Heimapróf

Í heimaprófum er hægt að leggja mat á flóknari hugarhæfni, vinna með raunhæf verkefni og tímamörk geta verið sveigjanleg.

Gott er að hafa í þegar við samningu prófspurninga að þær krefjist grundvallarskilnings á viðfangsefni námskeiðs. Til dæmis má biðja nemendur um að rökstyðja svör sín, fara fram á að svör vísi fyrst og fremst til námsefnis í námskeiði og úthluta ekki sömu spurningum til allra nemenda. Þá geta kennarar heimilað nemendum að nýta sér ýmis gögn við lausn heimaprófa og að vinna saman að úrlausnum.

Í heimaprófi er engin leið að koma í veg fyrir að nemendur taki til dæmis mynd af hverjum einasta skjá sem birtist þeim. Þá geta þeir líka haft aðra tölvu eða síma við hlið sér. Við núverandi aðstæður verður að stóla á traust og heiðarleika sem kennarar geta hnykkt á í skilaboðum sínum til nemenda. Benda má nemendum á að svör þeirra verði (kunni að verða) rýnd í Turnitin og einnig má útfæra yfirlýsingu um heiðarleika á margvíslegan hátt áður en próf hefst, við upphaf og lok þess.

Dæmi 1, við upphaf prófs:

Ég lýsi því hér með yfir að ég mun ekki leita utanaðkomandi aðstoðar við að svara prófverkefninu né afrita það með nokkrum hætti. Ég mun heldur ekki nota nein gögn, hvorki rafræn né prentuð, við að leysa prófverkefnið nema þau sem kennari hefur heimilað í þessu prófi.

Dæmi 2, við lok prófs:

Ég lýsi því hér með yfir að ég leitaði ekki utanaðkomandi aðstoðar við að svara prófverkefninu né afritaði ég það með nokkrum hætti. Ég notaði heldur ekki nein gögn, hvorki rafræn né prentuð, við að leysa prófverkefnið nema þau sem kennari hefur heimilað í þessu prófi.

Heimapróf má gera nemendum aðgengileg í gegnum Inspera, Canvas, Moodle, Uglu eða Turnitin Feedback Studio. Nemendur skila úrlausnum á sama máta.

Frekari umfjöllun um skipulag heimaprófa.

Rafræn verkfæri

Hér að neðan eru nokkrar leiðir sem hægt er að fara í rafrænum skilum á heimaprófum.