Púslaðferðin – skref fyrir skref:

  1. Nemendum er skipt í 4-6 manna jafna hópa. Gæta þarf vel að því að hópurinn sé samansettur af ólíkum einstaklingum, ekki einsleitum.
  2. Kennari skiptir námsefninu upp í jafnmarga hluta og hóparnir eru og deilir efninu niður á hópana, einn „námsefnisbút“ á hvern meðlim hópsins. Til grundvallar geta legið efnisþættir, greinar, efni á neti, o.s.frv.
  3. Hver og einn nemandi í hóp ber ábyrgð á einum námsþætti og mun kenna hópnum sínum um hann. Hér vinna hópmeðlimir hver um sig og leitast við að dýpka þekkingu sína á efninu með því að lesa, finna efni á neti og tileinka sér efnið almennt. Einnig má hugsa sér að nemendur mæti undirbúnir fyrir þennan hluta og hafi þegar kynnt sér efnið. Gallinn við það getur verið að það mæti ekki allir í kennslustundina og því vanti í hópana.
  4. Sérfræðingshópar – nemendur sem eru með sama námsefnið mynda nýjan hóp, sérfræðingshóp. Þeir ræða efnið, bera saman bækur sínar og komast að niðurstöðu um hvernig þeir ætli að miðla því til samnemenda sinna. Að því búnu fara þeir aftur í fyrri hópinn sinn.
  5. Nemendur hverfa aftur til fyrri hópa og skiptast á að kenna hinum nemendunum efnið sem þeir eru ábyrgir fyrir. Aðrir nemendur í hópnum skrá hjá sér, spyrja spurninga og hlusta. Á meðan einn kennir læra hinir – þetta gengur hringinn.
  6. Einstaklingspróf – að lokum taka nemendur próf úr öllu námsefninu. Þetta getur verið einfalt próf til að ganga úr skugga um að allir nemendur hafi náð námsefninu – mikilvægt er að kanna úr öllu námsefninu.
  7. Nokkrar útgáfur eru til af púslaðferðinni og púslaðferð II (Robert Slavin, 1986) bætir við samkeppni á milli hópa með því að taka meðaltal af einkunnum hópmeðlima og gefa hópeinkunn auk einstaklingseinkunnar.

Eftirfarandi myndband útskýrir púslaðferðina vel:

Bandaríski félagssálfræðingurinn Elliot Aronson er frumkvöðull púslaðferðarinnar. Hún var framlag hans inn í félagslegar aðstæður 8. áratugarins í Bandaríkjunum í kjölfar ákvörðunar um háskóla án aðgreiningar. Púslaðferðin var sett til höfuðs aðskilnaði, óvild og tortryggni og ætlað að sameina og hjálpa mismunandi hópum við að nálgast hver annan með því að vinna saman og kynnast. Viðbætur við púslaðferðina eru nokkrar en einungis ein tilgreind hér.

Samvinnunámsaðferðir líkt og púslaðferðin reynast vel við að virkja nemendur. Þar eru allir jafnir og framlag hvers og eins skiptir máli. Samvinnunámsaðferðir efla nemendur, auka áhuga þeirra á námsefninu, hjálpa til við djúpnám og efla samskiptahæfni (Azmin, 2015; Kaufman, Sutow og Dunn, 1997). Nemendur eru yfirleitt ánægðir með púslaðferðina í kennslu og finnst hún skemmtileg aðferð til náms og fagna því að vera virkir þátttakendur í kennslustundum (Azmin, 2015). Þó finnst sumum hún of krefjandi og eiga erfitt með að læra af samnemendum sínum (Carpenter, 2006; Kaufman, Sutow og Dunn, 1997), svo eru enn aðrir sem finnst gott hvað  hún er krefjandi og vilja reyna á sig (Azmin, 2015). Rannsóknir sýna að námslega skorar púslaðferðin best meðal annarra kennsluaðferða (Azmin, 2015) í stórum nemendahópi (ríflega 100 nemendur) (Carpenter, 2006). Þannig hækkaði einkunn nemenda sem notuðu aðferðina, umtalsvert umfram þá sem notuðu aðrar aðferðir við nám, s.s. fyrirlestur, fyrirlestur með umræðum, case study og hefðbundinni hópvinnu (Carpenter, 2006). Að auki hefur púslaðferðin samfélagslega bætandi áhrif á nemendahópinn, þ.e. byggir upp gott námssamfélag t.d. þar sem hún er notuð í bland við netnám (Tien-Chi Huang, Yueh-Min Huang og Fu-Yun Yu, 2011; Azmin, 2015). Þá hefur púslaðferð II nýst vel í tungumálakennslu (Gömleksi, 2006).

Nánar má lesa um púslaðferðina á heimasíðu hennar, The Jigsaw Classroom heimasíðunnihttps://www.jigsaw.org/ Góða samantekt á púslaðferðinni og samvinnunámsaðferðum er einnig að finna í grein Nur Hafizah Azmin frá 2015: http://files.eric.ed.gov/fulltext/EJ1086691.pdf

Heimildir

Carpenter, J. M. (2006). Effective Teaching Methods for Large Classes. Journal of Fayily & Consumer Sciences Education, Vol. 24, No. 2, Fall/Winter, 2006. Sótt á vef 1. nóv. 2017 á slóðin:  https://pdfs.semanticscholar.org/3361/95ecac89b5afa8b5ce3b3ffe4020ba4a9c81.pdf

Gömleksi, M. N. (2006). Effectiveness of cooperative learning (jigsaw II) method in teaching English as a foreign language to engineering students (Case of Firat University, Turkey). European Journal of Engineering Education, Vol. 32, No. 5, pg. 613-625. Sett á vefinn 3. Oct. 2007. http://www.tandfonline.com/doi/full/10.1080/03043790701433343?scroll=top&needAccess=true

Kaufman, D., Sutow, E. og Dunn, K. (2007). Three Approaches to Cooperative Learning in Higher Education. The Canadian Journal of Higher Education, Vol. XXVII, No. 2, 3, 1997, pg. 37-66. Sótt á vefinn 1. nóv. 2017 á slóðina: http://journals.sfu.ca/cjhe/index.php/cjhe/article/view/ 183303/183261

Tien-Chi Huang, Yueh-Min Huang og Fu-Yun Yu. (2011). Cooperative Weblog Learning in Higher Education: Its Facilitating Effedts on Social Interaction, Time Lang, and Cognitive Load. Journal of Educational & Society , Vol. 14, January 2011.