Það eru jákvæðir og neikvæðir þættir við flesta hluti. Neikvæðir þættir munnlegra prófa eru t.d. eftirfarandi:

  • Kvíði: Á meðan hæfileg spenna getur skerpt hugsun nemenda veldur of mikil spenna jafnvel kvíða sem hamlar nemendum í munnlegum prófum. Til að koma til móts við slíka nemendur er gott að æfa munnleg próf þannig að þau séu þeim ekki framandi og þeir geti verið búnir að undirbúa sig. Í sumum tilfellum þarf að bjóða nemendum aðra valkosti í námsmati.
  • Heyrn og málerfiðleikar. Gera þarf ráðstafanir vegna nemenda með heyrnar- eða málerfiðleika í munnlegum prófum.
  • Tími: Munnleg próf geta tekið tíma og á það sérstaklega við í stórum hópum. Aftur á móti geta þau einnig sparað tíma vegna þess hversu stuttan tíma þau taka, bæði prófið sjálft og einkunnagjöfin.
  • Vöntun á nafnleysi: Prófdómari veit hvern hann er að prófa og ekki er hægt að gæta nafnleysis.
  • Mismunun á grunni kyns, félagslegrar stöðu eða akademísks bakgrunns getur átt sér stað.
  • Nýjung: Nemendur þekkja ekki endilega þetta form námsmats og því er mikilvægt að kynna þeim það fyrirfram.
  • Upptökur: Erfitt getur verið að taka upp og geyma upptökur af munnlegum prófum, en þess er krafist sums staðar.
  • Mælska vs þekking: Prófdómarar geta ruglast á mælsku nemenda og þekkingu og þannig talið nemanda vel að sér í fræðum þó að hann sé það ekki og beiti einungis mælskulist sinni.