Púslaðferðin

Púsl

Púslaðferðin (The Jigsaw Method) er jafningjakennsluaðferð þar sem nemendur kenna hver öðrum og kennari styður við og mótar námsferlið. Nafn kennsluaðferðarinnar felst í því hvernig hún er uppsett, þ.e. nemendum er skipt í hópa og hverjum og einum úr hópnum er úthlutað efni sem hann kynnir sér – einn og sér. Hver nemandi myndar þannig eitt „púsl“ í stærra púsluspili. Nemendur fara síðan í sérfræðingahópa þar sem þeir hitta aðra nemendur sem hafa kynnt sér sama efni. Í sérfræðingahópnum ræða þeir aðalatriði efnisins og hvernig þeir vilja miðla því til annarra nemenda. Þá fara nemendur aftur í upprunalega hópinn sinn og kenna þeim hópi sitt sérfræðingsefni, einn tekur við af öðrum þar til allir í hópnum hafa skilað sínu og námsefninu hefur verið gerð góð skil úr „sérfræðipúslbitum“ þeirra sem í hópnum eru. Að lokum er einstaklingspróf eða annað námsmat sem hver og einn nemandi þarf að standa skil á.

Mikilvægt er að fara vel yfir ferlið í byrjun þannig að nemendur séu með á nótunum og viti til hvers er ætlast af þeim. Ágætt er að miða við að „eitt rennsli“ geti átt sér stað á einum degi. Ef það reynist erfitt má biðja nemendur um að koma undirbúna fyrir daginn með því að vera lesnir eða hafa að einhverju leyti kynnt sér efnið fyrirfram.