Rannsóknir á námi og námskenningar segja okkur að nemendur læri best með því að vinna sjálfir með hlutina og tengja þá við það sem þeir þekkja fyrir. Þess vegna er mikilvægt að hvetja nemendur til virkni í námi og byggja virkni þeirra inn í lærdómsferlið. Það sem er ekki síður mikilvægt er að nemendur viti af því hvers vegna við gerum þetta. Að við eigum samtal við þá um mikilvægi þessa, hvers vegna mikilvægt er fyrir þá að taka virkan þátt í námi sínu og kennum þeim að vinna samkvæmt því.
Hér fyrir neðan má finna allnokkrar aðferðir sem miða að því að auka virkni nemenda í námi almennt.
Lítil fyrirhöfn
,,Einn - tveir - allir", eða ,,think - pair - share" eins og það kallast á enska tungu er góð aðferð til að virkja nemendur. Kennari spyr spurningar og biður nemendur að ígrunda svar sitt í nokkra stund (einn). Að því loknu biður hann tvo og tvo um að ræða saman um niðurstöður sínar (tveir) og loks biður kennarinn nemendur um að deila niðurstöðum sínum með hópnum (allir). Ef um stóran hóp er að ræða má taka ,,stippprufur" - ekki þarf að spyrja alla hópana.
,,Einn - tveir - allir" er ein uppáhalds kennsluaðferðin okkar í Kennslumiðstöð af því að hún er svo einföld og virkar svo vel. Leyfið okkur að útskýra það nánar:
EINN: Það sem er svo gott við 1 - 2 - allir er að þar fá nemendur tíma til að ígrunda svar sitt (einn) því að erfitt er að hafa svar á reiðum höndum þegar umhugsunartíminn er stuttur. Rrannsóknir sýna að meðalbiðtími kennara eftir svari við spurningu sem varpað er út í nemendahópinn er 2,6 sek. Á þeim tíma getur fólk yfirleitt ekki munað neitt nema þá helst hver sé uppáhalds liturinn þeirra eða ef það hefur lært eitthvað utan að eins og páfagaukar.
TVEIR: Þegar nemendur spegla sig í öðrum (tveir) setja þeir hugsanir sínar í orð og vinna þannig með það og gera að sínu. Að auki eru þeir í samskiptum við samnemendur sína og mynda e.t.v. tengsl sem eru mikilvæg fyrir nám þeirra, áhuga og ástundun.
ALLIR: Að lokum deila nemendur sameiginlegum hugmyndum sínum með öllum nemendahópnum (allir) og það skapar bæði liðsanda og festir námsefnið betur. Auk þess fá hlédrægir nemendur tækifæri til að koma sínum hugmyndum á framfæri sem þeir hefuðu e.t.v. ekki annars gert ef þeir eiga erfitt með að tjá sig í hópi. Niðurstöður nemenda eru þá ekki eingöngu þeirra heldur einnig þess sem þeir ræddu við (tveir) og það gerir tjáningu mun léttari ef nemendur eru feimnir við að tjá skoðanir sínar.
Sérlega einföld og árangursrík aðferð til að auka virkni nemenda.
Einnar mínútu skrif í lok tíma gagnast vel til að fá nemendur til taka saman hver aðalatriði tímans voru eða hvað þeir vilja fá frekari útskýringar á. Þannig getur þetta að sum leyti virkað sem "gruggið" eða ,,samantekt í lok tíma" en þá frá hverjum nemanda fyrir sig.
Nemendur geta skrifað þetta fyrir sjálfa sig, látið inn á umræðuþráð námskeiðs eða skilað á rafrænu formi í socrative, kahoot, padlet eða einhverjum öðrum rafrænum miðli. Einnig má hugsa sér að safna saman í orðaský á meti.com (mentimeter.com) og fá þannig út aðalatriði tímans.
Þetta er einföld aðferð til að virkja nemendur.
Glósuhlé er gott að nota í öllum fyrirlestrum til að brjóta þá upp og fá nemendur til þess að bæði hlusta og vera virkir. Þetta er ekki hvað síst mikilvægt þegar fjallað er um lykilþætti í náminu sem nemendur þurfa að gera að sínum - setja í eigin orð og hafa skilning á.
Látið nemendur loka tölvum og hlusta á kennara í 10 mín. Gefið þeim á 5 mín. til að skrifa niður glósur um efnið. Hægt er síðan að láta þau bera sig saman við sessunaut til að þau vinni frekar með efnið.
Í lokin má biðja nemdndur um að skrifa niður það sem þeim fannst áhugaverðast og þeir lærðu best. Afar einföld leið til að auka virkni nemenda í námi.
Gruggið eða the muddiest point er leið til að komast að því hvað nemendum finnst erfiðast í námsefninu. Nemendur eru beðnir um að skrifa niður hvað þeim fannst erfiðast eða þeir skildu ekki í tímanum. Hér má nota rafræna miðla eins og socrative.com, padlet.com, kahoot.com, mentimeter.com eða námsumsjónavef námskeiðsins. Einnig má nýta sér gula miða sem nemendur líma þá við hlið dyranna um leið og þeir ganga út - eða þá safna saman í lok tímans.
