Verkleg kennsla

Verkleg kennsla eða verklegar æfingar eru nauðsynlegar í mörgum greinum.

Í háskólakennslu er þá oft verið að æfa ákveðið verklag sem nemendur eiga að hafa á færi sínu þegar þeir hafa útskrifast.

Í bók sinni Litróf Kennsluaðferðanna (1999) kemur Ingvar Sigurgeirsson inn á það að engin ein kennsluaðferð er til fyrir verklega kennslu heldur er þar um að ræða fjölbreyttar aðferðir rétt eins og við aðra kennslu.

Aðferðir eins og t.d. stutta fyrirlestra, sýnikennslu, ýmsar vettvangsathuganir og ferðir, æfingar í og með umræðum, hlutverkaleiki og svo mætti lengi telja.

Í háskólakennslu er líklegt að tilgangurinn með verklegri kennslu sé fjórþættur:

  1. Að þjálfa nemendur í verklegum vinnubrögðum í sinni grein
  2. Efla og ýta undir skilning á vísindalegum vinnubrögðum
  3. Að þjálfa og búa nemendur undir að leysa ýmis vandamál sem upp geta komið á vettvangi greinarinnar
  4. Að rækta fagleg vinnubrögð með nemendum

Þegar verið er að skipuleggja verklega kennslu er mjög mikilvægt að hafa ákveðna þætti í huga.

Í fyrsta lagi verður þessi kennsla að tengjast við aðra námsþætti sem verið er að kenna. Fræðin verða að fylgja verklega þættinum og er mjög mikilvægt að þetta sé vel skýrt fyrir nemendum. Ein leið er t.d. að nota umræður til að tengja þessa þætti saman.

Í öðru lagi verður að hafa í huga að kennarinn er mjög sterk fyrirmynd og nemendur líta til hans sérstaklega í verklegum þáttum. Kennarinn þarf því að sýna og viðhafa góð vinnubrögð.