Einkunnir og námsvenjur

Hvað stendur að baki einkunn? Eru til einkunnaskalar sem farið er eftir í deild eða á fræðasviði? Liggja matskvarðar til grundvallar einkunn og ef svo, hvernig líta þeir út? Það hjálpar nemendum að bæta sig ef þeir vita hvað stendur að baki einkunn – vita hvað þeir gerðu ekki og hvað þeir gerðu vel. Það auðveldar einnig kennara að hafa viðmið í höndunum þegar hann fer yfir verkefni, t.d. matskvarða eða viðmiðunarskýrslur. Það eru góðir starfshættir að nemendur hafi aðgang að slíkum matskvörðum og einkunnaskölum í náminu og ýtir undir djúpnám – meiri tileinkun í námi og veitir nemendum meiri hlutdeild í námi sínu (Biggs, 1999).

Hvernig einkunnir fá nemendur? Er einkunnaskalinn á bilinu 1-10, A-D eða staðið/fallið. Þessi umræða er í nokkrum samhljóm við það sem hér er á undan farið um mikilvægi þess að nemendur viti hvað standi að baki einkunna, hafi aðgang að einkunnakvörðum og matskvörðum svo dæmi séu nefnd.

Kennarar búa oft yfir góðum ráðum varðandi námsvenjur í námskeiði sínu og gott er að segja nemendum af því, t.d. hvað hefur reynst öðrum nemendum vel í þessu námskeiði? Hjálmtýr Hafsteinsson prófessor í tölvunarverkfræði við Háskóla Íslands notar leið sem hann kallar flöskuskeyti. Flöskuskeytið virkar þannig að undir lok námskeiðs biður hann nemendur um að senda væntanlegum nemendum námskeiðs skilaboð um það sem þeir hefðu viljað vita þegar þeir hófu nám í námskeiðinu. Hjálmtýr velur hjálpleg skilaboð frá nemendum setur þau (eitt í senn eða öll fyrst og svo eitt og eitt aftur) á fyrstu glæru í hverjum fyrirlestri þegar hann kennir námskeiðið næst. Það eru þá skilaboð um góðar námsvenjur í námskeiðinu frá fyrri nemendum til þeirra er sitja námskeiðið í það skiptið. Nöfn fyrri nemenda standa undir skilaboðunum. Þetta hefur gefið góða raun og nemendur, bæði þeir sem gefa góðu ráðin og þeir sem þiggja þau, eru afar ánægðir með flöskuskeytin og þeir sem sitja námskeiðið núna geta ekki beðið eftir að fá að senda sín eigin flöskuskeyti að sögn Hjálmtýs.

Það er því vert að velta því fyrir sér hvernig við sem kennarar styðjum við góðar námsvenjur í námskeiðum okkar? Hér getur ýmislegt komið upp sem okkur finnst kannski augljóst en er það e.t.v. ekki fyrir nemendur – sérstaklega ekki þá sem eru á 1. ári. Góðar námsvenjur geta t.d. verið þær að lesa fyrir tímana eða eftir þá, glósa, mynda leshóp nemenda, skoða aðrar bækur en námsbókina til að fá önnur sjónarhorn, ljúka heimavinnunni, spyrja spurninga, benda nemendum á að hver kafli í kennslubókinni byggi á þeim næsta á undan og því sé nauðsynlegt að ná öllu strax – ekki þýði að missa innan úr og ætla að ná því upp síðar. Munum að mikilvægt er að mynda umhverfi þar sem nemendur finna sig trygga til að spyrja spurninga – traust þarf að ríkja.

Heimildir

Biggs, John. (2003). Teaching for Qualiti Learning at University. The Society for Research into Higher Education & Open University Press: Suffolk.

Leave a Reply

Your email address will not be published. Required fields are marked *