Kennari fer yfir ,,miðana" eftir tímann og fjallar um þá í byrjun næsta tíma eða á námsumsjónavef.
Það kemur kennurum oft á óvart hvað það er sem nemendur eiga erfitt með að skilja og hversu margir nefna sama atriðið.
Þetta er einföld leið til að auka virkni nemenda.
Hefja tíma með innleggi nemenda. Kennari biður sjálfboðaliða að segja frá meginatriðum lesefnis dagsins í upphafi tíma, kennari bregst við og má nýta áfram til að biðja nemendur að velta fyrir sér hvernig beita á viðfangsefninu eða tengja það við eigin reynslu.
Einnig má hugsa sér að ,,sérfræðihópar" námsefnis skiptist á að fjalla um meginatriði námsefnisins. Þannig verða allir ábyrgir fyrir því að lesa og kynna sér námsefnið. T.d. má skipta hópunum upp eftir stafrófsröð.
Þetta er einföld leið til að virkja nemendur.
Fáið fjóra til fimm nemendur til að draga saman meginatriði kennslustundarinnar og koma til kennara og kennari getur svo deilt á námsumsjónafvef námskeiðs.
Einnig er hægt að hafa þetta sem hluta af námsmati (ef gert undir nafni) eða til að fylgjast með námi nemenda. Þetta er einföld leið til að auka virkni nemenda.
Kennari kemur upp spurningakassa - rafrænum eða í raunheimum, þar sem nemendur geta sett spurningar sínar varðandi námsefnið. Kennari gefur sér tíma í næstu kennslustund til að fjalla um spurningarnar sem hafa borist. Einnig má nota spurningarnar sem umræðugrundvöll í kennslustund.
Suðhópur eða buzz group á enska tungu, er samtalsaðferð sem gjarnan er beitt í kennslu og nýtist vel til að ná fram sjónarhornum nemenda í stórum hópum jafnt sem litlum.
Nemendur eru látnir ræða ákveðið umræðuefni, spurningu eða staðhæfingu og áréttað að allir eigi að tjá sig. Við þetta myndast einskonar ,,suð" (buzz) í kennslustofunni og nemendur þurfa jafnvel að færa sig nær hveröðrum til að heyra hvað hinir hafa að segja.
Þegar ,,suðið" minnkar er réttur tími til að stoppa umræðurnar og fá fram niðurstöður ef það er það sem við viljum gera. Ef við stoppum ekki ,,suðið" á þessum tíma er hætt við að önnur umræða (jafnvel óskyld) fari af stað og ,,suðið" hefjist aftur.
Einnig má hugas sér að segja fyrirfram hversu langan tíma nemendur eiga að ræða saman um efnið og fylgjast svo með og stoppa umræðuna ef hún fer á villigötur.
Í suðhóp náum við fram allskonar sjóarmiðum og hann getur því verið góður til að koma af stað frekari umræðu eða til að fá nemendur til að tala sig niður á niðurstöður.
Fjöldi þátttakenda er mismunandi, frá tveimur og upp í átta, klassískur suðhópur er þó fleiri en tveir - líkelga um sex manns.
Lítil áhætta felst í því að virkja nemendur fyrir tíma t.d. með spurningu eða hugleiðinug áður en tíminn hefst. Sumir kennarar biðja nemendur um að setja spurningar úr námsefninu inn á námsumsjónavef námskeiðsins áður en tíminn hefst. Þeir vinna svo að einhverju leyti með spurningarnar í tímanum, t.d. nota þær sem umræðugrundvöll fyrir nemendur.
Einföld og áhrifarík leið til að virkja nemendur í námi sínu.
Aðeins meiri fyrirhöfn
Fiskabúrsaðferðin gengur út á það að nemendur tjái skoðanir sínar varðandi eitthvað ákveðið umræðuefni og aðrir fylgjast með því hvaða rökum þeir beita og geta tekið þátt í umræðunni liggi þeim mikið á hjarta. Fiskabúrsaðferðin er skemmtileg aðferð sem kemur hreyfingu á umræðu og tengsl innan nemendahópsins.
Fjórum til átta stólum er raðað í hring, fiskabúr, og nemendur valdir til að setjast á þá. Nemendurnir eiga síðan að ræða ákveðið mál, vera með eða á móti einhverju umræðuefni o.s.frv. Fyrir utan standa - eða sitja á öðrum stólum, hinir nemendurnir og fylgjast með umræðunni sem fram fer inni í fiskabúrinu. Finni þeir sem fyrir utan standa sig knúna til að segja eitthvað mega þeir ,klukka" einn úr fiskabúrinu og setjast inn í hringinn í hans stað.
Spyrja má þann hluta nemenda sem fyrir utan er hvað þeim fannst og hvort þeir vilji bæta einhverju við. Þetta tekur allt mið af hópnum, markmiðinu með fiskabúrinu og umræðuefninu.
