Túlkunarverkefni

Túlkunarverkefni (interpretive exercises) hafa margvíslega kosti, t.d. þann að með þeim má meta margþætt hæfni og viðfangsefnin má tengja sæmilega vel við raunhæfar aðstæður. En veikleikareru helst að textar og skýringarmyndir verða stundum í lengra/flóknara lagi og geta því orðið ógn við áreiðanleikann. Auk þess þarf að hafa í huga að slík viðfangsefni verða ævinlega „eftirlíking“ af veruleikanum þótt þeim sé ætlað að líkja sem best eftir honum. Vitanlega væri ákjósanlegast að meta hæfni nemenda til að leysa og túlka viðfangsefni við raunverulegar aðstæður eins og gerist í daglegu lífi og starfi, en því verður sjaldnast við komið.

Túlkunarverkefni þykja virka vel þegar þau eru samsett og reyna á margbreytilega hæfni til að greina sundur, draga ályktanir, koma auga á samhengi, meta og rökstyðja eða túlka texta, myndir, gröf og fleira. Samning slíkra prófverkefna krefst yfirlegu og reynir töluvert á hæfni, úthald og útsjónarsemi prófsemjenda þar sem velja þarf viðeigandi efni sem nemendum er ætlað að túlka; Með túlkuninni þarf að sjást góð tenging við hæfniviðmið námskeiðsins. Um getur verið að ræða texta, t.d. klausu úr blaðagrein, myndir, myndasögur, auglýsingar, ljóð, gröf, kort, töflur og táknkerfi af ýmsu tagi. Skýr dæmi um túlkunarverkefni má finna í PISA-rannsókn OECD, sjá t.d. Menntamálastofnun (2015, bls. 100-124).