Stýrðar umræður

Stýrð umræða er kennsluaðferð sem fellur undir umræðu- og spurnaraðferðir. Markmiðið er að fá nemendur með í samtal um viðfangsefnið sem er til umfjöllunar, hvetja til rökræðna og skoðanaskipta. Þessi aðferð er góð til þess að fá fram mismunandi sjónarhorn og ræða viðfangsefni út frá ólíkum hliðum. Skvæmt Ingvari Sigurgeirssyni (1999) hentar aðferðin vel í allflestum námsgreinum og á ólíkum skólastigum. Einn aðal kosturinn við þessa kennsluaðferð er að nemendur þjálfast í rökræðum og samskiptum við annað fólk. 

Ferlinu er venjulega skipt upp í fjóra hluta:

  1. Í upphafi er athygli nemenda beint að viðfangsefninu og áhugi þeirra er vakin. Tilgangur umræðunnar á að vera öllum ljós og hvernig þær tengjast námsefninu. Oftast notast við opnar spurningar til að hefja umræðurnar, t.d. að spyrja nemendur um skoðanir á efninu, hvað þeim hafi fundist áhugavert o.s.frv.
  2. Í öðru lagi eru reglur og útskýringar, ekki þarf að dvelja lengi við þennan hluta ef nemendur eru vanir kennsluaðferðinni og framkvæmd hennar. Reglur geta verið að bannað sé að grípa fram í fyrir öðrum, að vera kurteis gagnvart skoðunum annarra, að einn yfirtaki ekki umræðuna og hleypi öðrum að o.s.fr.. Einnig er í þessu skrefi farið yfir nauðsynleg hugtök og kenningar sem verða til umfjöllunar.
  3. Þriðja skrefið er aðalmál umræðunnar. Sá sem leiðir umræðurnar varpar fram spurningum og fær fram skoðanaskipti frá nemendum um efnið. Nemendur eru hvattir til þess að útskýra mál sitt, velta ólíkum sjónarhornum fyrir sér, skoða orsakasambönd og afleiðingar, tengja umræðurnar við hugtök og kenningar en einnig við eigin reynslu. Hópaskipting skiptir miklu máli og þarf að vera rétt gerð, ef umræður eiga að heppnast vel. Sum málefni getur verið gott að ræða í stærri hópum, meðan stundum getur verið betra að skipta nemendum upp í smærri einingar.
  4. Stýrðu umræðunum er svo lokað með fjórða stiginu, sem er niðurlag. Þá er leitast við að taka niðurstöður hópsins saman og koma nemendum í skilning um hvernig umræðan tengist námi þeirra

Heimild:
Ingvar Sigurgeirsson. (1999). Litróf kennsluaðferðanna. Reykjavík: Æskan.