Hópvinna – skipulag

Hópvinna getur snúist upp í andhverfu sína ef ekki er hugað vel að því hvernig hún er skipulögð, stýrt og metin og því miður hafa of margir nemendur og kennarar reynslu af því.

Um hópvinnu gildir það sama og einstaklingsverkefni, hæfniviðmið þurfa að vera skýr, skýrar verkleiðbeiningar, væntingar kennara til verkefnis þurfa að vera ljósar og nemendur þurfa að fá leiðbeiningu um hvernig gott verkefni lítur út – t.d. með því að gefa þeim upp matskvarða sem notaður verður við að meta verkefnið og/eða hafa sýnishorn af góðum verkefnum.

Að auki bætir hópvinna við flóknari vinklum því að hér er um samvinnuferli að ræða. Gæta þarf þess að byggja einhverja einstaklingsvinnu inn í verkefnið til að nemendur finni að þeir séu metnir út frá þeirri vinnu sem þeir hafa sjálfir lagt í verkið ekki einungis samvinnu nemenda. Þetta skiptir einnig máli þegar um „bakpokaferðalanga“, „free riders“ getur verið að ræða. Einnig þarf að kenna nemendum til verka í hópvinnu, margir nemendur hafa slæma reynslu af henni og mikilvægt er að byggja upp gagnkvæmt traust og tengsl innan hópsins þannig að hver og einn hópmeðlima finni til ábyrgðar gagnvart hinum.