Tímaáætlun námskeiðs

Nátengt vinnuálagi er tímaáætlun námskeiðs því að til að nemendur hafi tök á því að vinna vel að námi sínu þurfa þeir að geta skipulagt sig. Fullt nám á misseri er 30 einingar og sé farið að reglum Bologna um vinnuálag fara í það samanlagt um 750-900 klst. á misseri fyrir meðalnemanda, þ.e. 58-69 klst. á viku sé miðað við 13 vikna misseri, 50-60 klst. á viku miðað við 15 vikna misseri og 41-50 klst. sé miðað við 18 vikna misseri.

Sumar deildir og kennarahópar innan Háskóla Íslands hafa það sem reglu að funda um kennsluáætlanir og finna þannig út hvernig hægt er að dreifa vinnuálagi sem best á misserin. Þetta er gott vinnulag og hefur gagnast bæði nemendum og kennurum vel. Tilhneiging er til að fara hægt af stað og auka vinnálagið eftir því sem líður á misserið.