Hæfniviðmið (lærdómsviðmið)

Hvað eru hæfniviðmið?

Til eru tvær gerðir hæfniviðmiða, lokaviðmið námsleiða og hæfniviðmið námskeiða. Við ritun hæfniviðmiða er sjónum beint að námi nemenda og hvaða þekkingu, leikni og hæfni þeir  búa yfir að námskeiði eða námi loknu. Hér er nemandinn í brennidepli, sjónarhorninu hefur verið snúið frá því að horfa á hvað kennarinn kennir yfir í það að horfa á hvað nemandinn lærir. Í kennslufræðum er talað um að farið sé frá kennaramiðuðu sjónarhorni til nemenda- eða námsmiðaðs sjónarhorns.

Hér til hliðar eru leiðbeiningar um gerð hæfniviðmiða fyrir námskeið og lokaviðmiða fyrir námsleiðir. Einnig nauðsynleg hjálpartæki og nokkur dæmi um mælanleg hæfniviðmið.

Bolognaferlið

Hæfniviðmið (lærdómsviðmið) og setning þeirra er hluti af Bolognaferlinu. Markmið þess ferlis er að skapa samevrópskt háskólasvæði og auðvelda hreyfanleika nemenda og kennara á milli landa. Þannig ætti nemandi sem lýkur prófi frá HÍ að eiga auðvelt með að fá sitt nám viðurkennt við aðra háskóla eða á vinnumörkuðum.

Til að gera háskólanám betur samanburðarhæft hafa þátttökulöndin komið sér saman um að samræma námstíma (grunnnám þrjú ár, meistaranám tvö ár og doktorsnám þrjú ár), nota viðmið sem endurspegla námstíma nemenda (ECTS einingar), gera prófskírteini aðgengilegri eða læsilegri með stöðlum um viðauka (e. Diploma Supplement) og lýsa námi nemenda með hæfniviðmiðum (e. learning outcomes). Þá hafa ríkin skuldbundið sig til að taka upp skilvirkt innra eftirlit og mat á námi.

Hérlendis var innleiðing hæfniviðmiða tengd þeirri viðurkenningu háskóla sem farið var fram á með nýjum lögum um háskóla nr. 63/2006. Háskólum var þannig gert að semja hæfniviðmið og birta lýsingar fyrir hverja námsleið sem byggðu á þessum viðmiðum. Í samræmi við 5. gr. laga nr. 63/2006 um háskóla gaf menntamálaráðherra út Viðmið um æðri menntun og prófgráður. Viðmiðin eru kerfisbundin lýsing á uppbyggingu náms og prófgráða á háskólastigi og taka sérstaklega til þekkingar, leikni og hæfni nemenda við námslok.

Árið 2011 voru gefin út endurskoðuð Viðmið um æðri menntun og prófgráður.