Svör kennara við opnum spurningum

Kennarar skráðu 115 textasvör við opnum spurningum.

Í könnun kennara voru þrjár opnar spurningar auk svæðis fyrir annað sem kennarar vildu koma á framfæri varðandi Moodle:

 1. Eru einhver verkfæri í Moodle sem þú notar mikið eða heldur sérstaklega upp á?
 2. Getur þú nefnt eitt eða tvennt sem þú myndir vilja láta bæta við Moodle t.d. verkfæri eða virkni?
 3. Eru einhverjar aðgerðir í Moodle sem virka ekki sem skyldi að þínu áliti?
 4. Annað sem þú vilt koma á framfæri varðandi Moodle.

Það sem kennarar vilja bæta í Moodle

Kennarar nefna nokkrar viðbætur sem þeir óska eftir í HÍ-Moodle:
Voicethread, Piazza, tengingu við e-portfolio kerfi (WordPress var nefnt), „almennilegt spjallkerfi s.s. Teams“, krossgátur og minnisspil, einhverja lausn inn í Moodle í stað þess að þurfa að nota Adobe Connect.

Einhvers misskilnings gætir því kennarar nefna einnig atriði sem þegar eru til staðar í Moodle eða eru tengd við kerfið. Þeir virðast því ekki vita af þjónustu sem stendur þeim til boða. Dæmi:

 • Lokaður prófahamur – SEB (Safe Exam Browser) er til staðar í Moodle og hefur verið frá 2014. Auk þess hefur Reiknistofnun boðið upp á úrræði að læsa tölvum tölvuvers í prófi svo nemandi geti einungis opnað Moodle og annað sem kennari óskar eftir t.d. skrár sem nemandi þarf að nota í prófi.
 • Svæði til að setja inn myndbönd – Sér vefþjónn er fyrir myndbönd námskeiða hjá HÍ vefslóðin er https://rec.hi.is/.
 • Moodle app – App er til fyrir Moodle og HÍ-Moodle er stillt miðað við notkun þess https://download.moodle.org/mobile/. Það hefur reyndar komið í ljós að appið höndlar ekki HÍ-Moodle. Ekki er vitað hvað veldur en verið er að skoða málið.

Sumir kennarar segjast vilja geta haft meiri stjórn á útliti kennsluvefs.

Frá kennurum:

 •  „Útlit Moodle er eins hjá öllum og ekki ert hægt að sníða uppbyggingu þess sem nemendur sjá nema að mjög litlu leyti. Þetta var miklu betra í WebCT.“
 • „meira val með sniðmát eins og var í „gamla“ daga.“
 • „Útlit í Moodle er ekki skemmtilegt – en kannski kann ég ekki að að breyta því.“

Mögulegt er að kanna lausnir sem bjóða upp á annars skonar uppröðun  á kennsluvef t.d viðbót (course format) eða finna/kaupa annað sniðmát fyrir Moodle en fara þarf varlega og vanda vel í þeim efnum og ýmislegt mælir gegn því:

 • Villur í kerfinu geta bæði tengst sniðmátum og viðbótum. Þetta þýðir að einstakir hlutir í Moodle geta hætt að virka út af villu í gerð sniðmáts eða viðbótar sem bætt er við kerfið. Það getur reynst tímafrekt að finna orsakir fyrir villum og mögulega þarf þá að hætta að bjóða upp á viðbót sem er í mikilli notkun og vinsæl hjá notendum.
 • Ef sniðmát er frá þriðja aðila er undir hælinn lagt hvort það er uppfært reglulega, sem þýðir að þegar við viljum uppfæra HÍ-Moodle í nýrri útgáfu er sniðmátið e.t.v. ekki til fyrir nýju útgáfuna. Sama gildir með viðbætur.
 • Sniðmát breyta ekki einungis litum, letri o.þ.h. heldur líka í mörgum tilfellum hvar hlutir eru staðsettir.
 • Viðbætur vinna stundum ekki rétt með þeim viðbótum sem þegar eru í kerfinu.

