Eins og ætla má reyna hlutlæg prófatriði ekki mikið á þann sem fer yfir prófið. Þau eru í eðli sínu einföld og „tær“ í sniðum og yfirferð felur í sér aflestur fremur en eiginlegt mat. Hlutlæg prófatriði, t.d. krossaspurningar, nýtast vel í yfirgripsmiklum lokaprófum þar sem ná þarf til margra svipaðra hæfniviðmiða á stuttum tíma. Vönduð hlutlæg prófverkefni ættu að tryggja þokkalegan áreiðanleika og fljótlegt er að fara yfir úrlausnir, en á hinn bóginn getur verið snúið að semja vönduð og viðeigandi prófatriði af þessu tagi. Þau þarf að tengja vel við hæfniviðmið (e. learning outcomes) viðkomandi námskeiðs, forðast vísbendingar í fyrirmælum og tvíræðni í orðalagi.

Hafa þarf hugfast að hlutlæg prófatriði ein og sér duga sjaldnast til að meta allt sem skiptir máli í tilteknu námskeiði. Þótt þeim fylgi jafnan meiri áreiðanleiki (stöðugleiki í mati) þurfa huglæg prófatriði oftast að fylgja eða annað huglægt mat til að tryggja hærra réttmæti. Gæta þarf að því hvað er metið í hverju atriði (þekking, minni, kunnátta, skilningur, beiting o.s.frv.) og hvernig það tengist markmiðum og hæfniviðmiðum viðkomandi námskeiðs. Til hlutlægra prófatriða heyra krossaspurningar, rétt/rangt spurningar (S/Ó), pörunarspurningar, eyðufyllingar og sum túlkunaratriði.

Próffræðingar hafa bent á ýmis tæknileg atriði við gerð hlutlægra prófatriða auk þess að meta áræðanleika og réttmæti, t.d. að reikna þyngdarstig og greiningarhæfi einstakra prófatriða, að meta að hvaða marki próftaki gæti hagnast á því að giska á rétt svör og hvernig má taka mið af fjölda réttra svara, rangra svara og auðra svara (sleppt) til að leiðrétta útreikning einkunna. Þessi atriði eru stuttlega reifuð á öðrum stað.

Höfundur

Meyvant Þórólfsson, 2018, Skrifleg próf á vef Kennslumiðstöðvar HÍ