Ferilmappa við námsmat

Ferilmappa (e. portfolio) er ein af mörgum leiðum í námsmati. Ferilmappan krefst aðeins annarrar hugsunar en hin hefðbundna prófaleið og mikilvægt er að skoða  í upphafi í hvaða tilgangi hún er notuð. Ferilmappan er e.t.v. ekki einfaldasta námsmatstækið en kostir hennar eru margir, m.a. þeir að hún lýsir vinnu nemenda yfir ákveðið tímabil og getur sýnt hvernig nemendur þroskast í gegnum námið. Það er mikilvægt að nemendur átti sig á því  hvernig þeir læra og geta aflað sér þekkingar, ekki hvað síst eftir að háskólanámi sleppir og líf án skóla tekur við. ,,Svo lærir lengi sem lifir” er gamalt máltiltæki og á vel við hér þar sem áhersla er lögð á starfsþróun (e. life long learners), þ.e. að skólar undirbúa fólk undir starfsferil sem ekki er hægt að sjá fyrir um í dag og því er nauðsynlegt að hver og einn viti hvernig hann aflar sér þekkingar.

Hæfniviðmið

Byrja þarf á því að setja upp hæfniviðmið fyrir ferilmöppuna. Hvernig ætlar þú að nota hana? Viltu skoða hvernig nemandinn bætir sig yfir langt tímabil eða hvernig hann nær tökum á ákveðinni hæfni? Er mikilvægt að sjá hvernig vinna nemandans breytist yfir tímabilið eða viltu bara safna dæmum frá nemendum til að sýna kennsluna (sjá námsferlið sjálft)? Ferilmappan snýst um það hvernig gögnum þú hyggst safna og hvers vegna.

Námsmat

Þegar þú ert búin að taka ákvörðun um gögnin, þarftu að taka ákvörðun um matið. Hvernig hyggstu meta verkefni nemendanna, eða ætlar þú ekki að meta þau? Ef þú ert bara að safna dæmum um hvernig nemendur vinna í námskeiðinu þá er í rauninni óþarfi að meta ferilmöppuna. Ef þú hinsvegar ert að safna gögnum um það hvernig nemendur ná tökum á ákveðinni hæfni, þá þarftu að meta verkin.

Matskvarðar

Einfaldasta leiðin til að meta verkefni í ferilmöppum er að nota matskvarða (e. rubric): Lauk nemandinn verkinu á ásættanlegan hátt? Tæknilega, fer hann nógu djúpt í málið? Eru upplýsingarnar sem koma fram nægilegar? Þú velur hvaða atriði eru mikilvæg og setur upp á kvarða t.d. á skalanum einum og upp í fjóra eða núll upp í þrjá: 0 = Ófullnægjandi, 1 = Að einhverju leyti, 2 = Að mestu leyti, 3 = Fullkomlega.

Það er mjög mikilvægt að nemendur skilji til hvers á að nota ferilmöppuna. Þeir þurfa upplýsingar um það hvernig matið fer fram og hvernig einkunn er samsett.  Góð leið til þess er að láta nemendur fá gátlista um það hvað eigi að koma fram í verkefnunum sem eru í ferilmöppunni. Það er einnig mikilvægt að nemendur fái að hafa eitthvað um það að segja hvað fari í ferilmöppuna. Ein leið væri að þeir fengju að segja eitthvað um verkið, t.d. hvers vegna nemandinn valdi að setja verkefnið í ferilmöppuna? Er ferilmappan gott yfirlit yfir það sem fram fór á námskeiðinu? Þetta krefst þess að nemandinn hugsar um verkefnið sem hann setur í ferilmöppuna í stað þess að setja bara eitthvað til að ljúka námskeiðinu.

Ef þú vilt reyna að nota ferilmöppu í námsmati, byrjaðu þá smátt. Veldu eitthvað eitt og gerðu matskvarða, settu hæfniviðmið og útskýrðu fyrir nemendum hver tilgangurinn er með vinnunni. Hvettu nemendur til að vanda valið á verkefnum og skila góðri ferilmöppu. Með þessu geta nemendur og kennarar fengið ómetanleg gögn um nám nemanda.

Dæmi um ferilmöppu

Hér er er eitt dæmi um hvernig hægt er að gera ferilmöppu sem notuð er við námsmat. Eigandinn er Anna Kristín Halldórsdóttir og hún gerði þessa ferilmöppu á vormisseri 2019 í kennsluréttindanámi við Menntavísindasvið. Þetta er eingöngu hugsað sem dæmi og hægt er að gera þetta á fleiri vegu.

Hér er dæmi um hvernig hægt er að nota Portfolio og láta nemendur skila inn ákveðnum verkefnum:

Anna Kristín vormisseri 2019