Dæmi frá kennara með reglum um Zoom kennslustofu

Dæmi um leiðbeiningar sem Auður Hermannsdóttir, aðjúnkt við Viðskiptafræðideild, sendi á sína nemendur vegna ZOOM funda

Sæl öll

Tengillinn á Zoom kennslustofuna okkar er https://eu01web.zoom.us/my/audurhermanns

Þennan tengil er ég búin að setja inn á svæðið okkar á Uglu og við notum hann út námskeiðið.

Þið skuluð smella á tengilinn og byrja það ferli að komst inn í kerfið. Þið farið mögulega fyrst inn í biðstofu (ef þið mætið snemma inn í kerfið) en ég samþykki ykkur svo inn.

Við byrjum tímann klukkan 9.

Allir góðir vettvangar hafa samskiptaviðmið, leynd eða ljós. Í kennslustundum okkar í gegnum Zoom væri ákjósanlegt að miða við eftirfarandi:

  1. Þegar þið komið inn í Zoom-kennslustofuna skuluð þið hafa slökkt á hljóðnemanum (icon niðri í vinstra horni inni í Zoom þar sem hægt er að slökkva og kveikja á hljóðinu)
  2. Hafið slökkt á hljóðnemanum allan tíman, nema þegar þið eruð að tala. Það auðveldar öll samskipti svo ekki heyrist bakgrunnshljóð hjá þátttakendum, slíkt getur auðveldlega truflað spjallið verulega.
  3. Verið með kveikt á myndavélinni á meðan á kennslustund stendur (icon niðri í vinstra horni inni í Zoom þar sem hægt er að slökkva og kveikja á myndavélinni). Slíkt eykur tilfinningu okkar um að við séum saman í „kennslustofunni“ og gerir samskiptin persónulegri. Þegar við tökum pásur eða þegar þið þurfið að stökkva frá getið þið slökkt á myndavélinni.
  4. Ykkur er alltaf velkomið að tjá ykkur og ég vil gjarnan að þið gerið sem mest af því. Þið kveikið þá á hljóðnemandum og hoppið inn í samtalið.
  5. Ef annar nemandi er í miðri setningu, en ykkur langar að tjá ykkur, þá réttið þið upp hönd. Það er fítus inni í Zoom sem gerir ykkur kleift að rétta upp hönd.
  6. Endilega nýtið ykkur spjallið (chat-fítusinn) í Zoom til að koma ykkar vangaveltum á framfæri eins og þið viljið, þegar þið viljið.
  7. Þegar ég kalla eftir viðhorfum ykkar þá er ykkur frjálst að nýta hljóðið eða spjallið, hvort sem hentar ykkur betur. En endilega nýtið annað hvort.

Höfum þetta eins lifandi og skemmtilegt og okkur er unnt. Í þessu felast spennandi tækifæri sem opna nýja möguleika. Hafið í huga að öll íslensku fyrirtækin sem eru með starfsstöðvar erlendis nýta svona fjarfundabúnað daglega í samskiptum innan fyrirtækjanna. Jafnframt mörg af stærri fyrirtækjunum sem starfa bara hérlendis. Það eru því allar líkur á að mörg ykkar munuð starfa í gegnum svona fjarfundabúnað daglega innan örfárra ára. Um að gera að nýta tækifærið og þjálfa sig í að nýta þennan vettvang til hins ítrasta.

Varðandi hópvinnuna: Þið eruð líklega mörg hver að nýta allskonar kerfi til að vinna í verkefninu. Einn möguleiki sem þið viljið mögulega nýta ykkur núna í ljósi aðstæðna er Teams. Hér má finna leiðbeiningar frá Upplýsingatæknisviði Háskóla Íslands varðandi Teams: http://uts.hi.is/node/1402