Mikilvægt er að kynna aðferðina vel fyrir nemendum áður en farið er af stað. Ágætt er einnig að fara yfir helstu reglur í umræðum s.s. að einoka ekki umræðuna, fá aðra nemendur með t.d. með því að spyrja spurninga, tengja við lesefni námskeiðsins, tengja samfélaginu og því sem er að gerast þar og færa rök fyrir máli sínu.
Spurning er hvort allir eigi að taka þátt að endingu? Ef til vill eru sumir nemendur undirbúnir og aðrir ekki og því mætti hugsa sér að yfir misserið myndu allir nemendur taka virkan þátt í fiskabúrinu en fengju að vera á hliðarlínunni í önnur skipti.
Hlutverkaleikir (e. role play) ganga út á það að nemendur fá hlutverk þar sem þeir þurfa að verja hugmyndir eða afstöðu, getur verið pólitísk, hagfræðileg, söguleg, siðfræðileg eða annað. Nemendur fá tíma til að undirbúa sig og afla upplýsinga um hvað þeir standa fyrir í hlutverkaleiknum.
Kennari skiptir nemendahópnum í tvennt. Annar hlutinn fær fyrirlestur um meginhugtakið en engar frekari útskýringar sem t.d. tengja hugtakið samfélaginu. Hinn hluti nemenda fær ýmis önnur gögn t.d. tölur, myndir eða fréttaefni tengt hugtakinu. Hóparnir koma saman, nemendur eru paraðir saman og kenna hver öðrum með aðstoð þeirra upplýsinga og gagna sem þeir hafa.
Vendikennsla (e. flipped classroom) er kennsluaðferð sem þeir Jon Bergman og Aaron Sams ruddu til rúms innan háskólakennslu í byrjun 21. aldarinnar. Vendikennsla snýr að því að nemendur vinna að einföldum þáttum námsins heimafyrir en taka erfiðari þætti þess í kennslustofunni með stuðningi frá kennara og samnemendum.
Nánar er fjallað um vendikennslu undir kennsluaðferðir/vendikennsla eða með því að smella hér.
Það má hugsa sér að nota mismunandi aðferðir við að nálgast mismunandi efni námskeiða og sjóboltaaðferðin gæti verið ein þeirra. Í stuttu máli er snjóboltaaðferðin á þessa leið:
- Nemendur kynna sér viðfangsefni
- Tveir og tveir nemendur bera saman bækur sínar
- Fjögurra manna hópar nemenda leita að niðurstöðu og undirbúa kynningar fyrir allan hópinn
- Hóparnir kynna niðurstöður og kennari skráir hana á töflu
- Kennari og nemendur gera athugasemdir og reyna að komast að niðurstöðu fyrir allan nemendahópinn
Með þessu móti eru allir virkir og hafa sitt að segja um ákveðinn hluta námsefnisins og ásættanlegri niðurstöðu er náð að mati hópsins. Á þennan hátt má fara í gegnum nokkra þætti námsefnis til þess að sýna nemendum fram á hversu þeir eru megnugir saman og að það er þeirra að byggja upp þekkingu sína.
Að fara alla leið
Dæmakennsla eða dæmisögukennsla (e. case studie) er áhrifarík leið til að virkja nemendur og krefst töluverðs undirbúnings.
Nemendur fá í hendur raunveruleg úrlausnarefni þar sem þeim gefst kostur á að leita svara sem aldrei geta verið rétt eða röng. Nemendur þurfa að leita upplýsinga, beita kenningum, greina vanda og meta mögulegar lausnir.
Dæmakennsla er mikið notuð innan ýmissa greina s.s. viðsiptafræði og til eru dæmabankar sem háskólakennarar geta sótt í. Ingjaldur Hanníbalsson sagði um dæmisögurnar að líkja mætti þeim við óperur, sumar væru það góðar, klassískar, að þær ,,lifðu" jafnvel af miklar hremmingar eins og efnahagskreppur.
Kennari flytur stuttan fyrirlestur um viðfangsefnið (10-15 mín.) og leggur fram vandamál sem nemendur glíma við í litlum hópum í a.m.k. 5 mín. - jafnvel lengur.
Kennari ræðir lausnir nemenda og heldur áfram leiðsögn sinni t.d. með því að kynna kenningar og hugtök sem nemendur geta nýtt sér í næsta skrefi. Þannig koll af kolli þar til nemendur hafa náð utan um námsefnið.
Í námi á fosendum nemenda (e. guided design) eru nemendur ,,leiddir" í gegnum námsferlið: Vandinn er skilgreindur og markmið sett, settar fram hugmyndir að leiðum sem fara má við lausnir og þær vænlegustu valdar. Hugsanlegar afleiðinar skilgreindar og áætlanir gerðar um það hvernig ná má markmiði út frá valinni leið. Að lokum er áætlun hrundið í framkvæmd.