði.

5. Upptökur

Frá nemendum:
 • „Á þessari önn virðast vera eitthverjir erfiðleikar að hlusta á fyrirlestra í gegnum Moodle í öllum áföngum sem ég er í.“
 • „Ég lendi alltaf í vandræðum með að skoða upptökur í Moodle. Þarf að biðja um leyfi frá kennara og skrá mig út og svo aftur inn til að fá að sjá upptökurnar. Vildi gjarnan að ég gæti smellt á upptökuna og hún myndi spilast sjálfkrafa án þess að þurfa að gera einhverjar fimleikaæfingar í hvert sinn.“

Vandræði nemenda við að skoða upptökur í Panopto má rekja til þess að Háskólinn notar bæði Uglu og Moodle fyrir kennsluvefi námskeiða. Notaðir eru tveir gagnagrunnar. Panopto er því tvískipt, annars vegar Panopto fyrir Uglu og hins vegar fyrir Moodle. Ef notandi reynir að opna upptöku í Moodle en er innskráður í Panopto Uglu megin fær hann þau skilaboð að hann hafi ekki réttindi til að horfa á upptöku og öfugt. Til að flækja málin enn frekar slysast kennari stundum til að setja upptöku á rangt námskeið í Panopto, á námskeið fyrra misseris. Það tengist því að lokadagur námskeiðs er ekki skráður í Moodle.
Lausnin felst í fyrsta lagi í því að notað sé eitt námsumsjónarkerfi fyrir alla kennsluvefi námskeiða. Í öðru lagi mætti upptökukerfið virka sem hluti af námsumsjónarkerfi, sem eitt af verkfærum Moodle t.d. eða því kerfi sem verður á endanum valið fyrir HÍ. Sem dæmi ætti notandi ekki að þurfa að skrá sig inn sérstaklega aftur til að taka upp ef hann er þegar skráður inn í námsumsjónarkerfið. Í þriðja lagi þurfa að vera til skýrar og greinargóðar leiðbeiningar um notkun upptökukerfisins.