Nemendakynningar

Rafrænar nemendakynningar geta verið hentug námsmatsaðferð.

Slíkar kynningar væru þá skipulagðar svipað og þegar þær eru í skólastofu. Eini munurinn er staðurinn, að þær fara fram á Internetinu með aðstoð forrita eins og til dæmis Zoom eða Calls í Teams.

Það sem þarf að passa vel upp á er skipulag, að dagskráin sé skýr og að nemendur fái hana fyrir kynninguna.

Hægt er að setja upp slíkar kynningar á mismunandi hátt alveg eins og í skólastofunni. Algengast að notað sé einhverskonar málstofuform. Nemandi eða nemendahópur fær þá til dæmis 10 mínútur í kynningu og á eftir eru 5 mínútur fyrir spurningar og umræður.

Fyrir málstofuna þarf kennari að vera búinn að setja niður heiti kynninga, nöfn nemenda, tímalengd og ákveða hvaða reglur gilda á kynningunni. Hann þarf auk þess að vera búinn að ákveða hvaða kerfi á að nota og láta nemendur vita hvernig hann boðar þá á málstofuna.

Ef nemendur hafa ekki notað kerfið áður þá er mælt með því að daginn fyrir málstofuna eða fyrr sama dag komi nemendur inn í kerfið á ákveðnum tíma, skoði gæði vefmyndavélar og hljóðs, geri prófanir á því og prófi að deila glærum, vafra eða öðru því sem þeir myndu vilja sýna á kynningunni.

Rafræn verkfæri

Hér eru upplýsingar um tvö forrit sem eru hentug fyrir rafrænar nemendakynningar í rauntíma á Internetinu. Háskóli Íslands veitir kennurum aðgang að og veitir stuðning við þessi forrit.

Að sjálfsögðu er hægt að nota einhver önnur forrit og fer það eftir þekkingu kennara, tillögum frá nemendahóp, eðli kynningar eða öðru.