Matskvarðar (rubrics)

Endurgjöf á verkefni er þar sem skórinn kreppir helst í kennslu við Háskóla Íslands að mati nemenda. Þeir telja að endurgjöf kennara sé oft óljós og berist þeim of seint til að verða  þeim til gagns við nám. Sístækkandi nemendahópar gera kennurum hins vegar erfitt um vik að veita góða endurgjöf þó vitað sé  að slík endurgjöf sé nemendum mikilvæg í námi.

Matskvarðar (e. rubrics) eru viðmið sem notuð eru til að leggja mat á verkefni nemenda. Notkun matsvarða auðveldar kennurum yfirferð verkefna og veitir nemendum leiðbeinandi endurgjöf á vinnu þeirra. Notkun matskvarða eykur líkur á samræmdri yfirferð verkefna, ekki síst í stórum hópum þar sem  margir koma að yfirferðinni. Þá veitir notkun matskvarða ákveðið gagnsæi fyrir nemendur þannig að þeir átta sig á því hvernig vinna þeirra er metin, ekki síst ef matskvarðar eru þeim aðgengilegir áður en þeir hefja vinnu við verkefnin og vita þannig hvaða vinnu þeir þurfa að inna af hendi til að ljúka verkefninu á viðhlýtandi hátt.

Það getur tekið tíma að útbúa góðan matskvarða en sú vinna getur bæði sparað kennara tíma við yfirferð verkefna og verið nemendum góður stuðningur í að vinna verkefni. Gátlistar og matskvarðar eru til af öllu tagi. Hér er t.d. sýnishorn frá háskólanum í Reading af kvarða þar sem lagt er mat á akademíska ritun nemenda: http://www.reading.ac.uk/web/FILES/EngageinFeedback/Blank_essay_feedback_sheet.pdf

Mynd: Kristinn Ingvarsson
Mynd: Kristinn Ingvarsson