Moodle-könnun

Framkvæmd og niðurstöður

Starfsfólk Kennslumiðstöðvar þakkar öllum þeim sem tóku þátt í spurningakönnun um námsumsjónarkerfið Moodle í janúar 2018. Niðurstöðurnar gefa okkur dýrmætar upplýsingar til að vinna með.

Nálgun

Tilgangur spurningakönnunarinnar var að safna upplýsingum um notkun Moodle og fá fram viðhorf notenda til kerfisins. Niðurstöðurnar verða notaðar til að bæta og efla þjónustu við notendur kerfisins.

Framkvæmd

Settar voru upp fjórar spurningakannanir í K2 könnunarkerfi Uglu. Tvær þeirra voru fyrir nemendur á ensku og íslensku (18 spurningar) og tvær fyrir kennara á ensku og íslensku (22 spurningar). Fjöldi sameiginlegra spurninga voru 10, þar af tvær opnar spurningar.

Alls svöruðu 850 notendur könnuninni, 738 nemendur og 112 kennarar (sjá mynd 2).
672 (91%) nemendur svöruðu íslenskri útgáfu könnunarinnar og 66 (9%) enskri útgáfu.
107 (96%) kennarar svöruðu íslenskri útgáfu könnunarinnar og 5 (4%) enskri útgáfu.

moodle-spurningakonnun

Mynd 1. Kannanirnar voru settar upp í K2 könnunarkerfi Uglu. Hluti spurninga (10) var sambærilegur á milli spurningakannananna og hluti sniðinn að notkun viðkomandi markhóps.

Tölvupóstur var sendur 17. janúar 2018 á netföng virka nemenda við HÍ og á netföng virkra kennara kennsluárið 2017-2018. Í tölvupóstinum voru tenglar á allar fjórar kannanirnar. Sagt var frá tilgangi könnunarinnar, að bæta náms- og kennsluumhverfi Háskóla Íslands og þeir notendur sem hafa nota Moodle voru beðnir um að taka þátt. Um var að ræða opnar netkannanir og því var innskráningar ekki krafist. Ítrekun var send í tölvupósti til allra sem fengu fyrri póstinn, óháð því hvort þeir voru búnir að svara könnuninni eða ekki. Þetta kemur til af því að vegna þess að könnunin var opin var ekki hægt að sjá hverjir höfðu svarað henni. Sagt var frá því að könnuninni yrði lokað 31. janúar. Ítrekun var einnig send með skilaboðum í HÍ-Moodle á notendur sem höfðu verið virkir eftir september 2017. Auk þess voru birtir tenglar á kannanirnar á stjórnborð notenda í HÍ-Moodle.

Moodle spurningakönnun

Mynd 2. Fjöldi þátttakenda sem svaraði Moodle spurningakönnun og á hvaða tungumáli þeir svöruðu.

Niðurstöður

Hversu ánægðir eru notendur með Moodle?

Meirihluti notenda er nokkuð sáttur með Moodle. 70% bæði nemenda og kennara merktu annað hvort við að þeir væru mjög ánægðir eða frekar ánægðir með kerfið.

Um 75% nemenda segja kerfið frekar einfalt eða mjög einfalt. Kennarar merktu flestir við að flækjustig færi eftir aðgerðum (42%) en 47% kennara merktu við annað hvort að kerfið væri frekar einfalt eða mjög einfalt.

Hversu vel þekkja notendur kerfið?

Miðað við hversu lengi þátttakendur hafa notað Moodle ætti meirihluti þeirra að þekkja kerfið nokkuð vel. Mikill meirihluti þátttakenda í kennarahópnum (91%) hefur notað Moodle í tvö kennsluár eða lengur á móti 44% nemenda. Hlutfall nemenda sem hefur reynslu af Moodle úr framhaldsskóla eða fyrri skóla er 32%. Í opnum svörum nemenda kom fram að einhverjir hafa einnig reynslu af kerfinu í hlutverki kennara.

Nemendur þurfa litla aðstoð og virðast bjarga sér með flest. Helmingur nemenda segist ekki hafa þurft á aðstoð að halda (49%). Nemendur virðast leita oftast til samnemanda eftir aðstoð. Einungis 4% kennara segist ekki hafa þurft á aðstoð að halda með Moodle. Flestir kennarar leita í Moodle-leiðbeiningar á netinu (65%) og til Kennslumiðstöðvar (64%), því næst til aðila á fræðasviði eða deild (34%). Meirihluti kennara (63%) hefur farið á einhverja vinnustofu eða tekið þátt í málstofu um kerfið.

