Skipulag heimaprófa

Heimapróf eru próf sem nemendur taka heima hjá sér eða í umhverfi sem þeir velja og eru góð í þeim skilningi, auk þess sem nemendur geta jafnvel valið um það sjálfir á hvaða tíma þeir taka þau. Heimapróf eru að öðru leyti eins og önnur próf og því gildir flest það sem á við um próf almennt um þau. Hér eru nokkrar algengar bollaleggingar varðandi heimapróf:

  • Undirbúningur: Gott er að leiðbeina nemendum með hvernig þeir eigi að undirbúa sig undir heimapróf. Segja þeim hvers þeir megi vænta og hafa á hreinu hver hjálpartækin eru, hversu langan tíma það varir og hvort nemendur mega vinna prófið saman.
  • Hvernig próf henta í  heimaprófum? Flest prófaform henta í heimaprófum, fjölvalspróf, opnar spurningar – ritgerðir, o.fl.
  • Ritgerðaspurningar: Gott er að biðja nemendur um ,,að leggja mat á”, ,,bera saman”, ,,álykta”, eða eitthvað álíka fremur en að bera upp þekkingarspurningar sem auðvelt er að ,,googla” eða bera sig saman við aðra um svör við. Það er ágætt að skoða þekkingarpýramíta Bloom í þessu sambandi til að sjá hvernig nýta má sagnir til að lýsa því sem nemendur eiga að svara á prófi, sjá nánar: Bæklingur um hæfniviðmið.
  • Tímalengd: Hvenær opið, stutt – langt? Reglan er að hafa fjölvalsheimapróf sem nemendur eiga að vinna einir í frekar knappan tíma því að þá geftst síður tækifæri á því að nemendur beri saman svör sín. Ef spurningar eru uppbyggðar þannig að nemendur ,,leggi eigið mat á” eða álíka, líkt og bent er á hér að ofan, er ekkert því til fyrirstöðu að hafa prófið jafnvel opið lengi þannig að nemendur geti valið sér tíma til að taka það, en hafi þó aðeins til þess ákveðinn tíma, þ.e. frá því að þeir opna prófið.
  • Aðstoð? Geta nemendur unnið heimaprófin saman eða eru þetta einstaklingspróf? Kennarar þurfa að ákveða hvað er leyfilegt. Sumir kennarar fagna samvinnu nemenda en vilja fá sjálfstæð svör frá þeim á meðan aðrir vilja að nemendur vinni prófin einir og sjálfir.
  • Hjálpartæki? Eru hjálpartæki leyfð, bækur, reiknivélar, netið? Hvaða hjálpartæki eru leyfð þarf að liggja fyrir þegar próf er kynnt nemendum – áður en þeir fara að undirbúa sig fyrir prófið.
  • Skil: Á hvaða formi skila nemendur heimaprófi? Senda þeir inn skrár eða taka prófið á netinu? Á upphafssíðu heimaprófa er að finna leiðir til rafrænna skila á neti. 

Mikilvægt er að undirbúa nemendur fyrir heimapróf því að nemendur eru ekki endilega vanir því prófaformi líkt og fram kemur hér að neðan í umsögnum nemenda um heimapróf. Til dæmis má aðstoða þá með því að hjálpa þeim að átta sig á því hvernig þeir undirbúa sig fyrir slík próf, skipuleggja svör, hafa aðgang að lesefni og merkja það jafnvel m.t.t. ákveðinna svara. Einnig má benda nemendum á að þeir geti lært heilmikið af því að hafa umræðuhóp til að undirbúa sig fyrir prófið.