Nemendaupptökur

Nemendur geta kynnt niðurstöður vinnu sinnar í upptökum og miðlað á Internetinu eða á námskeiðsvef í Canvas.

Kennari þarf að gefa skýran ramma varðandi tímalengd upptöku og hvað það er sem  hann vill að komi fram, ásamt því hvernig á að skila upptökunni.

Í Canvas Studio getur nemandi tekið upp, geymt og flokkað sínar upptökur. Einfalt er að deila upptöku úr Studio t.d. með kennara eða vista upptöku á námskeiðsvef. Leiðbeiningar um Canvas Studio

Dæmi um orðalag úr kennsluáætlun

Lýsing úr námsmati HMM120 þar sem farið er fram á nemendakynningu en gefinn kostur á að halda hana í staðnámi eða í upptöku.

Örkynning á niðurstöðum - kynning í tíma eða myndband

Með verkefninu þurfið þið að skila örkynningu (3-5 mínútur) þar sem þið fjallið um megin niðurstöður ykkar úr vefrýninni. Þið getið valið um eftirfarandi:

  1. Halda örkynningu í tíma 22. nóvember.
  2. Takið upp myndband, hlaðið því upp á YouTube eða Vimeo, og fellið inn (embed) á vefinn ykkar.

Þið hafið frjálsar hendur um hvernig þið vinnið kynninguna en hafið hugfast að koma kjarnanum úr niðurstöðu greiningarinnar skýrt á framfæri.

Dæmi um nemendaupptökur

Niðurstöður notendaprófunar á vef Háskóla Íslands vorið 2019 með framhaldsskólanemendum. Upptakan er gerð í Loom. Elísa Elíasdóttir.

 

Rafræn verkfæri

Til er mjög mikið af forritum sem hægt er að nota til að taka upp. Fer það eftir eðli kynningarinnar hvaða forrit eru hentugust hverju sinni. Hér fyrir neðan er einungis bent á tvö forrit sem hægt er að nota í ókeypis aðgangi og eru mjög góð. Það er þó um að gera að skoða fleiri forrit og velja það sem hentar verkefninu best.

Videoupptökur eru oftast frekar stór skjöl og því óhentug til að skila beint inn í námsumsjónarkerfi. Það er því mælt með því að upptökurnar séu settar inn á miðlunarþjón og vefslóðin að upptökunni sett inn í verkefnaskilahólf í Uglu, Moodle eða Canvas.

Hér er eingöngu minnst á einn miðlunarþjón en að sjálfsögðu má nota aðra slíka þjóna. Um að gera að tala um þetta við nemendahópinn en nemendur þekkja oft slíka þjóna vel og gætu komið með betri tillögu að stað til að hýsa upptökurnar.

Mælt er með að búa til verkefnaskilahólf í námsumsjónarkerfi námskeiðsins (Uglu, Moodle eða Canvas) þar sem nemendur geta sett inn vefslóðina fyrir upptökuna og geta skrifað athugasemd með.