Í svörum við opnum spurningum tjáðu nemendur sig um vankunnáttu kennara í Moodle. Einnig kom fram fjöldi athugasemda um ranga notkun kerfisins eða einstakra verkfæra. Svo virðist sem hluti kennara Háskóla Íslands þurfi að bæta þekkingu sína á kerfinu. Skólinn þarf að skoða hvernig hann getur eflt stoðþjónustu við kennara svo bæta megi úr þessum þekkingarskorti og nota kerfið á skilvirkari hátt.

Nemendur:
„Það þarf greinilega að kenna sumum kennurum betur á Moodle, því þetta er algjör snilld í sumum áföngum og mesti höfuðverkur í heimi í öðrum.“

„Margir kennararnir hafa ekki hugmynd um hvernig á að nota Moodle.“

„Kennarar virðast oft ekki kunna almennilega á Moodle og það sem kerfið bíður upp á.“

Samræmi og eitt kerfi

Nemendur kalla eftir samræmi, kennsluvefir námskeiða séu byggðir upp á ólíkan hátt og sömu atriði sett á mismunandi staði. Þeir eru einnig óánægðir með að notuð séu tvö kerfi, Ugla og Moodle, fyrir kennsluvefi námskeiða. Nemendur segja að jafnvel séu bæði kerfin notuð í sama námskeiðinu. Í ofanálag séu önnur forrit og/eða kerfi oft notuð. Þetta finnst nemendum að skapi stöðugan rugling. Þeir fái tilkynningar ýmist í Uglu eða Moodle og upplýsingar um sama verkefni sé jafnvel á mörgum stöðum. Ekki bætir úr skák að upptökukerfi háskólans, Panopto er annars vegar tengt við Uglu og hins vegar Moodle sem leiðir til þess að nemendur þurfa að vera meðvitaðir um hvort þeir skrá sig inn í Panopto Uglu megin eða Moodle megin til að horfa á upptökur. Ef kennari notar bæði Uglu og Moodle fyrir sama námskeið þurfa nemendur að vita hvoru megin kennari kýs að geyma upptökurnar.

Nemandi:
„Það vantar ákveðið samræmi á milli kennara og notkunar þeirra á Moodle. Það er eiginlega alveg ótækt að nemandi þurfi að tileinka sér 3-5 ólík viðmót inn á Moodle eftir áfanganum og kennaranum. Skjöl eru sett á ólíka staði, einkunnir, verkefni og fleira.“

Hversu vel eru kennsluvefir námskeiða skipulagðir í Moodle?

Nemendur virðast í heildina nokkuð sáttir með kennsluvefi námskeiða, skipulag á þeim sé oftast nokkuð gott, sjá mynd 3.

Moodle spurningakönnun

Mynd 3. Skoðun nemenda (n=738) á skipulagi kennsluvefja í Moodle

Athugasemdir nemenda í opnum spurningum gefa þó til kynna að stuðningur við kennara þyrfti að vera meiri og betri. Í þeim er langoftast kvartað yfir atriðum sem tengjast skorti á skipulagi kennsluvefs, bæði ytra skipulagi s.s. flokkun og uppröðun efnis; erfitt sé að finna efni og það taki oft langan tíma, „minnir á frumskóg“ og skipulagi í umsýslu vefsins, s.s. skráningu einkunna.  Margar athugasemdir nemenda tengjast því að;

  • efni virðist ekki vera flokkað, t.d. skrár settar í möppur
  • fyrirsagnir ekki settar upp en þær geta auðveldað notendum að skanna efni vefsins
  • kennari notar rangt verkfæri eða setur ekki upp hluti s.s. að skrá er notuð í stað skilaverkefnis
  • yfirlit yfir öll verkefnaskil eru ekki aðgengileg á einum stað
  • dagatal námskeiðs er ekki notað
  • einkunnir eru ekki skráðar í Moodle

Nemendur nefndu einnig hluti sem þeim fannst vel gerðir í Moodle en mun sjaldnar. Meðal annars voru einhverjir kennarar nefndir sérstaklega sem þóttu vera með góða og vel skipulagða kennsluvefi.

Viðbætur og breytingar

Varðandi það sem virkar ekki vel í Moodle kvarta nemendur yfir breytingum á stjórnborði notanda sem komu til við uppfærslu kerfisins s.l. sumar. Nemandi getur ekki lengur fært til og falið námskeið á heimasvæði sínu, áður gat nemandi t.d. falið námskeið sem hann hafði lokið. Nú flokkar Moodle sjálfkrafa námskeið undir flipana í gangi, væntanleg og eldri. Flokkun námskeiðanna miðast við að kennari skrái lokadagsetningu námskeiðs en upphafsdagsetning verður til sjálfkrafa við stofnun kennsluvefs. Þar sem misbrestur er á því að lokadagsetning sé skráð hanga eldri námskeið með námskeiðum í gangi hjá nemanda, sjá nánar í svörum nemenda við opnum spurningum. Finna þarf lausn á þessu máli í sumar þegar kerfið verður uppfært, t.d. að lokadagsetning námskeiðs komi sjálfkrafa úr Uglu ef mögulegt er.

