Hæfniviðmið námskeiða

Hæfniviðmið námskeiða mæla þá lágmarkshæfni sem nemendur þurfa að búa yfir til að geta lokið námskeiði, hversu vel þeir standast þau er annar mælikvarði og nefnist námsmatsviðmið.

Ímyndum okkur að nemandi komi til kennara síns og segi: ,,Hvað get ég gert að námskeiði loknu?” Svar kennarans eru hæfniviðmið námskeiðsins. Þau þurfa að vera:

  • Hnitmiðuð og auðskiljanleg þannig að ekki fari á milli mála hvers er ætlast til af nemendum
  • 5-7 eða hæfilega mörg – lykilatriði námskeiðs
  • Mælanleg til að hægt sé að ganga úr skugga um að nemendur búi yfir þeirri hæfni sem farið er fram á (nota sagnorðalistann hér til hliðar)
  • Gerleg á þeim tíma sem námskeiðið nær yfir
  • Tengjast lokaviðmiðum námsleiðar á einhvern hátt

Hæfniviðmið ná yfir lykilhæfni sem þjálfuð er í námskeiði og segja til um hvort nemendur hafi náð viðkomandi hæfni og þannig lokið námskeiðinu eða ekki náð henni og fallið.

Mælanleiki hæfniviðmiða tengir þau beint við námsmat og segir til um hvernig nemendur eigi að sýna fram á færni sína. Námsmatið þarf hvorki að vera formlegt né skriflegt – en kennari þarf að geta sagt til um hvort nemendur geti sýnt hæfnina. Hér skiptir því öllu máli að velja rétta sögn sem lýsir því hvað nemendur eiga að geta gert að námskeiði loknu.

Flokkunarkerfi Bloom hefur reynst vel til að aðstoða við val á sögnum í hæfniviðmiðum (Bloom og félagar, 1956). Samkvæmt Bloom fer allt nám fram á þremur sviðum: Þekkingarsviði (e. cognitive domain), viðhorfa og tilfinningasviði (e. affective domain) og leiknisviði (e. psychomotor domain). Á hverju sviði er markmiðum skipað niður í þrep eftir því hve flókin þau eru talin og er flokkunarkerfið stigbundið þannig að hafi nemendur náð markmiði eða hæfni á öðru þrepi má ganga út frá því sem gefnu að þeir hafi náð því fyrsta.

Til að einfalda vinnu kennara er hér til hliðar settur fram listi yfir sagnir (sagnorð) sem lýsa hæfni á ólíkum þrepum.

Óskýr hæfniviðmið – leiðir til úrbóta

Margar námslýsingar innihalda hæfniviðmið sem eru óskýr eða leggja fremur áherslu á þætti úr námskránni en hæfni sem nemandi á að geta sýnt að námskeiði loknu. Því skal ítrekuð nauðsyn þess að nota sagnorð sem lýsa augljósri hæfni fremur en minni eða hugarástandi.

Dæmi:

,,Í lok þessa námskeiðs eiga nemendur að: – Hafa lært að meta menningarlegan fjölbreytileika á vinnustað.” Er hægt að mæla eða meta þessa hæfni? Að læra að meta? Nei, það verður ekki gert svo auðveldlega. Hæfniviðmiðið má hins vegar endurskrifa og lagfæra með því að finna aðrar sagnir sem lýsa hæfni sem beinlínis er hægt að leggja mat á. ,,- Geta gert skriflega grein fyrir kostum menningarlegs fjölbreytileika á vinnustað.” Með þessu móti hafa nemendur skýra hugmynd um hvað það er sem þeir eiga að kunna skil á og geta gert til þess að uppfylla þetta lærdómsviðmið.