Inspera

Inspera er rafrænt prófakerfi Háskóla Íslands í lokaprófum. Kerfið var tekið til prufu á vormisseri 2018. Markmiðið er að allt prófahald við HÍ verði rafrænt og öllumkennurum skólans stendur til boða að byrja að nota Inspera á skólaárinu 2018-2019. En sjá má fyrir sér eftirtalda markhópa kennara í innleiðingarferlinu.

 1. Þeir sem notað hafa núverandi rafrænt prófakerfi HÍ en við blasir að því verður lokað á árinu 2019.
 2. Þeir sem notað hafa tölvutæk svarblöð. Inspera gerir skönnun óþarfa og yfirferð er unnin sjálfkrafa.
 3. Þeir sem hafa marga fjarnema. Úrlausnir allra nemenda birtast um leið og þær eru lagðar inn.

Inspera er vænlegur kostur fyrir rafarænt prófahald við Háskóla Íslands:

 • Inspera getur þjónað ólíkum þörfum ólíkra deilda HÍ, m.a. með tilliti til notkunar á efni frá þriðja aðila („3rd party software support“).
 • Inspera er alhliða prófakerfi sem býður upp á 20 mismunandi tegundir spurninga og hægt er að velja um hvort endurgjöf birtist stúdentum.
 • Nemendur geta notað eigin tölvur þegar þeir taka próf í Inspera. Nemendur geta ekki notað tölvurnar til samskipta. Hægt er að stýra aðgangi nemenda að þeim forritum sem þeir þurfa til að vinna að úrlausnum sínum.
 • Inspera hentar fyrir fjarpróf, allar úrlausnir skila sér inn strax til yfirferðar hjá kennara óháð því hvar próf er tekið.
 • Inspera getur haldið utan um verkefnaskil og próf af fjölbreyttu tagi. Hægt er að skipta yfirferð á milli margra kennara.
 • Hægt er að stilla hvort úrlausnir birtast undir nöfnum nemenda eða tilviljanakenndum númerum. Sömuleiðis er hægt, með forritun, að nota föst nemendanúmer HÍ sem auðkenni.
 • Hægt er að hafa röð spurninga fasta eða tilviljanakennda og sömuleiðis er hægt að hafa handahófskennda röð á svarliðum í krossaspurningum.
 • Hægt er að stilla hvort nemendur hafa aðgang að prófverkefni og úrlausn sinni að lokinni yfirferð.
 • Hægt er að búa til spurningabanka, t.d. léttan, meðal og þungan, og láta Inspera velja tiltekinn fjölda spurninga úr hverjum banka í eitt og sama prófið.
 • Hægt er, með forritun, að tengja Inspera við ritskimunarforrit (Turnitin, Urkund).
 • Unnið er að því að tengja Inspera og Uglu þannig að heiti námskeiða, nemenda og einkunnir flæði á milli kerfanna.

Við þennan lista er því að bæta að Inspera er umhugað að leysa prófavanda greina sem nota mikið af formúlum og teikningum. Formúluritill kerfisins þykir góður en gengið hefur verið skrefinu lengra og hægt er að tengja skanna við kerfið þannig að nemendur leysa það sem hægt er á tölvu en grípa til sérhannaðra skönnunarblaða og færa þar inn litaðar eða ólitaðar teikningar, formúlur og skýringarmyndir. Hvert blað sem skannað er tengist viðkomandi spurningu þannig að kennari hefur aðgang að öllum svörum með rafrænum hætti.

Háskóli Íslands væntir mikillar hagræðingar í prófahaldi með innleiðinu Inspera prófakerfisins fyrir (loka)próf, m.a.:

 • Prófverkefni verða almennt hvorki send á milli í tölvupósti né prentuð út.
 • Ljóssritun prófverkefna fellur niður.
 • Ekki þarf að senda prófgögn fram og til baka í prófstofur.
 • Fljótlegra verður fyrir prófverði að dreifa gögnum og safna þeim saman.
 • Prófúrlausnir verða kennurum aðgengilegar strax að loknu prófi, líka úr fjarprófum.
 • Úrlausnir verða fljótlesnari.
 • Sé úrlausn prentuð til yfirferðar fer minni pappír í það en fer í 16 síðna prófbók.

Guðmundur Hafsteinn Viðarsson (ghv hjá hi.is, s. 525 4312) er verkefnastjóri rafræns prófahalds við Háskóla Íslands.