Endurskipulagning námsmats

1. Stjórnaðu væntingum

Veittu nemendum greinargóðar upplýsingar um breytt námsfyrirkomulag. Mikilvægt er að nemendur séu vel upplýstir um breytt fyrirkomulag og kröfur.


2. Endurskoðaðu kennsluáætlunina þína. 

Veltu fyrir þér eftirfarandi spurningum: Hvaða verkefnum eiga nemendur enn eftir að sinna? Er hægt að hafa þau óbreytt eða þarf að aðlaga þau rafrænu námi? Er hægt að hliðra til vægi námsmats þannig að þau verkefni sem nemendur hafa þegar leyst gildi meira en upphaflega var ráðgert? Er hægt að leggja fyrir nemendur smærri og fleiri verkefni á netinu í stað lokaprófs?


3. Hugaðu að hæfniviðmiðum námskeiðs.

Ef breyta þarf námsmati nær það mat enn til settra hæfniviðmiða? Hafðu hæfniviðmið í huga þegar leitað er nýrra leiða við að meta frammistöðu nemenda.


4. Hugaðu að stærð nemendahópsins. 

Ef nemendahópurinn er ekki stór er hægt að fara ýmsar leiðir í námsmati eins og að prófa munnlega í gegnum fjarfundabúnað og þá er nauðsynlegt að taka prófið upp. Einnig má  bjóða upp á rafræna umræðutíma.

Ef nemendahópurinn er hins vegar stór þarf að huga að nýjum leiðum eins og rafrænum heimaprófum eða annars konar námsmati.


5. Misferli í prófum og verkefnum

Það er flóknara að koma í veg fyrir svindl þegar að nemendur svara prófum heiman frá sér. Það er hægt að vinna gegn slíku með því að vera með próf þar sem gögn eru leyfð, nota lausnarleitarnám (e. problem based learning) og breyta prófspurningum þannig að þær kalli á gagnrýna hugsun og mat frekar en minni.

Þá er hægt að útfæra eftirfarandi heiðarleikayfirlýsingu að mismunandi verkefnum og láta nemendur skrifa undir:

„Ég lýsi því hér með yfir að ég hef ekki fengið neina utanaðkomandi aðstoð við að svara prófinu. Ég hef heldur ekki leitað upplýsinga um mögulega rétt svör við spurningunum á netinu eða í prentuðum gögnum, nema þeim sem kennari hefur leyft í þessu prófi.“

Loks er hægt að benda nemendum á að svör þeirra verði sett í Turnitin Feedback Studio til að skima eftir ritstuldi.