Fyrirlestur

fyrirlestur

Fyrirlestur er án efa sú kennsluaðferð sem flestir tengja háskólastiginu enda beitt þar ómælt. Kennslumiðstöðvarfólki hefur stundum verið gerð upp sú skoðun að vera andstæðingar fyrirlestrarhalds en því fer víðs fjarri. Fyrirlestrar eru ágætis kennsluaðferð sé þeim beitt af kunnáttu og leikni og þegar við á – í hófi.

Kostir fyrirlestra sem kennsluaðferðar eru fjölmargir; Með þeim er hægt að koma sérhæfðri þekkingu til fjölda áheyrenda, vekja áhuga á viðfangsefni, útskýra það sem illskiljanlegt er, draga saman meginniðurstöður o.s.fr.v. Gallar kennsluaðferðarinnar eru hins vegar þeir hve fáir hafa góð tök á aðferðinni, beita henni t.d. nær eingöngu og án þess að brjóta upp fyrirlestrana, og svo hversu óvirkir nemendur eru undir flutningi fyrirlestra.

Í Kennslumiðstöð er að finna fræðsluefni og hagnýtar handbækur um fyrirlestra sem gefa góð ráð um hvernig eigi að undirbúa og skrifa fyrirlestra og hvers þurfi helst að gæta við flutning þeirra. Áhugavert rit um fyrirlestra er bók Donald Bligh (1998) What’s the use of lectures þar sem fjallað er um allar mögulegar hliðar fyrirlestursins. Þar er m.a. að finna ýmis línurit yfir athygli nemenda í fyrirlestrum, hjartslátt þeirra og leikni sem eiga það öll sameiginlegt að liggja að lokum norður og niður ef ekkert er gert til að auka virkni nemenda á meðan á fyrirlestrum stendur. Samkvæmt rannsóknum Bligh virðist býsna algengt að fyrirlesarinn sjálfur eflist við hverja glæru á meðan nemendahópurinn missir smám saman ráð og rænu. Fyrir kennara sem vilja halda sig við fyrirlesturinn en jafnframt hafa nemendur með á nótunum eru til ýmis hagnýt ráð sem miða öll að því að gera nemendur að virkari þátttakendum í kennslustundinni.

Í upphafi fyrirlesturs

Ágæt leið til að byrja fyrirlestur er að varpa fram spurningu til nemenda og fá fram hugmyndir þeirra um viðfangsefnið, t.d. ,,Hver eru helstu einkenni sykursýki?“ eða ,,Hvað vitið þið nú þegar um sykursýki?“ Þannig má bæði ná athygli nemenda og kanna hvaða þekkingu þeir búa þegar yfir um viðfangsefnið. Kennari getur þá unnið út frá upplýsingunum og höfðað til fyrri þekkingar nemenda í fyrirlestri sínum.

Á meðan á fyrirlestri stendur

Að spyrja spurninga í fyrirlestrum (og gefa nemendum tíma til að svara þeim) gefur nemendum tækifæri til að vinna með og hugsa um viðfangsefnið og fyrirlesara tækifæri til að sjá hvort nemendur hafa náð tökum á því. Í stórum fyrirlestrasal er ekki auðvelt að skapa þannig andrúmsloft að nemendum finnist sjálfsagt að spyrja og svara. Til eru ótal leiðir til að fá nemendur til að glíma við spurningar og sú sem einna mest er notuð er aðferðin ,,Einn – tveir – allir“ ( e. One – pair – share). Þá er spurningu eða smáverkefni varpað til nemendahópsins og hverjum nemenda gefinn smá tími til að glíma við verkefnið/spurninguna, t.d. ,,Veltið nú fyrir ykkur hvað einkennir góðan fyrirlestur og skrifið niður hjá ykkur örfá atriði um það hvert fyrir sig“. Þá eru nemendur beðnir um að snúa sér að næsta manni og þeim gefinn tími til að bera saman bækur sínar. Að lokum biður kennari nemendahópinn um að deila niðurstöðum. Niðurstöður má gjarnan punkta á töflu eða á glæru. Ef hópurinn er mjög stór má taka ,,stikkprufur” og spyrja nokkra hópa um niðurstöður þeirra.

Einnig má nýta upplýsingatækni eins og Socrative.com til að fá endurgjöf frá nemendum, en Socrative er kennslustofa á netinu sem kennari setur upp og leggur þar t.d. próf eða spurningar fyrir nemendur. Nemendur skrá sig inn í kennslustofuna og veita endurgjöf eða taka próf. Með þessum hætti getur kennarinn fylgst með því hvernig nemendum gengur að metaka námsefnið og getur hagað stuðningi sínum eftir því.

Í lok fyrirlesturs

Til að kanna hversu vel hefur tekist til í tímanum er t.d. hægt að nota „Einnar-mínútu skrif“. Nemendur eru þá beðnir um að taka sér eina mínútu í að hugleiða efni tímans og skrifa niður það sem þeir telja vera meginatriðin sem komu fram og setja fram þær spurningar sem þeir sitja uppi með í lok umfjöllunar. „Einnar mínútu ritgerðunum“ er skilað til kennara sem þannig fær innsýn inn í hvernig (og hvort) nemendur áttuðu sig á meginatriðum og jafnframt spurningar sem nýta má til umfjöllunar og áréttingar í næsta fyrirlestri. Einnig má nota námsumsjónakerfi Uglu eða Moodle til endurgjafar nemenda, svo og önnur tól og tæki á netinu s.s. Socrative.com sem áður er minnst á.

Heimildir

Bligh, D. (1998). What’s the use of lectures. San Francisco : Jossey-Bass Publishers.