Nemendur kalla eftir samræmi, í kennsluvefjum námskeiða. Betra er að koma til móts við þær óskir ef sama sniðmát er notað á öllum kennsluvefjum.
Sniðmát voru mun einfaldari fram að útgáfu 2 af Moodle. í Moodle 1.9 voru í boði sniðmát í HÍ með litum fræðasviða sem dæmi. Róttækar breytingar urðu á kerfinu með Moodle 2 m.a. í gerð sniðmáta. Ekki var unnt að smíða ný sniðmát fyrir fræðasvið á sínum tíma. Bæði var mjög tímafrekt og krafðist þekkingar sem við hefðum orðið að tileinka okkur eða ráða einhvern í verkið. Við þurfum að velja okkar baráttur og það verk var ekki í forgangi.

Það sem kennurum finnst ekki virka vel

Nokkrir nefna að ritillinn í Moodle mætti vera þjálli. Atto ritillinn sem er sjálfvalinn í Moodle er sérsmíðaður fyrir kerfið. Hann passar upp á að efni sem sett er inn í Moodle henti snjalltækjum, myndir minnki miðað við skjástærð o.fl. Mögulegt er að setja upp fleiri viðbætur í ritilinn og það verður skoðað við uppfærslu kerfisins á komandi sumri. Hver notandi getur einnig valið að nota TinyMCE ritilinn.

Umræður í Moodle fengu sinn skerf af athugasemdum. Þær þóttu stirðar, gamaldags í útliti og sumir kennarar nota Facebook í stað þeirra. Það er ljóst að umræður í Moodle þykja vera  gamaldags m.v. nýrri umræðukerfi og ákveðnar stillingar sem kennarar leita stundum eftir eru ekki til staðar t.d. að loka umræðu en leyfa lestraraðgang áfram. Kennarar virðast skiptast nokkuð í fylkingar hvað varðar umræður því þær eru líka nefndar sem verkfæri sem virkar vel ( t.d. SOS umræður). Í einhverjum tilfellum getur verið að kennarar séu hér að tala um sitt hvað, því Moodle býður upp á fimm mismunandi tegundir umræðna. Í a.m.k. einum ummælum var ljóst að kennari hafði notað sjálfvöldu almennu umræðuna í stað einfaldrar umræðu sem sýnir öll innlegg nemenda á sömu síðu.

Öðrum úrræðum vegna umræðna verður að öllum líkindum bætt við Moodle í sumar. Til skoðunar er að bæta ForumNG við Moodle og að tengja Piazza við Moodle.

Athugasemdir kennara verða notaðar til hliðsjónar við mótun þjónustu og gerð leiðbeininga um kerfið.

Úrræði notanda í persónulegum stillingum
Hver notandi getur skipt út ritlinum og valið að nota TinyMCE ritilinn sem býður m.a. upp á fleiri stillingar varðandi töflur. Það er gert í stillingum notanda í Moodle  (eigið nafn í efra hægra horni > stillingar > kjörstillingar ritils).
Í eigin stillingum stjórnar notandi því einnig hvort ný innlegg í umræður eru auðkennd þ.e. hvort Moodle sýnir við tengilinn á umræðuna hve mörg innlegg hafa bæst við frá því notandi var síðast skráður inn.

Það sem kennarar halda upp á í Moodle

Kennarar nefna ýmis verkfæri og virkni. Próf í Moodle er oftast nefnt sem uppáhalds verkfæri og svo umræður. SOS – spurt og svarað umræða er nefnd sérstaklega. Umræður eru hins vegar einnig taldar upp í svörum við spurningu um það sem ekki virkar í og sagðar stirðar og gamaldags (sjá nánar í kaflanum „Það sem kennurum finnst ekki virka vel“ hér ofar á síðunni). Kennarar telja spurningabanka námskeiðs með uppáhalds verkfærum, einkunnaramma og fleira sem viðkemur endurgjöf til nemenda. Kennsluvefurinn haldi vel utan um námskeiðið og þeim finnst gott að hægt sé að búa til sérstakt rými fyrir hvern kennsludag/viku og fleira.

Annað

Í athugasemdum kennara kom ýmislegt fram, nefnt er að vinna þurfi betur í þýðingu Moodle, enn sé þar of mikið á ensku, ánægju er lýst yfir með að notað sé opið kerfi byggt á kennslufræðilegri nálgun og fleira. Kennarar nefndu einnig óþægindi við að hafa tvö kerfi fyrir námskeið t.d. vegna upptakna.

Einhverjar athugasemdir var erfitt að lesa í en þyrftu e.t.v. nánari skoðun með viðkomandi kennara. Kennarar eru því sérstaklega minntir á að leita til Kennslumiðstöðvar með vandamál varðandi Moodle.