Fjölvals- eða krossapróf eru vinsælt form námsmats en misjafnt er hvort þau eru eina spurnarformið í prófum eða hluti þeirra. Einn helsti kostur þeirra er hversu auðvelt er að fara yfir þau, en það má gera rafrænt á þar til gerðum prófablöðum sem Nemendaskrá sér um að skanna og lesa úr, eða þá að nemendur taka próf í námsumsjónakerfi (Moodle) eða prófakerfi (Inspera) þar sem niðurstaða getur legið fyrir strax að prófi loknu. Vandinn við fjölvalspróf er aftur á móti sá að það getur útheimt bæði tíma og þrautseygju að búa til fjölvalsspurningar. Meyvant Þórólfsson lektor á Menntvaísindasviði hefur tekið saman nokkrar upplýsingar um hvernig nálagst megi samningu fjölvalsprófa:

 • Spurningin (prófverkefnið) meti fyrirfram skilgreindan námsþátt (hæfniviðmið). Hefur með réttmæti að gera.
 • Orða þarf stofninn í fjölvalsspurningu það skýrt að meginefni hennar skiljist án þess að lesa svarmöguleikana. Þetta hefur með áreiðanleika að gera.
 • Mikilvægt að hafa hnitmiðað og skýrt orðalag í stofni fjölvalsspurningar til að forðast margræðni (ambiguity). Forðast skal orðaglamur. Þetta hefur með áreiðanleika að gera.
 • Ekki endurtaka sömu orð og orðasambönd í öllum svarmöguleikum, heldur setja það í eitt skipti fyrir öll í stofninn sem á við allt.
 • Ef nota þarf neitanir í stofni þarf að undirstrika þær eða setja í hástafi svo þær sjáist örugglega. Hefur með áreiðanleika að gera.
 • Ekki má orka tvímælis hvert er rétta svarið. En oft þarf að árétta að nemendur eigin að merkja við réttasta svarið í hverju prófverkefni.
 • Gæta þarf að því að allir svarmöguleikar séu í jöfnu samræmi við stofninn, ekki bara rétta (réttasta) svarið, t.d. hvað varðar einkenni, lengd o.s.frv. Ekki mega leynast vísbendingar í spurningaforminu. Hafa má breytilega lengd á réttu svörunum til að forðast vísbendingar.
 • Forðast ber orðalag sem hjálpar nemendum að velja rétta svarið eða hafna röngu svari. Gera villusvör (distracters) freistandi svarmöguleika.
 • Forðast að nota möguleikann „allt ofanritað er rétt“ því nóg er að sjá að tvö svör eru rétt eða að a.m.k. eitt er rangt. Sumir nemendur eru að flýta sér og sjá að fyrsti möguleikinn er réttur og merkja við hann, horfa svo ekki á hitt. Möguleikinn „Ekkert af þessu er rétt“ er varasamur. Hann er ekki staðfesting á hvort nemandi veit eða veit ekki.
 • Hafa breytilega staðsetningu á rétta möguleikanum. Nota handahófskennda aðferð. Stýra má erfiðleika spurningar hvort sem er með efni stofnsins eða svarmöguleikum.
 • Prófatriði standi sjálfstæð, innihaldi ekki upplýsingar sem nýtast í öðrum prófatriðum o.s.frv.
 • Framsetning prófatriða skiptir máli. Valmöguleikar séu í dálki. Skýrara fyrir nemendur, auðveldar yfirferð. Gætt sé að stafsetningu og greinarmerkjasetningu.
 • Hafa hugfast að fjölvalsspurningar einar og sér duga ekki til að meta allt sem skiptir máli. Það er því ólíklegt að þær tryggi hátt réttmæti, þótt áreiðanleiki (stöðugleiki) sé hugsanlega mikill.
 • BRJÓTA MÁ ALLAR FRAMANGREINDAR REGLUR TELJI PRÓFSEMJANDI ÞESS ÞÖRF OG EF KUNNÁTTA OG AÐSTÆÐUR LEYFA ÞAÐ!

Heimildir:

Meyvant Þórólfsson. (2011). Um samningu prófa. Námskeið Kennslumiðstöðvar Háskóla Íslands, nóv. 2011.

Gronlund, N.E. og Waugh, C.K. (2009). Assessment of student achievement (9. útgáfa). Upper Saddle River: Pearson.

Haladyna, T.M, Downing, S.M & Rodriguez, M.C. (2002). A review of multiple-choice item-writing guidelines for classroom assessment. Applied Measurement in Education, 15(3), 309-334. Finnst sem pdf-skjal á Netinu.

Nitko, A.J. (2001). Educational assessment of students. New Jersey: Merrill Prentice Hall.

Miller, M.D., Linn, R.L. og Gronlund, N.E. (2008). Measurement and assessment in teaching (10. útgáfa). Upper Saddle River: Merrill/Pearson.