Huglæg prófatriði

Huglæg prófatriði

Þegar kemur að gerð skriflegra kunnáttuprófa hafa hlutlæg prófatriði margvíslega kosti umfram huglæg prófatriði og prófsemjendur hafa því tilhneigingu til að velja þau frekar sé þess nokkur kostur. Í fyrsta lagi gera þau prófsemjendum betur kleift að stjórna því hvernig próftakar svara og auka þar með líkur á góðum áreiðanleika. Með þeim næst að meta fleiri atriði úr efni námskeiðs en ella og yfirferð er fljótlegri og markvissari. Þrátt fyrir þetta er óhjákvæmilegt að beita huglægu mati í mörgum tilvikum. Sum hæfniviðmið (e. learning outcomes) er einungis hægt að meta með þeim hætti. Slík prófatriði krefjast þess að próftaki orði svör sín sjálfur, allt frá fáeinum orðum upp í nokkurra blaðsíðna ritgerðir. Í fyrsta lagi getur verið um að ræða bein svör við afmörkuðum spurningum (e. short-answer items), í öðru lagi styttri, afmörkuð ritunarverkefni (e. restricted-response essays) og í þriðja lagi löng, opin ritunarverkefni (e. extended-response essays).

Heimildir