Krossaspurningar (e. multiple choice items) eru án efa þekktasta fjölvalssniðið. Með þeim má mæla þekkingu (minni), skilning, beitingu og ýmiss konar túlkun og úrlausnarhæfni. Próftaki skrifar ekki orð, heldur merkir við rétt svar eða réttasta svarið við hverri spurningu. Aðrir svarmöguleikar teljast villusvör (e. distractors). Svarmöguleikar eru jafnan 3, 4 eða 5, stundum fleiri. Ekki er mælst til að svarmöguleikar feli í sér fleiri en eitt rétt svar, þ.e. ekki er æskilegt að próftaki eigi að merkja ýmist við einn, tvo eða fleiri svarmöguleika við sömu spurningunni. Dæmigerð krossaspurning samanstendur af stofni (e. stem) og svarmöguleikum (e. alternatives) þar sem einn svarmöguleikinn er réttur (réttasta svarið svo ekki verði um villst). Almennt er talið vandasamt að semja krossaspurningar svo þær gagnist til að meta þá hæfni sem til er ætlast. Þættir sem þarf að huga að eru orðalag, málskilningur próftaka og virkni allra svarmöguleika svo þeir teljist allir verðugir sem möguleg svör, að forðast óþarfa málalengingar (hnitmiðað orðalag), forðast vísbendingar sem gefa til kynna rétta svarið og einnig að forðast vísbendingar eða orðalag sem getur villt um fyrir nemendum. Dæmigerð framsetning á krossaspurningu með fjórum svarmöguleikum er þannig:

Stofninn í krossaspurningu er settur fram sem spurning, ófullkláruð fullyrðing eða „problem“ sem próftaki á að túlka og bregðast við; stundum með mynd, töflu, grafi o.s.frv. Svarmöguleika þarf að setja fram í dálki og eitt svar skal vera óyggjandi rétt, ekki önnur. En eðli málsins samkvæmt þarf stundum að árétta að merkja skuli við „réttasta svarið“.

a)   ( ) Villusvar

b)   ( ) Rétta/réttasta svarið*

c)   ( ) Villusvar

d)   ( ) Villusvar

Gæta þarf að því að allir svarmöguleikar séu í jöfnu samræmi við stofninn, ekki bara rétta (réttasta) svarið, t.d. hvað varðar einkenni, lengd og trúverðugleika sem rétt svör. Ekki mega leynast vísbendingar í spurningaforminu. Forðast þarf orðalag sem getur hjálpað nemendum að velja rétta svarið eða hafna röngu svari. Gera villusvör freistandi svarmöguleika. Forðast að nota svarmöguleikana „Allt ofanritað er rétt“ eða „Ekkert af þessu er rétt“. Hafa breytilega staðsetningu á rétta möguleikanum, nota helst handahófskennda aðferð. Stýra má erfiðleika spurningar hvort sem er með efni stofnsins eða svarmöguleikum. Gætt sé að stafsetningu og samræmi í greinarmerkjasetningu. Hafa hugfast að krossaspurningar hafa marga kosti, en einar og sér duga sjaldnast til að meta allt sem skiptir máli í námskeiði. Það er því ólíklegt að þær tryggi hátt réttmæti, þótt áreiðanleiki (stöðugleiki) sé að líkindum mikill. Hér eru nefnd fáein dæmi um framsetningu. Ef tengt er við lesefni á ensku eru hugtök birt í sviga á ensku.

 

A.      Dæmi um krossaspurningu sem reynir á beina þekkingu (minnisatriði):

Neðstu brún þerripappírs er dýpt í vatn. Í ljós kemur að vatnið les sig langa leið upp eftir þerripappírnum. Svipað gerist í rótarkerfi plöntu þegar vatn flyst með uppleystum næringarefnum upp eftir stofni hennar. Það sem þarna er að verki nefnist:

a)       ( ) osmótískur þrýstingur lausna (e. osmotic pressure of solutions)

b)      ( ) lögmálið um hárpípukraft (e. principle of capillary action)*

c)       ( ) himnuflæði (e. osmosis)

d)      ( ) flotkraftur (e. buoyant force)

 

 

 

B.      Dæmi um krossaspurningu sem reynir fyrst og fremst á skilning (getur reyndar átt við beina þekkingu – minnisatriði):

Brauð myglar nokkuð greiðlega við stofuhita. Það myglar ekki eins fljótt sé það geymt í ísskáp vegna þess að:

a)       ( ) kæling kemur í veg fyrir ofþornun brauðsins

b)      ( ) myrkur dregur úr myglumyndun

c)       ( ) kæling hægir á vexti sveppagróðurs*

d)      ( ) mygla þarfnast bæði varma og ljóss til að dafna

 

 

C.      Dæmi um krossaspurningu sem metur fyrst og fremst beitingu (nær reyndar einnig til þekkingar og/eða skilnings):

Skoðum tvö lítil talnasöfn.

Talnasafn A:  3  1  3  4  9  6  7  2    og    Talnasafn B:  3  1  5  10  8  7  1  2.

Hvað af eftirfarandi á við um þessi talnasöfn?

a)       ( ) Staðalfrávikið er lægra í safni A en B*

b)      ( ) Staðalfrávik beggja safnanna er það sama

c)       ( ) Meðaltalið er hærra í safni A

d)      ( ) Miðgildið er það sama í báðum

 

Krossaspurningar eru stundum hluti af svonefndum túlkunarverkefnum (e. interpretive exercises) í prófum. Þótt jafnan sé litið svo á að krossaspurningar henti best til að prófa bein minnisatriði þá gagnast þær prýðilega í samsettum prófverkefnum sem reyna á margbreytilega hæfni til að greina sundur, draga ályktanir, koma auga á samhengi, meta og rökstyðja eða túlka texta, myndir, gröf og fleira.

 

D.      Dæmi um krossaspurningu sem reynir á túlkun (ath. verkefni af þessu tagi bjóða upp á ýmsa fleiri útfærslumöguleika en krossaspurningar):

Skoðaðu myndina vel

Hún sýnir dreifingu (e. dispersion) tveggja aðskildra mælinga. Hvað af eftirfarandi á við um það sem myndin sýnir?

 

a)  (  ) Gröfin tvö, A og B, sýna mismunandi staðalfrávik en sama meðaltal*

b)  (  ) Gröfin tvö, A og B, sýna sama staðalfrávik en mismunandi meðaltöl

c)   (  ) Ekki er hægt að túlka neitt út frá myndinni af því öll tölugildi vantar

d)  (  ) Dreifingin sýnir í báðum tilvikum sama miðgildi, en ekki sama meðaltal

(Mynd fengin frá McMillan, 2008)

* Réttasta svarið

 

Höfundur

Meyvant Þórólfsson. (2018). Skrifleg próf á vef Kennslumiðstöðvar HÍ.

 

Heimild

McMillan, J. H. (2008). Educational research: Fundamentals for the consumer. Boston: Pearson.