Bloom – flokkunarkerfið

Bloom flokkunarkerfið

Á seinni árum hefur flokkunarkerfi Bloom varðandi lærdóm og hæfni verið endurskoðað og er nú víða lagt til grundvallar þegar hæfniviðmið eru sett upp. Eitt grundvallaratriðið varðandi hæfniviðmið er að þau séu þannig gerð að hægt sé að leggja mat á hvort nemendur hafi náð tökum á hæfninni sem stefnt er að. Slík krafa um að hægt sé að mæla hvort viðmiðin hafi náðst gerir framsetningu þeirra flókna í hugum margra og verður jafnvel til þess að kennarar falla í þá gryfju að skrifa hæfniviðmið sem örugglega eru mælanleg en hugsanlega ekki sérstaklega mikilvæg.

Flokkunarkerfi Bloom og samstarfsmanna hans á sviði þekkingar hefur reynst mörgum gagnlegt í þessu sambandi en tilgangur þess er meðal annars að auðvelda kennurum að búa til markmið eða hæfniviðmið fyrir nám. Bloom lítur á nám sem ferli þar sem nemandinn byggir sífellt ofan á fyrirliggjandi þekkingu og skilningur hans eykst. Þekkingarsviðinu skiptir hann í sex stig: minni (e.knowledge), skilning (e.comprehension), beitingu (e.application), greiningu (e.analysis),mat (e.evaluation) og nýmyndun eða sköpun (e.creation).

Markmið á þekkingarsviði miða að því að þjálfa andlega hæfileika nemenda, hugsun og rökleikni. Til þess að ná markmiði á einu stigi þarf nemandi að hafa áður náð markmiðum á þeim stigum sem neðar eru.

Við ritun hæfniviðmiða er gjarnan stuðst við stigveldi Bloom á þekkingarsviðinu og sagnorð sem þar eru notuð til að lýsa þeirri hæfni sem þjálfuð er á hverju stigi fyrir sig. Sjá töflu 1.

Tafla 1.

Flokkur
Á ensku
Dæmi um sagnir
Minni Knowledge Muna, þekkja, nefna, rifja upp, velja…
Skilningur Comprehension Lýsa, umorða, þýða, skýra, umskrifa…
Beiting Application Beita, reikna, flokka, sýna, skrifa, túlka…
Greining Analysis Greina, skilgreina, tengja, rökstyðja, greina á milli…
Sköpun Creation Móta, semja, skapa, breyta, þróa…
Mat Evaluation Meta, gagnrýna, taka afstöðu, setja fram niðurstöður…

 

Sagnorðalisti til niðurhals. Til hagræðis er sögnunum raðað upp undir fyrirsögnum sem líta má á með hliðsjón af flokkunarkerfi Bloom á sviði þekkingar.