Kennarar nefndu ýmislegt sem þeir vildu sjá betra í Moodle. Þeir nefndu nokkrar viðbætur við kerfið t.d. vegna umræðna, vildu fá betri tengingu við Uglu t.d. vegna einkunnagjafar, fá meiri stjórn á útliti kennsluvefs og fleira. Allar ábendingar verða teknar til skoðunar. Nánar má lesa um ábendingar kennara í svörum við opnum spurningum.

Hvers vegna Moodle og hvað nota kennarar mest?

Þegar kennarar eru spurðir um ástæðu þess að þeir hófu notkun á Moodle er algengast að merkt sé við

  • til að hafa öll námskeiðsgögn á einum stað (44%),
  • til að geta mótað kennsluvefinn (43%),
  • og til að nota próf í Moodle (38%).
Moodle spurningakönnun

Mynd 4. Hvers vegna kennarar (n=112) byrjuðu að nota Moodle. Þeir gátu merkt við eins marga valkosti og þeir vildu.

Þjónusta og aðstoð

67% kennara sögðust vera mjög eða frekar ánægðir með þjónustu Kennslumiðstöðvar og í athugasemdum þökkuðu kennarar ýmist fyrir góða þjónustu eða kvörtuðu yfir að þjónustu væri ábótavant. Þjónustu vegna Moodle þarf að móta betur hjá Kennslumiðstöð og skoða hvað þarf að bæta. Hugmyndir kennara eru sérstaklega velkomnar.

Tillögur kennslumiðstöðvar um betrumbætur í stoðþjónustu byggðar á niðurstöðum könnunarinnar

Niðurstöðurnar kalla á að kennarar fái meiri fræðslu í framsetningu og umsýslu kennsluvefs, þar sem helstu verkfæri eru kynnt og sagt er frá bestu venjum.
Ef til vill er þörf á að setja upp gátlista sem kennari getur notað til viðmiðunar við skipulag og uppbyggingu kennsluvefs. Þar gætu komið fram vel valin skilyrði sem kennsluvefur þyrfti að uppfylla til að teljast boðlegur, hvar tilteknir hlutir séu best staðsettir á vefnum s.s. upptökur og dagatal námskeiðs, hvað þarf nauðsynlega að vera uppsett, við hvað skuli miða í uppbyggingu kennsluvefs o.fl.

Einnig er mögulegt að láta búa til og setja upp í Moodle tilbúin sniðmát fyrir kennsluvef þar sem nauðsynleg verkfæri eru þegar uppsett. Þar sem þarfir námskeiða eru ólíkar mætti hugsa sér tvö til þrjú sniðmát sem kennari gæti valið úr. Sniðmátin hefðu ákveðin grunnatriði sameiginleg t.d. hvar upptökur eru staðsettar, dagatal o.fl. Kennari gæti áfram sniðið og fínstillt kennsluvefinn út frá þörfum námskeiðs.

Æskilegt væri að kennarar þyrftu að ljúka grunnnámskeiði í Moodle áður en þeir byrja að nota kerfið eða að minnsta kosti að þeir hafi lokið slíku námskeiði innan tiltekins tíma, stuttu eftir að þeir hefja notkun á Moodle. Það væri til dæmis hægt að bjóða upp á slíkt námskeið í Moodle og setja upp þannig að kennari gæti unnið sjálfstætt og skilyrða aðgang að einstökum þáttum námskeiðs út frá framvindu kennara. Í framhaldi mætti bjóða upp á námskeið fyrir stærri og flóknari verkfæri í kerfinu og/eða fyrir lengra komna notendur. Kennurum gefst einnig kostur á að taka námskeið hjá Moodle partner fyrirtækjum. Þau námskeið eru stundum án endurgjalds en einnig er hægt að kaupa námskeið og jafnvel láta sníða að þörfum HÍ. Ekki er gefið að þessi námskeið noti sama sniðmát og notað er í HÍ-Moodle. Hlutir geta því litið örlítið öðruvísi út en í okkar kerfi og verið staðsettir á öðrum stöðum.

Leiðbeiningar um Moodle í Háskóla Íslands eru af skornum skammti. Leiðbeiningum er nauðsynlegt að halda við og uppfæra þegar breytingar verða á kerfinu. Fyrri leiðbeiningavefur hefur verið tekinn niður sökum þess að honum var ekki haldið við og efnið orðið úrelt. Leiðbeiningar í mýflugumynd eru nú inn í Moodle (undir Moodle-hjálp) en unnið er að gerð leiðbeiningavefs í Kennslumiðstöð.