Sjö skref til að framkvæma púslaðferðina með nemendum

Ef þig langar til að nota púslaðferðina í kennslu þá er hér tillaga um hvernig þú getur gert það.

Um er að ræða sjö skref sem þú getur notað til að stýra innlögninni og framkvæmdinni.

1

Nemendum er skipt í 4-6 manna jafna hópa. Gæta þarf vel að því að hópurinn sé samansettur af ólíkum einstaklingum, ekki einsleitum.

2

Kennari skiptir námsefninu upp í jafnmarga hluta og hóparnir eru og deilir efninu niður á hópana, einn „námsefnisbút“ á hvern meðlim hópsins. Til grundvallar geta legið efnisþættir, greinar, efni á neti, o.s.frv.

3

Hver og einn nemandi í hóp ber ábyrgð á einum námsþætti og mun kenna hópnum sínum um hann. Hér vinna hópmeðlimir hver um sig og leitast við að dýpka þekkingu sína á efninu með því að lesa, finna efni á neti og tileinka sér efnið almennt. Einnig má hugsa sér að nemendur mæti undirbúnir fyrir þennan hluta og hafi þegar kynnt sér efnið. Gallinn við það getur verið að það mæti ekki allir í kennslustundina og því vanti í hópana.

4

Sérfræðingshópar – nemendur sem eru með sama námsefnið mynda nýjan hóp, sérfræðingshóp. Þeir ræða efnið, bera saman bækur sínar og komast að niðurstöðu um hvernig þeir ætli að miðla því til samnemenda sinna. Að því búnu fara þeir aftur í fyrri hópinn sinn.

5

Nemendur hverfa aftur til fyrri hópa og skiptast á að kenna hinum nemendunum efnið sem þeir eru ábyrgir fyrir. Aðrir nemendur í hópnum skrá hjá sér, spyrja spurninga og hlusta. Á meðan einn kennir læra hinir – þetta gengur hringinn.

6

Einstaklingspróf – að lokum taka nemendur próf úr öllu námsefninu. Þetta getur verið einfalt próf til að ganga úr skugga um að allir nemendur hafi náð námsefninu – mikilvægt er að kanna úr öllu námsefninu.

7

Nokkrar útgáfur eru til af púslaðferðinni og púslaðferð II (Robert Slavin, 1986) bætir við samkeppni á milli hópa með því að taka meðaltal af einkunnum hópmeðlima og gefa hópeinkunn auk einstaklingseinkunnar.