Munnleg próf

Innan deilda HÍ ríkja mismunandi hefðir um munnleg próf. Í lagadeild eiga þau sér fastan sess en eru einnig víða notuð þótt í minna mæli sé. Í Reglum fyrir Háskóla Íslands nr. 569/2009 er kveðið á um að við munnleg próf skuli vera einn prófdómari utan háskólans. Að þessu skilyrði uppfylltu er hægt að halda munnleg próf rafrænt í Zoom, Teams.

Ekki er hægt að nota Inspera til myndspjalls en þar er haldið utan um nemendalista munnlegs prófs og kennari getur haft leiðandi spurningar tiltækar fyrir framan sig á skjá. Frekari leiðbeiningar um forritin er að finna hér til hliðar.

Ganga þarf úr skugga um að nemendur hafi fengið leiðbeiningar um hvernig nota á forritin áður en að prófi kemur.

Það eru margar ástæður fyrir því að nota munnleg próf, meðal annars vegna þess að þau mæla best sum hæfniviðmið, gefa tækifæri á að fara á dýptina í prófum, eru námstæki, auka á fjölbreytileika námsmats sem um leið höfðar þá til fleiri nemenda og krefjast þess að nemendur noti eigin orð og þekkingu.

Munnleg próf eru þó erfiðari fyrir vissan  hóp nemenda, svo sem heyrnarlausra og kvíðna nemendur, og þarf að taka tillit til þeirra.

Helstu kostir

Það eru margar ástæður fyrir því að nota munnleg próf í námsmati, þau:

  • Eru besta leiðin til að meta hæfniviðmið sem krefjast þess að nemendur yfirfæri þekkingu sína yfir á nýjar aðstæður, en einnig til að meta faglegheit og sjálfsöryggi nemenda í faginu.
  • Gefa tækifæri á meiri dýpt í spurningum þar sem pófdómari getur spurt nemendur í þaula út í námsefnið og þannig fengið fram heildarskilning þeirra á efninu.
  • Endurspegla yfirleitt fagið betur þar sem samskipti eiga sér stað munnlega fremur en skriflega. Þetta á t.a.m. við um lög, hjúkrun og kennslu svo fátt eitt sé nefnt. Mikilvægt er að nemendur geti tjáð sig faglega um fagið sitt.
  • Eru námstækifæri þar sem nemendur undirbúa sig betur fyrir prófin meðal annars vegna þess að erfitt er að spá fyrir um hvernig þeir verða spurðir, þeim finnst erfitt að standa á gati þegar þeir þurfa að sýna fram á heildarskilning á námsefninu.
  • Henta sumum nemendum betur. Nemendur eru mismunandi og sumir eiga auðveldara með að tjá sig munnlega en skriflega. Gott er að hafa námsmat sem fjölbreyttast til að koma til móts við fjölbreyttan nemendahóp.
  • Gefa möguleika á því að umorða óljósar spurningar þannig að nemendur skilji þær.
  • Krefjast þess að nemendur noti eigin orð og skilning. Frammistaða nemenda á munnlegu prófi er því 100% þeirra.

Heimild

Byggt á bæklingi um munnleg próf frá Leeds metropolitan University: Joughin, G. (2010). A short guide to oral assessment.  Leeds metropolitan University: University of Wollongong. Aðgengilegt á neti: A short guide to oral assessment

Helstu gallar

Rafræn verkfæri

Munnleg próf er hægt að halda rafrænt á neti í gegnum forritin Zoom og Calls í Teams. Frekari upplýsingar um þau forrit er að finna hér neðar.