Námsmat í hópvinnu

Allar meginreglur um námsmat eiga við um námsmat í hópvinnu, þó felst e.t.v. eilítið meiri áskorun í mati á hópstarfi en einstaklingsmiðuðu námsmati: Í fyrsta lagi getur verið að kennarar vilji meta lokaafurð hópstarfsins, (s.s. hönnun, skýrslu, kynningu), hópstarfið sjálft (s.s. að standast skiladaga, sanngjarnt framlag allra í hópnum, samskipti, o.fl.) eða hvoru tveggja. Í öðru lagi þurfa nemendur að fá einkunn fyrir það sem þeir lögðu í hópstarfið, framlag þeirra, og það vekur spurningar um sanngirni og eignarhald. Til að flækja þetta enn frekar er hvorugur þessara þátta, hópstarfið eða einstaklingsframlagið, endilega sýnilegur í lokaafruð hópsins. Vandamálið hér er að finna leiðir til að þetta gangi, hér eru nokkur góð ráð:

Prófaðu einstaklinginn jafnframt hópnum, nám og kynning

Það getur haft neikvæð áhrif á hópstarfið ef samviskusamir nemendur telja að einkunn þeirra í hópstarfinu miðist ekki einungis við þeirra eigin vinnu, heldur einnig hinna sem minna leggja til verksins. Því er mikilvægt að meta vinnu hvers og eins innan hópsins, bæði framvindu vinnunnar og lokaverkefnið eða. Þetta hvetur alla nemendur til að standa sig vel, þeim finnst staðið að námsmati á sanngjarnan hátt og erfiðara verður að vera laumufarþegi, „free rider“.

Ýmsar leiðir eru til að meta einstaklinga í hópstarfi, t.d. með því að fella einstaklingsmat inn í hópvinnuna, s.s. með stuttri ritgerð, dagbókarfærslum eða prófi sem byggt er á hópverkefninu. Lokaeinkunnin fyrir hópastarfið endurspegla þannig bæði hópastarfið og einstaklingsvinnuna. Misjafnt er hversu mikið hvort um sig gildir, t.d. 50/50%, 80%50%. Í raun er engin regla um það hvernig einkunn í hópastarfi skiptist en hún þarf að endurspegla hæfniviðmiðin og ýta undir þá vinnu sem fram á að fara.

Dæmi:
Í námskeiði í mannfræði fær hópur nemenda það verkefni að taka fyrir frægar deildur innan fræðanna og kynna fyrir öðrum nemendum. Nemendur fá hópeinkunn fyrir kynninguna en þurfa að auki að skrifa stutta ritgerð um það hvað þeir lærðu af verkefninu og hvert framlag þeirra var til þess. Kennari áskilur sér rétt til að hækka eða lækka einstaka nemendur „um heilan“ fyrir góða eða slæma frammistöðu þeirra, byggða á ritgerðinni sem þeir skila og sýnir fram á skilning þeirra á efninu og framlag til hópvinnar. Nemendum er gerð grein fyrir þessu fyrirfram.

Prófaðu ferlið líkt og þú prófar lokaafurðina

Ef markmiðið með hópvinnunni er að þjálfa nemendur í hópstarfi og samvinnu, þarf að meta framlag þeirra, þ.e. meta ferli hópvinnunnar (hvernig nemendur vinna) ekki síður en lokaafurðina (verkefnið sem þeir vinna að).

Meta má ýmsa þætti hópstarfsins s.s. hæfni til að koma fram með hugmyndir, hlusta af virðingu á ólík sjónarhorn, deila verkefnum á sanngjarnan hátt, leysa ágreining og skilvirk samskipti. Kennarar eru ekki alltaf meðvitaðir um hvernig hópstarfið gengur og geta nýtt sér eftirfarandi leiðir til að komast að því:

  • Hópmat: Nemendur meta virkni hópsins í heild.
  • Jafningjamat: Nemendur meta framlag hópmeðlima sinna.
  • Sjálfsmat: Nemendur skrá og meta eigið framlag til hópsins.

