Löng opin ritunarverkefni

Löng, opin ritunarverkefni (extended-response essays) henta prýðilega til að meta svonefnda æðri hugsun (higher-order thinking) auk þess að meta svipaða hæfni og metin er með afmörkuðum ritunarverkefnum. Með vísan í flokkunarkerfi Blooms og félaga (Bloom, 1956). þá er hér til dæmis átt við skapandi hugsun eða nýmyndun (synthesis), þ.e.a.s. hæfni til að setja hugmyndir í nýtt samhengi, þar með talin hæfni til að endurskipuleggja, til að setja saman áhugaverða greinargerð, endurskipuleggja, semja (skálda), skapa, endursemja, setja fram tillögur að lausn, hanna, búa til upplýsingavef um eitthvað og svo framvegis. Hér er einnig með talin hæfni til að fjalla gagnrýnið um hluti og meta (evaluate-evaluation), álykta með rökum, gagnrýna, færa rök fyrir (með og/eða á móti), verja, réttlæta, styðja, bera saman styrkleika og veikleika og rökstyðja og taka rökstudda afstöðu til. Slík verkefni henta auk þess prýðilega til að meta skilning, beitingu og greiningu. Stundum er viðeigandi að nota viðmiðatöflu (rubric) við mat svona verkefna.

Dæmi A:

Lengi vel var það álitamál hvort sveppir ættu að teljast plöntur eða ekki. Þeir töldust tilheyra lágplöntum ásamt fléttum, þörungum og mosum. Telur þú að sveppir ættu áfram að teljast til lágplantna eða ekki? Rökstyddu mál þitt með vísan í þekkingu þína á slíkum lífverum, gerð þeirra, lífsferlum, þróun og flokkun.

Dæmi B:

Sérfræðingar á sviði heilbrigðismála eru almennt sammála um að reykingar séu hættulegar bæði þeim sem stunda þær og einnig þeim þurfa að umgangast reykingafólk. Af þeim sökum er nú orðið bannað að reykja víðast hvar þar sem fólk kemur saman. Enn finnast þó þeir sem telja að slíkt bann sé brot á mannréttindum. Taktu afstöðu til þessa sjónarmiðs, með eða á móti, og rökstyddu afstöðu þína eftir því sem kostur er.

Dæmi C:

Egill Skallagrímsson orti kvæðið Sonatorrek vegna þess að hann missti tvo syni sína. Fyrstu viðbrögð Egils voru þó önnur. Lýstu þeim og láttu í ljós skoðun þína á þeim. Berðu þau saman við siðferðileg viðmið sem tíðkast nú á dögum. Ef tekið er mið af persónueinkennum Egils, hvernig mætti vænta að hann hefði brugðist við ef hann væri uppi nú og stæði frammi fyrir sams konar missi? Rökstyddu mál þitt eftir því sem kostur er; skapandi hugmyndir í svari eru vissulega leyfðar.