Matið getur verið af ýmsu tagi, sem dagbókarskrif – ritgerðir, eða spurningalistar sem mæla samvinnu. Athugaðu hvað hentar ferlinu best og hvaða tímasetningar eru á matinu, um miðbik misseris, við lok þess eða hvoru tveggja. Einnig hver ætti að hafa aðgang að matinu, kennari, aðrir hópmeðlimir? og hvort matið eigi að vera nafnlaust eða ekki.

Hafðu í huga að matið er huglægt og nemendur eru e.t.v. ekki æfðir í að gera slíkt mat á samnemendum sínum eða sjálfum sér. Leggðu þeim til leikreglur og dæmi um hvernig orða má hlutina. Jafningja- og sjálfsmat veitir dýrmæta innsýn í hópvinnu, sýnir hvað gengur vel og hvað gengur miður vel, bendir á vandamál og hjálpar kennurum við að gefa lokaeinkunn og endurgjöf á hópstarfið.

Dæmi:
Námskeið byggist á hópvinnu nemenda. Reglulega meta nemendur hópsarfið sjálft og eigið framlag og eru jafnframt beðnir um að nefna leiðir til að bæta hvoru tveggja. Í lok misseris fer fram jafningjamat þar sem nemendur meta hvert framlag hvers og eins var til hópvinnunnar. Lokaeinkunn fyrir námskeiðið samanstendur af hópeinkunn (75%) og einstaklingseinkunn (25%). Einstaklingseinkunnin er byggð að jöfnum hluta á því hvernig samnemendur meta framlag hvers nemanda til hópvinnunnar og gæðum endurgjafarinnar sem nemandur gefur öðrum nemendum.

Skýrar verkefnalýsingar og mats- og einkunnakvarðar

Það er mikilvægt að hafa verkefnalýsingar skýrar svo að nemendur átti sig á því hvers til er ætlast af þeim. Þetta er ekki hvað síst mikilvægt þegar meta á leikni og hæfni sem ekki er algengt að meta s.s. hæfni til að leysa ágreining, dreifa verkefnum o.fl. Slá má tvær flugur í einu höggi með því láta nemendur hafa matskvarða í upphafi hópstarfsins, sem lýsa bæði ferli hópvinnunnar og lokaafurð og nota þannig matskvarðana til skilvirkrar endurgjafar á meðan á hópvinnu stendur og í lok hennar.

Mikilvægt er að átta sig á því fyrirfram hvaða vægi ýmsir þættir hópvinnunar hafi og láta nemendur vita af því. Gott er að hafa þessar spuringar í huga:

  • Hvert er hlutfall hóp- og einstaklingseinkunnar í lokaeinkunn?
  • Hvert er hlutfall lokaafurðar og ferlis hópstarfs í lokaeinkunn?
  • Hversu mikið gildir jafningja- eða sjálfsmat í lokaeinkunn?
  • Verður endurgjöf utanaðkomandi aðila hluti af lokaeinkunn og ef svo, hvernig endurgjöf er það? Dæmi: Endurgjöf á lokaafurð – virkar hún, er þetta góð hönnun/niðurstaða? Endurgjöf á hópferli – voru samskipti hópsins við „viðskiptavin“ góð? Stóðst hópurinn skiladaga?

Eins og sjá má af ofangreindu eru það ýmsir þættir í hópvinnu sem hægt er að meta til einkunnar. Mikilvægt er að kennarar hugsi þetta út frá  því hvaða virkni þeir vilja sjá hjá nemendum og hvernig námsmat og vægi námsþátta getur ýtt undir þá hegðun. Síðast en ekki síst er mikilvægt að nemendur fái skýrar leiðbeininingar um námsmatið, þ.m.t. hæfniviðmið, matskvarða, einkunnagjöf o.þ.h.